Í sveitinni

Ég hélt á varalitnum þegar Sigrún renndi í hlað í morgun, 5 mínútum of snemma og rauk út með ómálaða neðri vör. Reyndar ekki í minipilsi og á hælum því þótt það hefði verið mun huggulegra reikna ég ekki með að körlunum hefði orðið mikið úr verki ef ég hefði flaggað ómótstæðilegi flóðbylgju lærapoka minna og ekki vill maður nú skaða hagsmuni fyrirtækisins.

Eftir rússíbanaferð austur á Nesjavelli með Sigrúnu við stýrið og tvær skelfingulostnar konur auk sjálfrar mín í bílnum komst ég loksins í „kallfæri“ í orðsins bókstaflegustu merkingu. Hinir ægifögru iðnaðarmenn voru nefnilega velflestir hangandi í 6 metra hæð utan á einhverju grindarvirki, líkustu risastóru mekkanói og litu ekki einu sinni upp við innrás saumaklúbbs á svæðið.

Ég skimaði svæðið en sá hvergi þessa kæliturna sem við áttum að fara að vinna við svo ég spurði verkstjórann hvar við ættum að koma böggunum fyrir. Hún benti á grindina mikilfenglegu.

<em>-Þetta er kæliturninn. Þegar hann er tilbúinn er böggunum raðað í grindurnar,</em> sagði hún.
<em>-Þegar hann er tilbúinn? Áttu við að hann sé ekki tilbúinn?</em> spurði ég.
<em>-Nei, hann er náttúrulega ekki tilbúinn,</em> svaraði Sigrún.
<em>-Hvað erum við þá að gera hér?</em> spurði ég forviða.
<em>-Nú, við erum að fara að reisa turninn.</em>
Ég hef líklega orðið skrýtin á svipinn. Að vísu hafði Sigrún sagt að við værum að fara að hjálpa til við að byggja turninn en áður hafði alltaf verið talað um að við færum á Nesjavelli til að stafla böggum, svo ég hélt náttúrulega að hún væri bara að að grínast. En þetta var semsé ekki grín.

Við horfðum nokkra stund á verkefnið sem lá fyrir og leit hreint ekki út fyrir að vera kvenmannsverk en Sigrún hafði engar áhyggjur af því að þetta yrði okkur ofviða. Vitnaði í Pétur sem varð bakveikur eftir 2 daga á færibandinu og hafði orðið dauðfeginn að fá að fara í sveitina. Hann segði að þetta væri léttara, sagði Sigrún og virtist alveg sjást yfir þessa litlu líffræðilegu staðreynd; nefnilega þá að karlmenn eru sterkir. Þeir geta auðvitað fengið bakverk af rangri líkamsbeitingu rétt eins og við en þeim finnst ekkert erfitt að bera þunga og fyrirferðarmikla hluti.

Nú jæja. Ég hef aldrei verið í byggingavinnu áður og þótt það verði kannski ekki gullin lína í afrekaskránni er um að gera að nýta tækifærið til að stækka þægindasvæðið.

Niðurstaða dagsins er sú að byggingavinna (allavega þetta tiltekna verkefni) er ekki erfiðara en að framleiða plastbagga í kæliturna. Allavega ekki á meðan hópur stæðilegra karlmanna er á þönum við að aðstoða mann á allan hátt og veðrið er skaplegt. Nei, ekki erfiðari en reynir samt á allt aðra vöðva og í augnablikinu er ég svo þreytt að ef væri ekki búin að kaupa miðana og bjóða móður minni í leikhús, myndi mig sennilega langa meira að skríða undir sæng. Það er þó ekki í boði því sú gamla er mætt. Í augnablikinu situr hún til borðs með krökkunum og er að borða taco með þeim og kenna þeim klámvísur. Hún er nýbúin að hafa yfir stökuna;

Að mér riðu átján menn
einn þeirra var graður
kominn er á kvið mér enn
Klemens sýslumaður.

Ég vona samt að Byltingamaðurinn stilli sig um að fara með sínar eigin sóðavísur fyrir hana. Það er sjálfsagt pempíuháttur í mér en mér finnst eitthvað óþægilegt við það þegar ömmur og barnabörn sameinast í dónahúmor.

Best er að deila með því að afrita slóðina