Tilfinningaklám

kort

Ég hef oft heyrt það viðhorf að klámmyndaáhorf sé skaðlegt og þá einkum ungum karlmönnum, þar sem sú mynd sem dregin er upp af samskiptum kynjanna í slíkum kvikmyndum sé fjarri veruleikanum og ali af sér kvenfyrirlitningu og röng viðhorf til kynlífs.

Vel má vera að ungir klámáhugamenn telji almennt að eðlileg kona sé með brjóst á stærð við grasker, finnist dásamlegt að fá sæðisgusu í andlitið og eigi sér þá ósk heitasta að karlmaður, bara einhver karlmaður, reki 12 tommu göndul niður í vélindað á henni.

En ef klám gefur ungum mönnum ranghugmyndir um kynlífið og um konur sem kynverur, er þá ekki líka hætta á því að rómantískar gamanmyndir gefi ungum konum ranghugmyndir um karlmenn og þeirra tilfinningalíf?

Í rómantískum gamanmyndum er gjarnan dregin upp karlmannsímynd sem stenst samanburð við raunveruleikann býsna illa. Góði gæinn er tilfinninganæmur, skilningsríkur, hefur frá fyrstu kynnum gífurlegan áhuga á stúlkunni sem tilfinningaveru, vitsmunaveru og karakter. Hann sýnir ekki kynferðislegan áhuga opinskátt fyrr en þau eru búin að kynnast nokkuð vel, hann sýnir hæfileikum hennar áhuga og ýtir undir sjálfstraust hennar á allan hátt, hvetur hana til að setja sér markmið og styður hana í því að fylgja þeim eftir, hlustar með hluttekningu á sorgir hennar og hjálpar henni að vinna sig út úr gömlum áföllum, kemur henni til bjargar ef að henni steðjar ógn, er góður við börnin hennar eða aðra smælingja henni nákomna, sendir henni rósir, biðst afsökunar ef honum verður á að sýna henni tillitsleysi og endar myndina á því að elta hana langa vegarlengd og játa henni ást sína fyrir framan fjölda manns.

Þekkið þið einhvern svona karlmann? Er raunhæft að reikna með því að ung kona kynnist einhverntíma hvílíkum manni? Er hætta á því að þegar stúlka kynnist því af eigin raun að karlmenn eiga yfirleitt alveg nóg með sínar eigin tilfinningaflækjur og minnimáttarkennd og eiga jafnvel í mesta basli með að stynja upp ástarjátningu undir fjögur augu með ljósin slökkt, þá finnist henni frekar lítið til þeirra koma? Eru þá rómantískar gamanmyndir skaðlegar og til þess fallnar að brengla hugmyndir kvenna um það hverskonar kröfur sé eðlilegt að gera til karla?

Eða er tilfinningaklám bara saklaus skemmtun og á það sama þá við um kroppaklám?

Deildu færslunni

Share to Facebook

3 thoughts on “Tilfinningaklám

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *