Frumdrög að túlkunarlykli með dæmigerðum karlmanni

Tveggja áratuga rannsóknir mínar á karlkyninu hafa leitt mig að þeirri niðurstöðu að ástæðan fyrir því að stundum skil ég ekki karlmenn, er ekki sú að ég sé svona treg, heldur sú að karlar gera ekkert minni kröfur til þess en konur að aðrir lesi hugsanir þeirra. Tregða þeirra til að orða hlutina beint kemur bara dálítið öðruvísi út og kemur fram á öðrum sviðum.

Allir vita t.d. að þegar kona segir „það er dálítið kalt hérna inni“, þá heldur karlinn að hún sé að segja fréttir. Ef hún vill að hann loki glugganum þá verður hún að orða það hreint út „viltu loka glugganum“. Karlar eru hins vegar ekki alltaf svona hreinir og beinir sjálfir þótt þeir skilji ekki skilaboð nema þau feli í sér beinar skipanir. Reyndar held ég að fyrir konur eins og mig, væri ekki vanþörf á því að sérstakur túlkunarlykill fylgdi hverju eintaki.

Þar sem enginn vill mig, nema unglingar, gamalmenni, fatlaðir og kvæntir menn, hef ég ekki ennþá öðlast næga reynslu af karlmönnum til að taka saman fullnægjandi túlkunarlykil. Þó eru fáein atriði í orðræðu karlmanna sem ég hef á síðustu 20 árum, komist að niðurstöðu um hvernig beri að túlka og vil nú deila visku minni í þessum efnum með kynsystrum mínum.

Dæmi um það hvað karlinn vildi sagt hafa, þegar hann verður hræddur:

Þú sefur hjá hjátrúarfullum og taugaveikluðum karlmanni sem heldur því fram fullum fetum að reimleikar herji á húsið. Þú ert rétt að festa svefninn þegar hann rýkur upp með andfælum og telur sig hafa heyrt eitthvert hljóð.

-Þú:Ertu hræddur elskan? Hann:
-Nauthhs, ég var bara að pæla í hvað þettaværi.
-Það sem hann á við: Já ég er lafhræddur en finnst vandræðalegt að viðurkenna það. Viltu vera svo væn að þykjast vera miklu hræddari en ég, svo ég fái tækifæri til að telja kjark í sjálfan mig með því að
hugga þig.

Láttu þetta bara eftir honum, ef þú þolir ekki svona leikaraskap geturðu bara losað þig við hann næsta morgun. Og í
guðsbænum ekki bjóðast til að fara fram og athuga hvaðan hljóðið kemur, þú gætir alveg eins ráðist á karlmennsku hans með því að vorkenna honum fyrir að hafa lítið typpi.

Dæmi um það hvernig karlmenn koma löngunum sínum á framfæri

-Þú: Ég ætla að fara hérna inn og kaupa mér súkkulaði, vilt þú ekki líka?
-Hann: Neeei, ég held ekki, ég er ekkert sérstaklega mikið fyrir sælgæti.
-Það sem hann á við: Jú auðvitað en þótt ég skilji engan veginn hvers vegna, þá finnst mér samt eins og karlmenn eigi ekki að viðurkenna að þeim þyki súkkulaði gott. Vertu svo væn að kaupa handa mér líka því annars endar þetta með því að ég ét helminginn af þínu.

Dræmmt neeeei þýðir sennilega já, þegar það tengist fæðu eða öðru líkamlegu. Málið er að karlmenn eru kannski minna fyrir hlaupbirni og mola með dísætri jarðarberjakemfyllingu en konur en ÖLLUM finnst súkkulaði gott. Það er vegna þess að súkkulaði er gott í eðli sínu. Ef þú býður karlmanni bland í poka eða skittles og hann pýrir augun, hryllir sig og kveður sterkt að orði, er honum sennilega full alvara með nei-inu, þessvegna skaltu alltaf kaupa súkkulaði líka ef þú ætlar að gúlla í þig sætindum í návist karlmanns.

Dæmi um það hvernig karlmenn tala þegar þeir eru einmana:

Maður sem þú hefur einu sinni eða tvisvar sofið hjá og veit að þú hefur engan áhuga á næturlífi borgarinnar, hringir í þig kl. 9 á föstudagskvöldi.
-Hann: Hæ hvað er verið að gera?
-Þú: Bara horfa á sjónvarpið.
-Hann: Á ekkert að fara út á lífið?
-Það sem hann á við: Ég er að visna upp af einsemd og vil að þú komir til mín en það hljómar bara svo örvæntingarfullt að biðja þig um það. Viltu segja mér að þú nennir ekki út og stinga frekar upp á því að ég heimsæki þig með örbylgjupopp og gott myndband.

Ef hann hringir í þig svona snemma er það líklega vegna þess að hann vill hitta þig, ekki af því að hann langi út á lífið. Ef hann þarf endilega að fara út á lífið þótt þú nennir ekki með honum, er hann sennilega alki.

Nokkur dæmi um það sem karlmenn eiga við þegar þeir tala um sjálfa sig:

Þú kynnist manni á einkamal.is Í auglýsingunni hans kemur fram að hann sé hann sé „myndarlegur, rómantískur, fjárhagslega sjálfstæður og menntaður“. Þú ákveður að ræða við manninn í síma, og spyrð hann aðeins nánar út í
þessi atriði, drykkjusiði hans o.fl.

-Hann (borginmannlega): Ég er 52ja ára, þótt ég líti nú ekki út fyrir það. Flestir halda að ég sé svona 46-48.
-Það sem hann á við: Ég er, eins og felstir karlar á mínum aldri, nákvæmlega jafn gamall og ég lít út fyrir að vera en er duglegri við að blekkja sjálfan mig hvað varðar útlit og líkamlegt atgervi, en flestar konur.

-Hann: Já, ég er mjög rómantískur, mikið fyrir góðan mat og kertaljós og svona.
-Það sem hann á við: Ég hef ekki kveikt á kerti heima hjá mér síðan um síðustu jól en ég myndi glaður grafa upp gamla
kertastubba ef þú kæmir í heimsókn. Draslið sést verr í daufri birtu. Ég hef gaman af góðum mat en borða oftast örbylgjumat fyrir einmana Íslendinga og vil að þú komir og breytir lífsstíl mínum og eldir kjötsúpu.

-Hann: Ég er nú kannski ekki beinlínis bindindismaður, drekk gjarnan gott vín með matnum og svona. Og svo dettur maður kannski í það svona með vinnufélögunum af og til og svona. Lífið væri nú lítið skemmtilegt ef maður sletti aldrei úr klaufunum.
-Það sem hann á við: Ég er þetta dæmigerða fífl sem heldur að konur falli umsvifalaust fyrirm manni sem lifir fyrir steikur og rauðvín. Hvaða hálfviti heldur þú að drekki vín með örbylgjumatnum og já ég fer á fyllirí, ekki með vinnufélögunum því þeir eiga allir einhverjar helvítis fjölskyldur, heldur þvælist ég einn á milli pöbba og fer venjulega einn heim eftir fullkomlega misheppnað kvöld. Hvern fjandann á maður annað að gera um helgar?

Eina leiðin til að komast að því hvort maðurinn hefur stjórn á drykkju sinni eða ekki, er sú að kynnast honum. Því oftar sem hann segir -og svona, því meiri líkur eru á að hann sé fullkominn lúser og ef hann notar orðalagið „að sletta úr klaufunum“ er það öruggt merki þess að hann kann ekki að skemmta sér.

-Hann: Maður er náttúrulega með ágætar tekjur og svona en fjármálin gætu náttúrulega staðið betur. Maður gekk í gegnum skilnað og svona og náttúrulega eftirlét maður konunni næstum allt. Hún er nú með börnin og svona.
-Það sem hann á við: Ég er reyndar ekki gjaldþrota en staurblankur, með hærri greiðslubyrði en ég ræð við og skulda meðlagsgreislur 3 ár aftur í tímann.

Karlmaður sem skýrir blankheit sín með því að fyrrverandi konan hans sé svo kröfuhörð er nánast alltaf lúser, forðaðu þér.

-Hann: Maður er náttúrlega enginn fræðingur svosem, en maður hefur nú allavega meirapróf og svo var ég byjaður að læra þjóninn en hef aldrei klárað það. Maður klára það kannski einhverntíma, he he. Meira upp úr vörubílnum að hafa sko.
-Það sem hann á við: Ég var eina önn í námi en féll sökum djammgleði og heimsku og ætla aldrei í nám aftur.

Ef þú ert að leita að manni með þokklega menntun, hlauptu þá yfir allar auglýsingar þar sem ekki eru orð eins og háskólamenntaður, iðnmenntaður, verslunarpróf o.s.frv. Orðið menntun hefur ekkert gildi á einkamal.is

Hér hafa aðeins verið nefnd örfá dæmi um það sem karlmenn eiga sennilega við með því sem þeir segja. Þær ykkar sem hafa fleiri dæmi haldbær mega gjarnan senda mér þau í tölvupósti. Kannski tekst mér þá á endanum að skilja karlmenn nógu vel til að einhver þeirra endist í sambandi við mig lengur en 2 mánuði.

Best er að deila með því að afrita slóðina