Það er sitthvað norn eða flagð

Nú er ég loksins búin að hitta þetta sataníska kvendi sem nágrannarnir hafa talað svo mikið um. Ég játa að í fyrstu hélt ég að útlendingafordómar kynnu að spila inn í umsögn grannanna um Ruslönu (við höfum að hún heiti eitthvað svoleiðis) en hef nú komist að þeirri niðurstöðu að hún eigi fyllilega skilinn galdurinn sem Spúnkhildur kastaði á hana í morgun.

Ég var að mála gluggana þegar Rusla birtist til að sækja eitthvað sem hún hafði skilið eftir í húsnæðinu. Hún sagði mér undan og ofan af harmsögu fyrirtækjareksturs síns en eftir að hafa eytt 6 vikum í undirbúning kom í ljós að til að reka veitingasölu þarf víst veitingaleyfi, loftræstingu og sitthvað fleira sem henni hafði láðst að gera ráð fyrir.

-Vinnueftirlit ekki leyfa neitt og kosta mikið að hafa veitingaleyfi. Má ekki steikja, má ekki grilla, má ekki má ekki, svo ég bara gera sjoppa, sagði Rusla og dæsti.

Ég kinkaði kolli með hluttekningu og sleppti því alveg að viðra þá skoðun mína að hugsanlega hefði verið hægt að taka skynsamlegri ákvörðun en að fara í beina samkeppni við fyrrum vinnuveitendur sína sem reka rótgróna hverfissjoppu beint á móti, enda ekki í mínu valdi að kenna þessari ógæfusömu sjoppukonu fyrirtækjarekstur.

-Og svo bara koma engin fólk og ekki margir sem búa hér og líka önnur sjoppa hérna svo ég bara fara í fýlu og hætta, hélt hún áfram.

Jú, ég var svosem búin að frétta það. Hafði víst rölt sig yfir í samkeppnissjoppuna og boðið eigendum að kaupa af sér reksturinn. Ekki samt fyrr en á öðrum degi. Hún hélt svo út í heilan mánuð áður en hún bara fara í fýlu og hætta.

Ég hélt áfram að kinka kolli og tók hikstalaust undir spádóma hennar um að mitt fyrirtæki væri sama sem dauðadæmt á þessum stað. Hún bauð mér svo hluta af innréttingunum, búðarborð með mörgun hillum, til kaups á 30.000 kr. Mér fannst verðið fullhátt fyrir ekki merklegra borð en sagðist skyldu bera það undir Spúnkhildi. fimm mínútum eftir að hún fór hringdi hún svo í mig og sagðist þurfa að fá 45.000 fyrir borðið. Af minni hálfu var málið þá þegar dautt.

Tveim tímum síðar kom hún aftur til að semja við Listamanninn um verð á ýmsum breytingum sem hún hafði látið gera á húsnæðinu án hans vitundar og samþykkis, m.a. vildi hún að hann greiddi fyrir græna flögutexgólflakkið sem við vorum einmitt í þann veg að fara að lakka yfir sökum óvenjulegs ljótleika þess. Listamaðurinn sem er hið mesta ljúfmenni aftók það í mestu rósmemi og dró auk þess í efa réttmæti þess að hún krefði hann um tugi þúsunda fyrir að minnka dyrnar og taldi þá aðgerð vera skemmdarverk fremur en endurbætur. Ekki stóð á svarinu hjá Ruslu, hún stillti sér upp í gættinni og sagði;

-Það er ekki lítið sjáðu, nóg pláss fyrir mig. Þú bara hávaxinn!
Listamaðurinn neitaði samt að borga styttinguna á hurðinni og manndrápsþröskuldinn sem hann hafði hvorki beðið um né samþykkt. Þá argaði Rusla. Hún argaði líka þegar listamaðurinn neitaði að greiða 45.000 krónur fyrir fyrrnefnt búðarborð, þar sem uppistaðan í því væri hilla í hans eigu, sem hefði verið notuð til að smíða borð úr að honum forspurðum.

Við Spúnkhildur fórum á kaffihús á meðan þau gerðu út um restina. Þegar við komum aftur var listamaðurinn farinn en Rusla bauð okkur borðið (smíðað úr hillu listamannsins) í þetta sinn á 30.000. Við afþökkuðum.

Síðar kom í ljós að hún hafði þá þegar samið við listamanninn um ákveðið verð fyrir allar innréttingar, þ.m.t. þetta stórmerkilega borð. Nú jæja, hún hefur væntanlega reiknað með að við myndum nota það hvort sem er og því þá ekki að fá það tvígreitt? Þetta kallar maður að kunna að bjarga sér.

Spúnkhildur er búin að kasta á hana galdri. Ef hann heppnast munu vaxa svört hár út úr nefinu á henni. Ég vona að hann heppnist.

Best er að deila með því að afrita slóðina