Sefurðu hjá gerpinu?

Sefurðu hjá gerpinu? spurði Endorfínstrákurinn en hljómaði hreint ekki eins og hann væri ánægður með þá hugmynd.
-Nei það geri nú ég ekki. Ekki enn að minnsta kosti. Og leitt að tilkynna þér það elskan en hann er bara hreint ekkert gerpi, sagði ég.
-Ooooooúúú! ég sá hvernig þú horfðir á hann þarna um kvöldið. Af hverju ert’ekki löngu búin að taka hann?
-Í fyrsta lagi ‘tekur’ maður ekki bara næsta mann án þess að spyrja hann álits og í öðru lagi þá þarf maður ekki endilega að sofa hjá öllum sem manni finnst gaman að horfa á, útskýrði ég og notaði kennaratóninn viljandi.
-Gatjú! þú sagðir ekki að þig langaði ekki, sagði drengurinn sigri hrósandi.

-Yndið mitt eina, ég á einn bólfélaga og það dugar mér þótt við höfum ekkert um að tala og ef ég riði öllum sem mig langar í þá gerði ég nú ekki mikið annað. Maður neyðist víst til að vinna og sofa og taka úr þvottavélinni líka, sagði ég.
-Í alvöru Eva, þú sleppir því nú að pæla í þessum gaur, hann lítur út fyrir að vera þrítugur! sagði drengurinn (sem sjálfur lítur út fyrir að vera sextán ára).
-Jamm, sagði ég, það gengur náttúrulega ekki að kona sem er ekki nema rétt tæplega fertug sé að fantasera gamalmenni sem líta út fyrir að vera komin fast að þrítugu.

Svo vakti ég þann umrædda og dró hann með mér í hádegismat.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina