Ekki kjósa konur á þing

Arrested_Suffragette

Arrested_Suffragette Ætli mamma hennar hafi staðið með henni?

Kynjakvóta á Alþingi. Einmitt það sem okkur vantar. Flíka fleiri brosandi konum og ljúga því að sjálfum okkur að hlutfall kvenna í stjórnkerfinu og öðrum spillingarbælum eigi eitthvað skylt við jafnrétti.

Kaldhæðni er fyrsta orðið sem kemur upp í huga minn þegar ég sé yfirlýsta feminista styðja þetta rugl. Ástæðan fyrir því að við höfum náð svo langt í jafnréttismálum stendur nefnilega í ekki í neinu tilviki í sambandi við hlutfall kvenna á Alþingi eða í stjórnunarstöðum. Það voru feminiskir aktivistar sem komu okkur þangað sem við erum í dag, fólkið sem barðist gegn þessu kerfi sem fólk í ímyndaðri jafnréttisbaráttu styður og styrkir.

Það voru stórhættulegar suffragettur sem brutu rúður og brenndu kirkjur til þess að þú fengir kosningarétt, ekki Ingibjörg Sólveig eða Golda Meir.

Það voru duglegar en einskis metnar verkakonur sem klæddust buxum og neituðu að vinna fyrir kvennakaupi til þess að þú ættir kost á sömu launum og karlar, það voru konur sem sjálfar stofnuðu fyrirtæki í óþökk mæðra sinna sem ruddu brautina fyrir þig ekki Katrín Júlíusdóttir eða Rannveig Rist.

images

images Líklega veistu ekki hvað hún hét en það uppátæki hennar að klæðast buxum skipti máli.

Það voru klárar konur sem börðust til mennta, stofnuðu kvennaskóla, söfnuðu undirskriftum og hrópuðu slagorð sem gerðu þér fært að ljúka námi. Ekki Katrín Jakobsdóttir eða Svafa Grönfeldt.

Það voru hugrakkar konur sem flúðu ofbeldisfulla eiginmenn og aðrar hugrakkar konur sem stofnuðu hjálparsamtök og kvennaathvörf sem sáu til þess að dómskerfið dæmir gerendur en ekki þolendur heimilsofbeldis. Ekki Florence Ellinwood Allen eða Ragna Árnadóttir.

runa

runa Viljum við hafa þessa á þingi? Eða þar sem hún gerir eitthvað sem skiptir máli?

Og það voru ýlandi dræsur sem neituðu að láta annað fólk (ekki bara feðraveldið heldur aðallega mæður sínar) segja sér hverjum þær mættu sofa hjá og hvernig þær mættu klæðast, sem sáu til þess að einstæðar mæður njóta mannréttinda og að klæðaburður og orðspor réttlætir ekki nauðganir. Ekki Vigdís Finnbogadóttir eða Condoleezza Rice heldur konur sem á sínum tíma voru álitnar siðlausar druslur.

Þeir sem knýja fram þær breytingar sem skipta máli eru konur og karlar sem rísa gegn kerfinu. Ekki þau sem taka þátt í því heldur þau sem rísa gegn því. Konurnar sem mótuðu viðhorf þín til jafnréttismála voru ekki valdakonur heldur þær sem brutu gegn lögum ríkisvaldins, reglum foreldra sinna, væntingum maka sinna, viðhorfum jafningja sinna og óskráðum siðareglum samfélagsins. Rauðsokkur, blásokkur, og í dag svartsokkur, ekki brosandi konur á bæklingum sem stjórnmálaflokkar troða upp á þig með loforðum um að koma fleiri konum (sem er skítsama um þig) í stjórnunarstöður, heldur þær sem ögra hugmyndum þínum um eðlilega heimsskipan, samskipti og siðferði.

Konurnar sem breyttu heiminum voru ekki drottningar heldur dræsur. Svo ef þú nýtur kvenréttinda eða bara yfirhöfuð mannréttinda, þakkaðu það aktivista, þakkaðu það dræsu. Og ef þú þekkir klára, duglega, hugrakka, áhrifamikla konu; ekki kjósa hana á þing. Fáðu hana með þér út á götu til að gera eitthvað.

(Allar myndirnar eru teknar af netinu og birtar hér í heimildarleysi, af meðvituðu og óskammfeilnu virðingarleysi við höfundarréttarlög.)

suffragettur

——
Síðan þessi pistill var skrifaður hef ég skipt um skoðun á gagnsemi Stígamóta, ég held að það yrði jafnvel minni skaði af Guðrúnu Jónsdóttur á þingi.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Ekki kjósa konur á þing

 1. ——————-

  Ummæli

  http://www.amazon.com/Women-Who-Make-World-Worse/dp/1595230092

  Posted by: Sammála | 20.06.2011 | 10:56:55

  Gaman að því að þú skulir nefna Guðrúnu Jónsdóttur hjá Stígamótum í grein um að fjöldi kvenna á þingi skipti ekki máli. Hún tók einnmitt þátt í að stofna Kvennalistann sem varð til þess að konum á þingi fjölgaði úr 3 í 9 árið 1983. Seinna starfaði hún svo hjá þingflokki Kvennalistans. Þingflokki sem setti ótal mikilvæg mál á dagskrá; umhverfismál, réttindamál samkynhneigðra, baráttu gegn heimilisofbeldi og kynferðislegu ofbeldi, fæðingarorlof sem skiptist jafnt milli karla og kvenna en nei, auðvitað skiptir það engu máli hvort konur séu á þingi. Eða þannig.

  Posted by: Ingibjörg Stefánsdóttir | 20.06.2011 | 11:03:49

  Flest lög sem þessi sama stofnun, þetta rotna Alþingi hefur sett, þjóna fyrst og fremst hagsmunum auðvaldsins, kennvaldsins, yfirvaldsins í hvaða mynd sem það birtist.

  Á móti hverjum einum hugsjónakarli sem situr á þingi, í stjórn stórfyrirtækis eða einhverju valdamiklu embætti eru minnst 10 sem hafa fyrst og fremst það markmið að styrkja valdamenn og valdastofnanir. Við höfum enga ástæðu til að halda að konur séu eitthvað öðruvísi.

  Jafnrétti og bræðralag (eða systralag) mun aldrei einkenna samfélagið á meðan formgerð þess þjónar þeim tilgangi að viðhalda völdum örfárra manna, það þarf að bylta kerfinu og eyða ríkinu en ekki styrkja það.

  Posted by: Eva | 20.06.2011 | 11:36:15

  Þú sem segist vera ‘sammála’:

  Ég hef ekki lesið þessa bók en ég skoðaði efnisyfilitið og fyrstu síðunar og mér sýnist þetta vera einhver íhaldsbelja sem er að gera lítið úr feministum.

  Vandamálið er ekki jafnréttishugsjónin eða feministahreyfingin (auðvitað gera allar hreyfingar einhverntíma eitthvað sem má gagnrýna en það dregur ekki úr mikilvægi þeirra) heldur sú þráhyggja að hugmyndir okkar um lýðræði séu nánast óhagganlegar og að réttlætinu verði þjónað með því að fá nýja rassa í ráðherrastólana, fleiri konur, fleiri svertingja o.s.frv. Það virkar ekki, því miður.

  Posted by: Eva | 20.06.2011 | 11:51:34

  Alþingi starfar hvort sem er. Hvað er svona slæmt við að fleiri konur hafi áhrif? Væri ekki betra ef hugsjónakonur hefðu einhver völd en að þurfa að standa í slagsmálum?

  Posted by: Kristín | 20.06.2011 | 12:15:21

  Alþingi starfar VEGNA ÞESS að flest okkar taka þátt í að viðhalda því.

  Ég vil að hugsjónakonur (og hugsjónakarlar) hafi áhrif. Ég vil hinsvegar ekki að þær eða neinn annar hafi völd.

  Posted by: Eva | 20.06.2011 | 12:39:14

  Ég held að meining Evu sé sú að konur eigi ekki að fara á þing vegna þess að þær séu konur, heldur vegna hugsjóna þeirra. Þær geta alveg átt heima á þingi en ekki af þeirri ástæðu einni að þær eru af ákveðnu kyni.

  Posted by: Svavar Kjarrval | 20.06.2011 | 14:54:52

  Nei Svavar, meining mín er ekki sú að konur eigi að fara á þing vegna hugsjóna sinna. Meining mín er sú að Alþingi sé í eðli sínu ekki bara spillt stofnun heldur spillingarafl sem þarf að uppræta en ekki viðhalda.

  Alþingi þjónar ekki þeim tilgangi sem því var ætlað. Það var kannski einhverntíma nauðsynlegt en ekki lengur. Það sama gildir um verkalýðsfélögin, þau þjóna ekki verkalýðnum heldur fyrirtækjunum.

  Ég held að margir skilji hreinlega ekki muninn á fólkinu og ríkinu. Ríkið er ekki fólkið, það er valdastofnun. Það þarf að bylta öllu helvítis kerfinu og konur sem halda að þær geti breytt því innan frá eru að spila rúllettu. Kannski ná þær smásigrum af og til en þegar upp er staðið er það spilavítið sem græðir.

  Posted by: Eva | 20.06.2011 | 15:08:28

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *