Leyfum þeim að vera prinsessur

prinsessuskóli

Ég var 13-14 ára. Var að rölta í bænum, í hrókasamræðum við vinkonu mína og langt frá því að vera að hugsa um útlit mitt. Við gengum fram hjá búðarglugga og mér krossbrá þegar ég sá sjálfa mig. Ég var hokin í baki, með axlirnar slapandi og göngulagið eins og ég færi fótbrotin og hefði gleymt hækjunum mínum. Móðir mín hafði svosem oft reynt að fá mig til að rétta úr mér en ég hafði alltaf tekið því sem röfli og það var ekki fyrr en á þessu augnabliki sem ég fór að hugsa út í líkamsburð minn. Ég hef ennþá undarlegt göngulag.

Hefði mér gefist kostur á að fara í ‘prinsessuskóla’ þegar ég var 8 ára, hefði ég ekki hugsað mig um tvisvar. Og nei, það hefði ekki hvarflað að mér að það að vera prinsessa kæmi velþóknun karlmanna hið minnsta við. Á þeim aldri voru til tvennskonar karlmenn í mínum huga; góðir kallar, t.d. pabbar, frændur, afar og kennarar, sem ég man ekki til að hafi látið í ljós neinar skoðanir á útliti mínu og vondir kallar sem ég þekkti ekki en vissi að áttu það til að gefa börnum nammi og reyna að fá þau upp í bíl með sér. (Ef einhver hefði gefið mér nammi og boðið mér í bíltúr hefði ég samt sennilega umsvifalaust sett hann í flokk góðu kallanna en það er önnur saga.) Strákar voru að mínu mati fullkomlega óspennandi verur sem kunnu ekki að leika sér og hefði einhver minna bekkjarbræðra haft eitthvað um útlit mitt að segja þá hefði mat hans ekki vegið nema tíunda hluta á móti áliti stelpu. Allavega tengdi ég prinsessur ekki á nokkurn hátt við það að gera körlum til hæfis heldur miklu frekar við það að vera fín í augum kvenna og þó fyrst og fremst annarra telpna.

Ég hefði heldur ekki þurft að hugsa mig um ef mér hefði boðist að fara á förðunarnámskeið þegar ég var 13 ára. Móðir mín var að vísu ekkert hrifin af því að ég málaði mig en ég gerði það nú samt og hún var síðasta manneskja í heimi sem ég hefði hlustað á. Það er til mynd af mér 13 ára gamalli með æpandi græn augnlok sem hefðu svosem alveg gengið ef ég hefði verið pönkari en þar sem hárgreiðsla mín og klæðaburður minnti helst á sunnudagaskólakennara, var þetta BARA skelfileg förðun. Ég ímynda mér að hugmyndir drottningar í prinsessuskóla um förðun, líkamsburð og klæðnað, hefðu gengið ívið betur í míg og kynþokki pinþokki -jújú, álit strákanna var vissulega farið að skipta mig máli á þessum aldri en viti menn -ég fór aldrei í prinsessuskóla og samt vildi ég vera sexý. Og vil það enn.

Mér fannst alveg skelfilegt (var það ekki bara síðasta vetur) þegar grunnskóli bauð drengjum í 9. eða 10. bekk á tölvuleikjakynningu en stelpunum á förðunarnámskeið. Ekki af því að það sé eitthvað að því að læra förðun, heldur vegna þess að skólar ættu að reyna að komast hjá því að stýra nemendum í stöðluð kynhlutverk. Hins vegar þykir mér líklegt að ef nemendur hefðu verið beðnir að velja milli þessara námskeiða, þá hefði þáttaka í förðunarnámskeiðinu verið ágæt. Þ.e.a.s. meðal stúlkna.

Það er nefnilega svo skrýtið að þótt kvenfrelsishreyfingin hafi alið upp í konum sjálfstæði og metnað sem fyrir 60 árum heyrði til undantekninga, þá blómstar fegurðariðnaðurinn sem aldrei fyrr. Konur hætta ekki að vera konur þótt þær ljúki doktorsprófi eða stjórni fyrirtæki. Flestar okkar langar að vera fallegar og já, við viljum ganga í augun á karlmönnum, margar okkar langar m.a.s. að ganga í augun á karlmönnum sem eru líklegir til að koma fram við okkur eins og drottningar.

Af hverju er það svona agalegt að unglingsstelpur langi að vera kynþokkafullar? Skaðar það þær eitthvað að heyra þá skoðun að það sé stílbrot að vera bæði með brækunar á hælunum og í g-streng? Verða þær fórnarlömb klámvæðingarinnar ef þær læra að rétta úr bakinu og henda tyggjóinu áður en þær koma fram á árshátíðinni? Eða heldur einhver að þær muni ekki mála sig og ganga í fatnaði sem þær telja (með réttu eða röngu) að sé sexý, ef enginn fullorðinn leiðbeinir þeim?

soley

Eitthvert yndislegasta uppátæki Sóleyjar Tómasdóttur var þetta svar hennar við mussukerlingatalinu. Stórkostleg afbygging á staðalmynd feministans, gæti þessvegna verið auglýsing fyrir prinsessuskóla. En getur verið að innan feministahreyfingarinnar ríki fordómar í garð þeirra sem hafa áhuga á fegurð og tísku?

Eins og við eigum kvenfrelsishreyfingunni margt að þakka, þá er þetta klámvæðingartal löngu komið út í rugl. Það er enginn að ráðleggja 8 ára börnum að fara í bótox og fjandinn hafi það, leyfum litlum telpum og ungum stúlkum að gleðjast yfir fegurð sinni og leggja rækt við hana. Það er nefnilega ekkert sem bendir til þess að þær konur sem vita eitthvað um förðun og tísku séu óhamingjusamari, óupplýstari eða vegni á einhvern hátt verr en okkur hinum.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Leyfum þeim að vera prinsessur

  1. Teprugangur er þreytandi, en það er nú bara samt þannig að sumt gengur út í algerar öfgar. Það sem er verst við fjölmiðla sem fjalla um tísku, er algert gagnrýnisleysi og svakalegar alhæfingar, sem og skýlausir fordómar gagnvart fitu. Og það eru bara VÍST til konur sem láta sér detta það til hugar að bótoxa 8 ára dætur sínar, því miður. Ég set það í sama hólf og öll önnur ill meðferð á börnum.
    Prinsessuskólamálið hef ég ekki kynnt mér nógu vel, en ég held að dóttir mín (9) myndi sjálf frekar velja Línu Langsokksskóla, nú eða til dæmis riddaraskóla, ef hún gæti.
    Það er í alvöru talað orðin furðulega hörð kynjaskipting í t.d. leikföngum. Þetta er miklu meira áberandi en var þegar við vorum krakkar, prófaðu að fara í stóra leikfangabúð, Toys’R’Us eða eitthvað svoleiðis, mann langar mest að gubba af bleiku/bláu skiptingunni þar. Það er í alvöru talað alveg rosalega sterk slagsíða til staðalímyndaðrar kynjaskiptingar og herferðin beinist gegn börnum og ungum stúlkum. Ég get ekki setið og horft rólega á þetta, enda er ég með sand í píkunni.

    Posted by: Kristín í París | 23.06.2011 | 11:08:34

    Það er allt til Kristín. Það eru til fegurðarsamkeppnir fyrir börn, það eru til smábörn með anorexíu og ég tek undir þá skoðun að það sé ógeð og vanræksla. En það eru sennilega fleiri börn í dag sem eru of feit en of grönn. Þegar ég var krakki var einn Siggi feiti eða Magga feita í hverjum bekk en nú er yfirþyngd algeng.

    Ég hef ekki farið í leikfangabúðir í nokkur ár en þegar mínir strákar voru að alast upp var til gott úrval af leikföngum sem tengdust ekki gömlu kynhlutverkunum. Ég held að kubbar og púsluspil hafi verið einu leikföngin sem ég átti sem voru ekki ‘stelpudót’. Ég átti fleiri leikföng en mörg önnur börn, m.a. dúkkueldavél, dúkkustrauborð og dúkkuhrærivél. Ég hef hinsvegar aldrei eignast alvöru hrærivél, bara handþeytara. Mig langar í kitchenaid en mig langar samt meira í góða tölvu. Samt átti ég aldrei dúkkutölvu.

    Posted by: Eva | 23.06.2011 | 12:36:10

    Er ekki svarið val? Í stað þess að þvinga kynin í eitthvað, leyfa þeim að velja? Dætur mínar byrjuðu allar snemma að mála sig. Ég sé ekkert að því. Og má ég benda á hugtakið metrosexual sem lýsir vel því sem er að gerast í dag, karlmenn sem eyða miklum tíma í útlit sitt, jafnvel með förðun.

    Posted by: Þorkell | 23.06.2011 | 14:15:00

    Keli, ég held að gagnrýni feminista byggist á þeirri kenningu að staðalímyndum sé haldið svo rækilega að okkur frá unga aldri að litlar telpur eigi í rauninni ekki mikið val.

