Frjáls og óábyrg

quote-what-feminism-calls-patriarchy-is-simply-civilization-an-abstract-system-designed-by-men-but-camille-paglia-257668
Í Afghanistan ríkir feðraveldi. Það merkir að feður ráða yfir börnum sínum, einkum dætrum. Á Íslandi ríkir ekki feðraveldi. Jafnrétti kynjanna er lögfest og almennt viðurkennt að fólk skuli metið að verðleikum óháð kynferði sínu. Fullu jafnræði er þó ekki náð en það skýrist ekki af kerfisbundinni mismunun heldur blunda í okkur þau viðhorf að konur séu körlum vanhæfari til að taka frumkvæði og ábyrgð. Þessi viðhorf kjósa sumir að kalla feðraveldi. Þau koma fram með ýmsu móti, m.a. í tilhneigingu karla til að gefa konum óumbeðin „góð ráð“ og tregðu kvenna til að gegna ábyrgðarstöðum og láta til sín taka á  opinberum vettvangi.

Feministar berjast í orði kveðnu gegn þeim viðhorfum að konur standi karlmönnum að baki. Krafan hljóðar upp á sömu tækifæri karla og kvenna til valda, áhrifa, auðs, menntunar, persónulegs frelsis o.s.frv. Það er sanngjarnt svo langt sem það nær, sjálf vildi ég frekar draga úr valda- og auðsöfnun karla en að sjá fleiri og fleiri konur á páerflippi en já, ef við endilega viljum viðhalda samfélagi þar sem fámenn klíka fær að ráðskast með fjöldann, þá er rökrétt að konur fái sömu tækifæri og karlar til að arðræna meðbræður sína og kúga þá. Það er aftur á móti ekki eins sanngjarnt að þrátt fyrir kröfuna um völd og frelsi, verður ekki betur séð en að konur eigi samt sem áður að njóta verndar og forréttinda umfram karlmenn.

Krafan um að konur fái það sem þær vilja, jafnvel án þess að þurfa að sækjast eftir því skín víða í gegnum samfélagsumræðuna. Fórnarlambsfeministar kveina t.d. yfir því að konur fái ekki jafn marga vísindastyrki og karlar enda þótt árangurshlutfallið sé það sama. Varla er hugmyndin sú að styrkja verkefni sem ekki þykja líkleg til að efla vísindastarf svo það verður ekki betur séð en að krafan hljóði upp á að konur fái styrki án þess að sækja um þá.

Það viðhorf að konur skuli njóta verndar og forréttinda birtist víða í atvinnulífinu og opinberri stjórnsýslu. Atvinnurekstur kvenna og nýsköpun nýtur þannig sérstakra styrkja sem karlar eiga ekki völ á. Áhugi innanríkisráðuneytisins á jafnréttismálum, verður að hljóðlátu prumpi þegar kemur að foreldrajafnrétti; dómaraheimild til að dæma sameiginlegt forræði er þannig ekki talin henta íslenskum konum sem eftir sem áður skulu njóta forskots í forræðis- og umgengnismálum. Engin krafa er heldur uppi um að dómstólar taki á sama hátt á glæpum karla og kvenna þótt það sé vitað og viðurkennt að konur sæta síður ákæru og fá vægari dóma en karlar fyrir sömu afbrot.

Í þessu sambandi er athyglisvert að skoða dóm sem nýlega féll í héraðsdómi Reykjavíkur. Um er að ræða konu sem banaði nýfæddu barni sínu. Eftir að hafa rist djúpa skurði í andlit hvítvoðungsins með eggvopni, kyrkti hún drenginn, pakkaði líkinu svo vandlega í plast og henti því í ruslagám. Konan var metin sakhæf. Miski föðurins var metinn á 600 þúsund krónur (eða 100 þúsund krónum minni en miski konu sem varð fyrir þeirri óþægilegu lífsreynsu að ókunnugur maður tróð fingri upp í endaþarm hennar þar sem hún var að kasta af sér vatni)  og móðirin dæmd í tveggja ára fangelsi. Í dómsorði segir:

Ákærða hefur verið sakfelld gegn neitun fyrir að hafa banað nýfæddu barni sínu og er það mat dómsins að ekki geti komið til þess að skilorðsbinda dóminn. Kemur þar bæði til að um mjög alvarlegt brot er að ræða svo og það álit dómsins að fangelsisrefsing geti komið ákærðu að gagni við að takast á við afleiðingar verknaðarins.

Það sem vakir fyrir dómnum, ólíkt morðmálum þar sem gerandinn er karlkyns, er semsagt ekki refsivist, heldur betrun. Móðirin er ekki glæpakvendi, heldur ógæfusöm stúlka sem þarf styrka hönd til að leiða sig á rétta braut.

Það eru ekki aðeins stofnanir samfélagsins sem halda fast í þá hugmynd að konur séu næsta ábyrgðarlausar verur, þetta viðhorf virðist vera þó nokkuð algengt meðal almennings líka. Hér er eitt nýlegt dæmi um það viðhorf að karlar gegni verndar- og uppeldishlutverki gagnvart konum. Nektarmyndum af stúlkum er dreift á netinu en það eru ekki stúlkurnar sjálfar sem kvarta, heldur taka kærastarnir að sér að verja heiður þeirra. Spurningin um það hvernig nektarmyndir komust í hendur óviðkomandi skiptir heldur engu máli, stúlkur hafa fullt frelsi til að bera kroppinn á sér frammi fyrir myndavél  en virðast þó ekki bera neina ábyrgð á því ef myndirnar fara í umferð.

Nú hefði maður kannski haldið að þeir sem mest hamra á því að konur eigi að njóta sömu réttinda og frelsis og karlar, gerðu um leið þá kröfu til kvenna að þær taki ábyrgð, amk á eigin hegðun. Því er þó ekki að heilsa. Konan skal njóta frelsis og valda en enga ábyrgð skal hún þó bera, ekki einu sinni á sjálfri sér. Þetta viðhorf kemur kannski best fram í umræðunni um kynferðisofbeldi. Skilgreining fórnarlambsfeminista á nauðgun er þannig ekki lengur sú að gerandinn hafi haft kynmök við þolandann þrátt fyrir að samþykki skorti, heldur sú að gerandinn hafi haft kynmök við þolandann þrátt fyrir að mega gera sér ljóst að samþykkið kynni að vera vafasamt. Það skal þannig teljast nauðgun ef dauðadrukkinn maður hefur mök við dauðadrukkna konu því hann átti að hafa rænu á því að gera sér grein fyrir því að hún var ekki með nægilegri rænu til að gera sér grein fyrir því hvað var að gerast. Einnig má á köflum skilja umræðuna þannig að það skuli teljast nauðgun ef kona lætur kynmök yfir sig ganga, þrátt fyrir að hún hafi verið með fullri rænu og á engan hátt gefið til kynna að hún væri óviljug. Með þessari skilgreiningu geta menn hæglega nauðgað konum „óvart“ en það er undarleg mótsögn við þá hugmynd að nauðgun sé í eðli sínu kúgunartækni.

Skoðum t.d. þessa frásögn. Ungur maður spyr kærustuna sína hvort hún vilji sofa hjá honum. Hún segir nei en brosir samt og sýnir öll merki þess að henni líki atlot hans vel. Hann tekur þó mark á synjuninni og hún er ekki ósáttari við hann en svo að hún samþykkir að gista hjá honum. Hann reynir aftur við hana síðar um kvöldið og þau hafa mök. Eftirá ásakar segir hún hann um að hafa nauðgað sér. Hún virðist þó ekki meina neitt með því og heldur við þá ákvörðun sína að gista hjá honum. Þau hafa mök aftur, hún fer ofan á hann, stýrir lim hans inn í sig og nefnir að hún hafi ekkert á móti því að verða ólétt. Hún gistir hjá honum um nóttina og er hin kátasta um morguninn. Seinna heldur hún því fram að hann hafi nauðgað sér en vill þó halda sambandinu áfram. Maðurinn situr uppi gersamlega ráðvilltur, veit ekkert hvar hann hefur hana og sér fram á að ef slitni upp úr sambandinu muni hún kæra hann fyrir nauðgun.

Takið eftir svörum lesenda, einkum því svari sem spyrjandinn kýs sem besta svarið. Hann gengst semsagt sjálfur inn á þá hugmynd að þótt hann hafi að vísu ekki framið refsiverðan glæp, beri hann samt einn ábyrgð á því sem gerðist og afleiðingum þess. Stúlkan ber enga ábyrgð, hvorki á tilfinningum sínum né viðbrögðum. Hún ber ekki ábyrgð á því að hafa gefið honum tvöföld skilaboð með því að segja eitt en gera svo allt annað. Hún ber ekki ábyrgð á því að hafa sjálf sest ofan á hann og stjórnað samförunum. Hún stingur jafnvel  upp á því að meintur nauðgari geti henni barn en engu að síður á hann að vita að hún vill þetta í raun ekki.

Nú er þessi saga ekki íslensk en það skiptir ekki öllu máli, þessi sama þróun á sér stað allsstaðar á Vesturlöndum. Greinilegur vilji til að endurskilgreina kynferðisofbeldi skín allsstaðar í gegnum umræðuna og áherslan er á ábyrgð karlmannsins. Skilaboðin til ungra kvenna eru þessi; þú getur hegðað þér eins og þú vilt og ef þú ert ósátt við það eftir á, þá var það ekki þér að kenna. Skilaboðin til ungra karla eru þessi; konur eru stór dekurbörn sem mega gera allt sem þeim dettur í hug en eru þó ófærar um að taka  ábyrgð á kynlífi sínu.

Í stuttu máli er pólitíkin þessi; konur skulu njóta frelsis án ábyrgðar. Kona sem sækist eftir valdastöðu skal teljast klár, sterk og ábyrg en kona sem brýtur lög skal teljast sjúklingur, handbendi vondra karla eða bara fórnarlamb örlaganna. Kona sem ákveður að sofa hjá karlmanni skal teljast fullorðin manneskja og sjálfráð gerða sinna en hætti hún við í miðju kafi, skal hún teljast varnarlaust barn sem á ekki að þurfa að afþakka dráttinn.

Á Íslandi ríkir ekki feðraveldi. Feður ráða engu um hagi uppkominna barna sinna, konur hafa lögum samkvæmt sama aðgang að valdakerfinu og karlar og mér finnst það dálítil móðgun við þær milljónir kvenna sem raunverulega eru undir hæl feðra sinna og bræðra að nota þetta orð um vestræn samfélög. Samt sem áður lifir hugmyndin um varnarlausu heimasætuna góðu lífi við hlið ímyndar hinnar sjálfstæðu og metnaðarfullu menntakonu. Af einhverjum ástæðum virðist jafnréttisbaráttan ekki ná til þessarar þversagnar og hvað sem líður mótmælum gegn kynjuðum ís og klámvæddum legókubbum, taka fórnarlambsfeministar virkan þátt í að viðhalda þeirri hugmynd að konur séu óábyrgir vesalingar eða ofvaxin börn.

Deildu færslunni

Share to Facebook