Zen

– Hvar í fjandanum á ég að ná í þessar 700.000 krónur sem mig vantar? spyr ég og skipti spilabunkanum. Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni fylgist með af uppgerðar áhuga.

-Hverslags eymdarinnar bull er þetta eiginlega? hnussa ég gröm. Ég spyr hvernig ég eigi að verða mér úti um það sem mig vantar upp á til að geta keypt íbúðina og þessi heimsku spil koma með mynd af trúði og segja mér að hætta að taka lífinu svona alvarlega og reyna frekar að skemmta mér svolítið meira. Það er lítil skynsemi í því.

-Heldurðu að geti ekki verið að nærvera mín hafi áhrif á það hvaða spil kemur upp? segir Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni.
-Það hlýtur eiginlega að vera, ég dreg þennan trúð ekki oft, segi ég og hann er svosem ósköp skemmtilegur en nú vantar mig svar við því hvað ég eigi að gera í fjármálunum.
-Osho, Zen, eru það ekki svona búdda spil? spyr drengurinn.
-Jú, einmitt.

-Eva. Hvernig dettur þér í hug að spyrja búddaspil um fjármál?
-Hmphh. Ég vissi ekki að þú hefðir yfirhöfuð skoðun á tarotspilum.
-Nei að vísu ekki en pældu aðeins í þessu. Búddamunkar trúa því að tilgangur lífins sé sá að tsjilla þar til þeir ná alsælu ástandi án þess að taka e-pillu. Þeir ganga í appelsínugulum kjólum sem kosta 7000 kall eða minna og það er það eina sem þeir eiga. Og þú spyrð spilin þeirra hvernig þú eigir að ná í peninga! Ekki myndi ég treysta svona jólasveinum fyrir fjármálunum mínum. Ég er ekki hissa þótt þú fáir trúðinn.
-Það er satt, segi ég, líklega ætti ég frekar að spyrja Crowley spilin. Eða bara bankann.

-Það er samt nokkuð til í þessu hjá búddunum, segir drengurinn. Ég meina, trúðurinn kemur upp þegar ég er á staðnum, og klukkan orðin 5 svo það er ekkert hægt að gera í fjármálunum hvort sem er. Kannski spurning um að fara út og mála bæinn rauðan, svona einu sinni.
-Þú fyllir æðar mínar af endorfíni, segi ég en ég er að fara að vinna eftir 2 tíma og vantar einhvern sem fyllir þær af adrenalíni fyrir vaktina.
Svo gúlla ég í mig kókosbollu og kaffi.

-Coffein virkar ekki rassagat, segi ég, ekki sykur heldur, og drengurinn sem verður veikur af hvorutveggja horfir á mig með hryllingi og segir mér enn einu sinni frá öllum ótímabæru dauðsföllunum sem beinlínis megi rekja til ofneyslu á sykri, smjöri og coffeini. Kleinur eru lífshættulegar, kókosbollur líka, kaffi bráðdrepandi og sá sem lætur þetta alltsaman ofan í sig, stundum allt sama daginn, má reikna með að fíknin dragi hann von bráðar til geðveiki og dauða.
-Meðan ég fitna ekki er mér slétt sama, segi ég og sleiki hvítt kremið hægt og ögrandi.
-Þú gerir þetta viljandi, segir hann og læst vera hneykslaður og ég svara engu, brosi bara sakleysislega og sleiki á mér fingurna.

Það verður að vera smávegis trúður í tilverunni. Breytir þó ekki því að ég er engu nær um það hvernig ég á að redda fjármálunum. En það bjargast, einhvernveginn. Það eru ekki örlög mín að vera blönk.

Best er að deila með því að afrita slóðina