Svo fagurt klof

píka2

 

 

Ég hef löngum dáðst að þeirri ráðsnilld að banna einkadans á sama tíma og vændi er lögleitt en forsendur bannsins eru væntanlega þær að þess kyns stríplirí gæti leitt af sér löglegt athæfi. Tvískinnungurinn virðist ekki eiga sér nein landamæri þegar kyn og klám er annars vegar.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég ljóðabók undir heitinu „Bláþræðir -dagbók vændiskonu“ þar sem ég dró upp myndir sem tengjast kynlífiðnaðinum í Reykjavík eins og hann var á þeim tíma. Ég bauð Eddu handritið til útgáfu, fékk höfnun, með þeirri umsögn að þrátt fyrir hljómfegurð, snjallar myndlíkingar og frumlega nálgun gæti yrkisefnið ekki talist ljóðrænt.

Það gladdi því ósegjanlega í mér kvikindið þegar ég kveikti á útvarpi í morgun, aldrei þessu vant, og heyrði einkar RaggaBjarnalegt dægurlag með hápólitískum texta þar sem klám og vændisiðnaðurinn er til umfjöllunar. Ég er sumsé ekki alveg ein um þá skoðun að klám og vændi eigi ekkert síður heima í kveðskap en önnur samfélgasmál. Að vísu er ég mun betra skáld en sá sem orti þennan texta svo það kemur dálítið illa við rímvitund mína þegar glöð er látið ríma við lög, en ánægja mín með framtakið dugði sem græðismyrsl á hinar fint fölende ljóðtaugar mínar.

Það sem virkilega kom mér í geðshræringu var sumsé ekki rímið heldur dansmærin ljúfa Dana frá Ljublijana sem er þarna uppi á borði „með sína hvítu arma/ þrýstna og hvelfda barma“. Ég lærði nefnilega sem barn að tvö brjóst teldust einn barmur en ljúfa Dana er samkvæmt þessu með öllu fleiri brjóst en hin steríótýpíska súludansmær. Brjóstatískan er augljóslega að taka stökkbreytingum svo ég sá fyrir mér að til þess að eiga möguleika á því að komast í bæli karlmanns í framtíðinni, dygði ekkert minna en að láta græða á mig allavega tvö brjóst til viðbótar og fannst tilhugsunin hálf ósmekkleg.

Og þó. Um síðir náði ég andanum aftur og þá rann upp fyrir mér að hér er væntanlega átt við skapabarma. Ég hef ekki fylgst vel með þróuninni í fegrunaraðgerðabransanum en rámar þó í að hafa heyrt eitthvað um aukna tíðni fegrunaraðgerða á píkum. Ég verð samt að viðurkenna að ég hef hingað til haft frekar óljósa hugmynd um muninn á fallegri og ljótri píku. En nú vitum við það; falleg píka er semsagt með þrýstna og hvelfda barma. Líklega silikonfyllta.

Deildu færslunni

Share to Facebook

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *