Píkuhár, augnhár og nýhreintrúarstefna

augnhár
Hvert sem ég fer, sé ég fallegar, ungar konur, með augnhár sem minna helst á skítuga kústa. Af hverju í ósköpunum gera þær þetta? Vita þær ekki að dæmi eru um að snyrtivörur hafi valdið sýkingum í augum, einkum ef notaðar eru gamlar vörur sem margir hafa notað eða ef stúlkan veit ekki almennilega hvað hún er að gera? Vita þær ekki að það er ákveðin slysahætta af því að beina oddmjóum burstum og blýöntum að þessum viðkvæmu líkamshlutum?

Já af hverju í ósköpunum gera þær þetta? Feministar hafa svarið. Það er vegna samfélagslegrar kröfu um að þær uppfylli staðla klámiðnaðarins. Eða ekki. Sú skýring á víst bara við um þá tísku sem ekki hefur náð að festa rætur innan feministahreyfingarinnar og margir feministar nota maskara og varalit, svo það sleppur.

Mér finnst tíska vera áhugavert fyrirbæri. Tíska verður til þegar hópar fólks tileinka sér sama smekk. Sumir hafa meiri áhrif á þann smekk en aðrir. Það er jafnvel til fólk sem hefur atvinnu af því að móta smekk stórra hópa fólks. Og auðvitað getur fólk upplifað félagslegan þrýsting um að tolla í tískunni. Ef ég klæðist fatnaði sem var í tísku í upphafi 9. áratugarins, get ég reiknað með að margir álíti þar með að ég tilheyri einhverjum sérstökum menningarhóp eða jafnvel að ég sé á leiðinni á furðufataball.

Jafnvel þeir sem rísa gegn tískunni, hafa samt sem áður tilhneigingu til að uppfylla „dress code“ síns félagahóps. Pönkari í jakkafötum, það gengur ekki alveg upp.

Hin samfélagslega krafa tengist líka aðstæðum hverju sinni. Við finnum flest fyrir dálitlum óþægindum ef við skerum okkur mjög mikið úr. Fáar konur myndu mæta í galakjól á húsfund og ráðherra myndi vekja töluverða athygli í neikvæðum skilningi ef hann mætti í rifnum gallabuxum á sinfóníutónleika. Auðvitað má kalla það að láta undan samfélagslegum þrýstingi að gangast þannig inn á hugmyndir fjöldans um hvað sé viðeigandi við hvaða tilefni og hvað teljist flott og hvað „púkó“.

Já, tískan hefur áhrif á það hvað við gerum og það sem meira er, smekkur okkar breytist raunverulega um leið og allir í kringum okkur skipta um skoðun á því hvað sé fallegt. Hver kannast ekki við að hafa flissað yfir gömlum myndum af sjálfum sér og vinum sínum?

Við komumst ekkert undan tískunni sem menningarlegu fyrirbæri. Við getum risið gegn markaðsvæðingu ákveðins útlits og við getum gefið skít í smekk ákveðinna hópa en við komumst ekki hjá því að verða fyrir einhverjum áhrifum af því hvað telst fallegt og viðeigandi. Tískan hefur áhrif á nánast allt sem við gerum. Ekki bara útlit og framkomu, heldur nær hún til stjórnmálaiðkunar, hverskonar hreyfingu fólk stundar og jafnvel sjálfsmorðsaðferða, Þessar samfélagslegu kröfur eru undir, yfir og alltumlykjandi.

Af einhverjum ástæðum á fólk sem kennir sig við feminisma, það til að láta eins og sú tíska sem snertir aðallega kynferðislegar ímyndir, sé sérstakt vandamál. Miklu ágengari og óheilbrigðari en önnur tískufyrirbæri. Það að fjarlægja kynhár er þannig talið „óheilbrigt“ þótt enginn andi orði um óheilbrigði þess að snyrta augnabrúnir eða að karlar snyrti brúska sem standa út úr nösum eða að konur fjarlægi hár af efrivör. Margar konur fá hár í andlitið, ástæðan fyrir því að við sjáum svo sjaldan skeggjaðar konur er sú að þær fjarlægja hárin jafnóðum og þau spretta fram. Eru þær þar með að láta undan samfélagslegum þrýstingi eða finnst þeim bara svört hár fara illa við varalitinn?

Af hverju er svona miklu óheilbrigðara að fjarlægja skapahár en að lita augnhár? Skapaháratíska hefur, rétt eins og andlitsförðun, tíðkast hjá ýmsum samfélögum á öllum tímum. Á þessi nýhreintrúarstefna að þjóna einhverjum tilgangi öðrum en að ýta enn frekar undir þá biluðu hugmynd að konur séu alltaf og allsstaðar fórnarlömb og að kynferðisleg kúgun gegnsýri allt okkar samfélag?

Deildu færslunni

Share to Facebook