Femínistinn, flóttakonan og strokuþrællinn

Enginn stjórnmálamaður hefur valdið mér öðrum eins vonbrigðum og Ögmundur Jónasson. Ekki heldur aðstoðarráðherrann Halla Gunnarsdóttir. Ég var spurð að því eftir að ég birti síðasta pistil um málefni flóttamanna, hversvegna ég dæmdi Ögmund svo hart fyrir meðferðina á flóttamönnum en ekki Höllu. Ég skil vel að ég hafi fengið þá spurningu því frammistaða Höllu í þessu samhengi er vissulega ömurleg og líklega hafa einhverjir haft væntingar til hennar.

Halla gefur sig út fyrir að vera mannréttindasinni og feministi. Feminisminn sem hún praktíserar er fyrst og fremst nærbuxnafeminismi, þ.e.a.s. hún telur hagsmunum kvenna best borgið með því að þeim viturra fólk sjái til þess að þær haldi upp um sig brókunum. Halla hefur þannig barist gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna sem vilja hafa tekjur af kynferði sínu, bæði kvenna í kynlífsþjónustu og þeirra kvenna sem eru tilbúnar til að vera staðgöngumæður gegn gjaldi. Hún berst einnig gegn sjállfsákvörðunarrétti þeirra kvenna sem eru tilbúnar til að ganga með börn fyrir systur sínar eða vinkonur án þess að þiggja laun fyrir það. Rökin eru þau að staðgöngumæðrun sé „ógn við andlega og líkamlega heilsu konunnar sem gengur með barnið“ sem og líf barnsins.

Nú er vandséð hvernig það getur verið meiri ógn við líf barns að einhver önnur kona en sú sem mun ala það upp fóstri það á meðgöngu og má undrum sæta að fólki sem berst fyrir sem frjálslegastri fóstureyðingarlöggjöf verði skyndilega svo umhugað um líf barna þegar fóstrið er alið í „röngu“ móðurlífi en þetta er svosem í stíl við annan kjánaskap Höllu Gunnarsdóttur. Hvað heilsu móðurinnar varðar hefur meðganga alltaf einhverja áhættu í för með sér en ekki eru nein rök fyrir því að andlegri og líkamlegri heilsu konu stafi meiri ógn af því að ganga með barn fyrir aðra konu en sjálfa sig eða eins og segir í þessari skýrslu: „Studies on the physical and mental health effects of becoming a surrogate mother are almost nonexistent.“ En rök hafa aldrei skipt neinu máli þegar bjargvættirnar fara á kreik og vitanlega þarf að gæta þess að fávísar konur taki ekki sjálfstæðar ákvarðanir um að stofna sér í þann skelfilega voða sem meðganga og fæðing er á Íslandi í dag.

Mannréttindasjónarmið Höllu eru sömuleiðis vafasöm. Hún á sennilega ekki minni sök en Ögmundur á stærsta afturfararskrefi Íslandssögunnar í mannréttindamálum, þ.e. reglugerð um forvirkar rannsóknarheimildir. Þær réttlætir hún með því að ætlunin sé að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi enda þótt sambærilegar njósnaheimildir í nágrannalöndunum hafi síður en svo upprætt glæpaklíkur.

Einhver hefði kannski haldið að femnisminn myndi gjósa upp í Höllu þegar flóttakona kemur til landsins. Einhver hefði kannski trúað henni til þess, í stað þess að umbera handtökur og fangelsun í trássi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, að spyrja fyrst hvort hlutaðeigandi kona hafi verið gefin í hjónaband 12 ára að aldri eða eigi nauðungarhjónaband á hættu. Hvort hún hafi gengið í gegnum kynfærabrottnám og vilji forða dætrum sínum frá því sama. Hvort hún eigi von á því að vera nefskorin ef hún óhlýðnast eiginmanni sínum eða hvort hún hafi áhyggjur af því að bræður hennar drepi hana ef hún verður ástfangin gegn vilja þeirra.

Halla spyr ekki um þetta, heldur samþykkir þessi mikli mannúðarsinni og feministi einfaldlega að flóttafólki, konum sem og körlum sé refsað með fangavist fyrir að flýja ömurlegar aðstæður sínar og í framhaldinu vistað fjarri öllum þeim stofnunum sem vilja rétta þeim hjálparhönd. Ástæðan fyrir vistun flóttamanna suður í hundsrassi er sú að kæmi það sér illa fyrir atvinnulífið á Suðurnesjunum ef flóttamannabúðirnar yrðu staðsettar með hagsmuni flóttamanna í huga (skv. grein í Róstum kom þetta fram í bréfi Svandísar Svavarsdóttur til stuðningsmanna flóttafólks) og svo ómannúðleg meðferð á Suðurnesjamönnum væri náttúrulega hneyksli.

Einhver hefði líka haldið að hvílíkur mannúðarsinni sem Halla gefur sig út fyrir að vera, myndi beita valdi sínu til að bjarga fólki úr þrælahaldi. Kannski hefði einhver trúað því upp á feminista í þessari stöðu að hún beitti sér fyrir leiðréttingu á þeirri ákvörðun sem tekin var sumarið 2009 að senda kínverska flóttakonu í nauðungarvændi í Hollandi. Sú kona hafði þá verið á flótta í 17 ár, alltaf sem þræll. Hún hafði hrakist um Afríku og Suður Ameríku þar sem hún þrælaði við akuryrkju og loksins til Hollands. Þar var hún í vændisánauð í mörg ár þar til henni tókst að flýja til Íslands til þess eins að vera handtekin og send nauðug í klær kvalara sinna með fullri blessun Rögnu Árnadóttur. (Æ, hvað okkur vantar nú fleiri konur á þing, með alla sína samúð, manngæsku og „kvenlegu gildi“.)

En Halla spyr ekki um afdrif kínversku konunnar, ekki frekar en Ragna eða útlendingastofnun. Vændisbarátta feminista beinist nefnilega ekkert endilega gegn þrælahaldi, heldur er markmiðið það að dímonisera karla og treysta í sessi gildandi siðferðisviðhorf (semsagt að kynlíf skuli stundað á þann hátt og á þeim forsendum sem siðapostulunum þóknast) sem og hugmyndina um konuna sem hið eilífa fórnarlamb. Hagsmunir raunverulegra þolenda skipta minnstu máli.

Það kemur svosem fáum á óvart að Ragna Árnadóttir og starfsmenn útlendingastofnunar hafi talið viðeigandi að vísa vændisambátt af landi brott en einhverjir trúðu því víst upp á Ögmund og Höllu að þau hefðu meiri samúð með þrælum. Svo virðist ekki vera, allavega hefur enginn á þeirra vegum spurt um afdrif strokuþrælsins Mohammdes Lo sem útlendingastofnun, með blessun Ögmundar og Höllu, úrskurðaði að skyldi sendur aftur til Noregs þar sem honum hafði þegar verið neitað um hæli. Mohammde Lo var síðast þegar vitað var í felum á Íslandi. Hann kaus það frekar en að láta „eiganda“ sinn gelda sig. Þótt Halla Gunnarsdóttir sjái ástæðu til að gæta þess að konur sem kæra sig ekki um afskipti hennar, hleypi ekki körlum nálægt píkunni á sér gegn gjaldi, þá sér hún víst ekki sömu ástæða til að amast við því að kynfæri karlmanns, ungs, kúgaðs, örvæntingarfulls karlmanns, sem grábiður um hjálp, séu eyðilögð.

Kannski ætti ég að vera jafn svekkt út í Höllu og Ögmund. En ég er það ekki. Ég er vissulega vonsvikin yfir því að Höllu Gunnarsdóttur skuli vera treyst fyrir völdum en ég er ekki svekkt út í hana sjálfa því ég bjóst aldrei við neinu af henni. Ég bjóst ekki við því að í huga manneskju sem sér engan eðlismun á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi myndi feminisminn og mannúðin nokkurntíma snúast um mikilvægari hluti en nærbuxnastreng þeirra kvenna sem þéna peninga á kynferði sínu.

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Femínistinn, flóttakonan og strokuþrællinn

  1. ——————————————–

    Hittir naglann beint á höfuðið. Frábær grein.

    Posted by: Sigurbjörn | 21.10.2011 | 1:28:59

    ——————————————–

    Mér þykir það gott starf sem þú reiðir af hendi á þágu almennings að tjá þig á þessum miðli. Hér hefur fólk tækifæri til að sjá hvernig það kemur út þegar fólk tjáir sínar skoðanir án þess að hafa kynnt sér allar staðreindir. Takk fyrir framtakið 🙂

    Posted by: Hanna | 22.10.2011 | 1:21:30

    ——————————————–

    Enda grét hún þegar hún missti starfið sitt hjá Morgunblaðinu.

    Posted by: Rétthugsun | 22.10.2011 | 2:05:33

    ——————————————–

    Stórkostleg grein!

    Posted by: Þorkell | 26.10.2011 | 21:42:45

    ——————————————–

    Hanna. Hvernig er hægt að kynna sér ALLAR staðreyndir?

    Persónulega finnst mér Eva nokkuð góð að færa rök fyrir máli sínu, hún vitnar reglulega í heimildir og er greinilega vel lesin.

    Einnig er ég ánægður með þessi skrif og þá sérstaklega vegna þess að öll umræða á að innihalda allskonar skoðanir, og einnig því þetta umræðu efni er taboo fyrir karlmenn. Þ.e að karlmenn eru oft dæmdir mjög harkalega fyrir vissar skoðanir á feminisma, vændi og fl.

    Posted by: Ónafngreindur KK | 27.10.2011 | 12:54:04

    ——————————————–

    Hanna ef eru einhverjar staðreyndavillur í þessari grein eða öðrum sem ég hef skrifað þá vil ég gjarnan fá ábendingar um það svo ég geti lagfært þær.

    Posted by: Eva | 27.10.2011 | 20:48:32

Lokað er á athugasemdir.