    Ég get alveg tekið undir það að óraunhæfar hugmyndir um anatómíu kvenlíkamans eru áberandi (og hef m.a.s. svarað því með því að birta opinberlega ófótósjoppaðar nektarmyndir af sjálfri mér.)Ég hef hinsvegar trú á hæfileika manneskjunnar til gagnrýninnar hugsunar og ég held ekki að stúlkur verði fórnarlömb klámvæðingarinnar þótt þær læri að velja liti sem fara þeim vel.

    Ég held að það sé algengt að fólk sé frá barnsaldri upptekið af kynferði sínu og mér finnst það ekki vandamál. Ég held að það sé ekkert líklega að fólk ýti stelpum sem hafa áhuga á fótbolta á dömunámskeið en að stelpur sem njóta sín í prinsessuleikjum séu sendar á fótboltanámskeið.

    Posted by: Eva | 23.06.2011 | 14:44:07

    Góð grein eins og þín er von og vísa.
    Svava frá Strandbergi

    Posted by: Guðný Svava Guðjónsdóttir | 25.06.2011 | 2:59:46

    Öll mín krísa felst einmitt í því að mér finnst börnin mín ekki hafa val. Kannski geri ég of mikið úr þessu, en það er alveg rosalega furðulega mikil pressa á þau að ganga inn í stöðluð hlutverk. Ég reyni eins og ég get að koma með gagnrýni og benda þeim á að pæla í því hvað þau vilji sjálf o.s.frv. Ég myndi samt aldrei banna þeim að gera eitthvað sem þau langar til, dóttir mín vill t.d. æst halda áfram í einvhers konar dans-fimleikum sem hún prófaði í vetur, en þar gengur allt út á fegurð og fágun og kvenlegar hreyfingar. Hún má sko alveg taka þátt í þessu, þó að mér finnist hún ætti heldur að velja handboltann, þar sem hún brillerar víst í marki. Kannski fær hún að gera bæði, ef ég sé fram á að hafa tíma í endalaust skutl …

    Posted by: Kristín í París | 26.06.2011 | 7:26:09

    Og setjum sem svo Kristín, að hún verði alveg últra kvenleg og fari helst ekki út úr húsi ómáluð. Myndi það skerða lífsgæði hennar? Yrði hún þá ólíklegri til að velja sér menntun og starf sem hún yrði ánægð í? Af hverju heldur fólk að stúlkur sem langar að vera sætar og fínar séu ólíklegar til að tileinka sér sjálfstæða hugsun?

    Posted by: Eva | 26.06.2011 | 8:12:17

    Ég er mjög mikið á móti þessum prinsessuskóla og aðallega vegna þess að mér finnst ekki langur vegur frá honum að fegurðarsamkeppnum fyrir börn.

    Fyrir mörgum árum síðan var framkomunámskeið haldið fyrir unglingsstelpur og ég hélt í fávisku minni að það væri fyrir alla og ætlaði að biðja um að fá að fara.

    Til allrar hamingju gerði ég það ekki því það hefði sennilega haft óbætanlega áhrif á sjálfsmynd mína, litlar feitar stelpur voru nefnilega ekki velkomnar.
    Jú, þær máttu koma og þær máttu borga, en þær fengu mun minni athygli frá „kennurunum“ og þær gengu ekki út með höfuðið hátt og loforð um módelsamning upp á vasann.

    Svona „námskeið“ ýta undir þessa staðalímynd að stelpur eigi að vera fínar og sætar og bera sig vel og kunna að snyrta á sér fæturnar og bera sig eins og dömur.

    Hins vegar, ef skólinn hefði verið stílaður inn á framkomu og fágun fyrir bæði stelpur og stráka (svona í anda Bergþórs Pálssonar) hefði horft öðruvísi við (amk frá mínu sjónarhorni) því það má alveg kenna öllum unglingum í dag að koma vel fram.

    Posted by: Andrea | 1.07.2011 | 9:52:25

    Takk fyrir innleggið Andrea. Hvar og hvenær var þetta námskeið haldið? Mér finnst alltaf ömurlegt að heyra af slæmri framkomu við börn.

    Ég held ekki að neinn hafi afneitað því að svona námskeið gangi út frá staðalmyndum og styrki þær. Ég er hinsvegar ekkert viss um að staðalmyndir séu að öllu leyti slæmar. Mér finnst skipta máli að börn geti gengist upp í karlímynd eða kvenímynd eins og þau vilja, óháð kyni en ég held að þessar staðalmyndir séu ekki bara komnar til vegna félagsmótunar heldur liggi þær að einhverju leyti í eðlinu. Mér finnst brýnna að hefja störf og hugðarefni telpna og kvenna til virðingar en að berjast geng kvenleika og karlmannleika.

    Posted by: Eva | 1.07.2011 | 10:32:57

Lokað er á athugasemdir.