Bera karlar sig verr?

man-fluUm daginn sat ég á spjalli við konu, hverrar eiginmaður var illa haldinn af kinnholubólgum og henti hún nokkurt gaman af því hve illa hann bæri sig. Sjálf lenti ég einu sinni á sjúkrahúsi vegna illvígrar skútabólgu. Var svo veik að ég var mænustungin til að útiloka heilahimnubólgu. Ég er fremur húmorslaus þegar slys og veikindi eru annarsvegar og sá ekki alveg spaugið í því þótt manngreyið væri hálfvælandi undan slíkri andstyggð. Reyndar játa ég að sjálfsvorkunn mín í veikindum er á karlmannlegu plani að því gefnu að karlar séu í raun meiri eymingjar gagnvart kvefi og kvillum en konur.

Ég heyri konur mjög oft tala um að karlmenn beri sig illa í veikindum en sjálf hef ég aldrei orðið vör við einhvern afgerandi mun á kynjunum hvað þetta varðar. Held reyndar að karlar eigi það fremur til að afþakka lyf út á einhverja undarlega gerð af karlrembu. Konur taka allavega ekkert færri veikindadaga en karlar og sennilega fleiri.

Er það almenn reynsla fólks að karlar taki umgangspestum og öðrum lasleika verr en konur? Er það kannski bundið við ákveðna kvilla? Stafar óhemjugangurinn að einhverju leyti af því að þeir séu líklegri til að telja sjálfa sig ómissandi á vinnustaðnum? Eða er þetta bara mýta? Kannski af svipuðum toga og sú útbreidda hugmynd að konur tali meira en karlar, sem virðist ætla að halda velli þrátt fyrir að rannsóknir leiði annað í ljós.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook

One thought on “Bera karlar sig verr?

  1. ———————————

    Ég hef alls ekki þessa reynslu af mínum karli. Hreint engar vælur í honum og ég þarf stundum að húðskamma hann fyrir að ætla í vinnuna sárlasinn.

    Þar fyrir finnst mér samt þetta bráðfyndið…

    Posted by: hildigunnur | 4.02.2008 | 22:35:14

    —   —   —

    Ég held að Hildigunnur hafi rambað á svarið. Karlmenn leita sjaldnar til læknis en konur (tölfræðileg staðreynd). Þeir bíta á jaxlinn og reyna að harka af sér þegar eitthvað herjar á þá.

    Ég held að það sama eigi við um pestir. Flestir karlmenn reyna að harka af sér í stað þess að leggjast í bólið þegar þeir fá fyrst pestina. Afleiðingarnar eru þær að varnarkerfi líkamans veikist, pestin nær enn betri tökum og viðkomandi verður veikari fyrir vikið. Svo karlmenn (og Eva) verða í raun veikari en flestar konur vegna þess að þeir (og Eva) hlusta ekki á líkama sinn og kunna ekki að taka það rólega.

    Ég tel þetta sem sagt ekki til dyggða karlmannsins (eða Evu) heldur heimsku. Þau yrðu kannski ekki eins veik ef þau færi að ráðum flestra kvenna 🙂

    Posted by: Þorkell | 5.02.2008 | 1:27:59

    —   —   —

    Ég held að ástæða þess að konur tali um að karlmenn verði veikari en konur sé einfaldega sú að þeir leggjast í rúmið, sófann eða stólinn og leggja niður öll störf og athafnir.
    Konur leggjast yfirleitt ekki hversu veikar sem þær verða. Þær hafa jú alltaf þurft að halda heimilinu gangandi samkvæmt samfélagslegri uppeldishefð kvenna.
    Það eru fáir sem hafa alist upp við það að móðir hverfi úr umferð (ábyrgðarinnar) við veikindi en karlarnir, lausir við innbyggða ábyrgð frá upphafi, nú eða sjálfskapaða (sem oft er)leggjast að sjálfsögðu því þeir eru jú veikir og hvaða fáviti vinnur eins og berserkur þegar hann er heima vegna veikinda.
    Svo er það líka þekkt að karlmenn gera bara eitt í einu en konur margt!

    Posted by: Áslaug | 5.02.2008 | 9:37:39

    —   —   —

    Ég held að ástæða þess að konur tali um að karlmenn verði veikari en konur sé einfaldega sú að þeir leggjast í rúmið, sófann eða stólinn og leggja niður öll störf og athafnir.
    Konur leggjast yfirleitt ekki hversu veikar sem þær verða. Þær hafa jú alltaf þurft að halda heimilinu gangandi samkvæmt samfélagslegri uppeldishefð kvenna.
    Það eru fáir sem hafa alist upp við það að móðir hverfi úr umferð (ábyrgðarinnar) við veikindi en karlarnir, lausir við innbyggða ábyrgð frá upphafi, nú eða sjálfskapaða (sem oft er)leggjast að sjálfsögðu því þeir eru jú veikir og hvaða fáviti vinnur eins og berserkur þegar hann er heima vegna veikinda.
    Svo er það líka þekkt að karlmenn gera bara eitt í einu en konur margt!

    Posted by: Áslaug | 5.02.2008 | 9:57:11

    —   —   —

    Ég hef oft spáð í þetta og sagst vera karlmannleg þegar kemur að veikindum, dreg mig hiklaust úr umferð ef ég fæ t.d. hita, er bara alveg ómöguleg ef hitinn fer yfir 38 og ligg í mikilli sjálfsvorkunn. Hins vegar hef ég auðvitað lent í því að geta ekkert lagst, verið að vinna eða ein með börnin og þá náttúrulega bara stendur maður sína vakt. En það gerir maðurinn minn líka.

    Posted by: Kristín | 5.02.2008 | 11:40:34

    —   —   —

    skv. minni reynslu bera karlar sig alls ekki verr en konur, en hins vegar er e.t.v. nokkuð hæft í því að þeir „leyfi“ sér frekar að liggja fyrir í veikindum, sem er auðvitað bara skynsamlegt.

    Posted by: baun | 5.02.2008 | 12:49:47

    —   —   —

    Auðvitað verðum við miklu veikari en konur 🙂 Það er nú ekki oft sem maður fær tækifæri til að láta dekra pínu við sig:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 5.02.2008 | 13:20:44

Lokað er á athugasemdir.