Um aumingja og ojmingja

Karlmaðurinn er merkileg dýrategund sem veldur mér sífelldum heilabrotum. Áratugalangar rannsóknir mínar á fyrirbærinu hafa leitt mig að þeirri niðurstöðu að gróflega megi flokka karlmenn í þrjár meginmanngerðir.

Fyrsta flokkinn fylla karlmenn. Þeir geta verið misgáfaðir og misskemmtilegir, sumir þeirra eru í aðra röndina óttalegar kellingar og nokkrir þeirra eru útlitsgallaðir. Í raun eiga þeir fátt sameiginlegt annað en það að falla ekki í hina flokkana tvo. Af skiljanlegum ástæðum eru flestir þeirra sem falla í þennan flokk fráteknir.

Önnur týpan og líklega sú algengasta er hinn almenni aumingi. Auminginn er venjulega frekar skemmtilegur og hefur, þrátt fyrir augljósa vanhæfni á sviði mannlegra samskipta, fjárhagslegt ábyrgðarleysi, drykkjuhneigð og fjölþreifni til kvenna, sérstakt lag á því að telja kvenfólki trú um að hann sé nokkuð vænlegur kostur. (Konur eru líka frekar heimskar svo það er kannski ekki að marka. Aðaleinkenni aumingjans er lélagt minni, einkum gagnvart eigin skuldbindingum og loforðum. Sem dæmi um fyrsta stigs aumingja má nefna manninn sem mætti ekki á stefnumót á laugardagskvöldi af því að hann þurfti að taka til heima hjá sér, og lét ekki dömuna vita, af því að þegar hann ætlaði að hringja í hana varð honum það óvart á að leggja sig og grjótsofnaði svo bara. Annars stigs aumingi væri t.d. maðurinn sem gleymdi að segja dömunni að hann ætti eiginlega kærustu og gleymdi svo að láta kærustuna vita að hann væri kominn með aðra.

Þriðja megin manngerðin er svo þessi sem gengur hreinlega fram af manni. T.d. menn eins og dindillinn sem hefur engar tekjur nema námslán konunnar sinnar og getur þessvegna ekki greitt meðlag með barninu sínu. Þeir sem fylla þennan flokk eru oft ranglega kallaðir aumingjar. Grundvallarmunurinn á þeim og venjulegum aumingjum er sá að það er ekki drykkjuskapur, hvatvísi og rugludallsháttur sem er undirrótin að framkomu þeirra, heldur eðlislæg tilhneiging til að setja sínar eigin þarfir og sjónarmið í fyrsta sæti, nákvæmlega sama hver á í hlut og hversu langan tíma þeir fá til að átta sig á eigin siðleysi. Til aðgreiningar frá venjulegum aumingjum hef ég kosið að kalla þessa menn ojmingja.

Best er að deila með því að afrita slóðina