Sonur minn Fatfríður

Sonur minn Byltingamaðurinn keypti sér jakka og buxur, m.a.s. skyrtu og bindi líka, í tilefni af því að unnusta hans Sykurrófan bauð honum á árshátíð. Skyrtan er blá og bindið brúnt og appelsínugult. Ekki spyrja mig hvaðan drengurinn hefur þvílíkt smekkleysi.

Honum þótti þetta að vísu afar slæm fjárfesting, enda heldur hann að hann sé mun kynþokkafyllri í rifnu tjaldi en alvöru fatnaði en hann huggaði sig við þá hugmynd að hann væri í rauninni ekki að fjárfesta í fatnaði, heldur í velþóknun sinnar yndisfögru, að ég tali nú ekki um velþóknun hinnar kirkjuræknu tengdamóður hans sem finnst ekki par fínt að ganga í gauðrifnum kolaportsgörmum og kallar hann aldrei annað en „sóðabrók“. Sjálfur er hann fremur ósáttur við þann titil, enda fer hann í bað minnst einu sinni á dag, oft tvisvar og gengur alltaf í tárhreinum niðursetningsleppum. M.a.s. ósamstæðu sokkarnir hans eru alltaf hreinir. Ef þeir verða óhreinir fer hann strax úr þeim og skilur þá eftir á stofugólfinu. Að hans mati má líka einu gilda þótt herbergið hans líti út eins og óhreinatauskarfa sem hefur orðið fyrir loftárás; ekki er tengdamóðir hans að teygja sitt langa nef þangað inn.

Á heimili Sykurrófunnar hefur náðst þögult samkomulag um ástarsamband einkadótturinnar við „sóðabrókina“. Þegar sóðabrókin gistir hjá dótturinni, kveður hann foreldra hennar prúðmannlega, fer svo bak við hús og klifrar inn um gluggann. Að morgni klifrar hann aftur út, röltir að næsta strætóskýli, 5 mínútum á undan kærustunni og veifar glaðlega til tengdapabbans um leið og hann ekur fram hjá á leið til vinnu. Um helgar fer hann einfaldlega að framdyrunum, bankar upp á og spyr hvort sín heittelskaða sé vöknuð.

Allir vita að hann gistir en með þessu fyrirkomulagi getur tengdamamma talið sjálfri sér trú um að enginn viti að hún veit það og allir eru glaðir. Þar með getur enginn ásakað hana þótt litla hnátan hennar (á 19. ári) verði dregin á tálar af sér yngri manni. Slíkt gerist ekki nema blessuð börnin verji saman nótt enda dóttirin íðilfagra sennilega allt of vel upp alin til að finna fyrir holdlegum losta fyrir miðnætti. Hún má vitanlega ekki gista hjá sóðabrókinni enda reiknar tengdamamman sennilega ekki með því að mér sé treystandi til þess að útvega telpunni rúm í öðru herbergi eins og hún sjálf gerði, þetta eina skipti sem sóðabrókin fékk formlegt leyfi til að gista hjá þeim.

Ég verð að játa að það er dálítið einkennilegt að sjá son minn Byltingarmanninn í jakka og með bindi. Hann fór m.a.s. í samstæða sokka, sem er náttúrulega algerlega úr karakter. Sjálfur sagðist hann líta út eins og laganemi en mér fannst hann minna meira á Jón Ásgeir. Kannski maður gæti vanist þessu ef hann léti klippa sig en ég held ekki að það sé á dagskrá hjá honum á næstunni.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina