Verðmat

Fasteignasala auglýsir frítt verðmat án skuldbindingar um að íbúðin sé sett á sölu. Ég minnist þess nú ekki að hafa verið rukkuð um verðmat þegar ég hef sett mínar íbúðir í sölu en vel má vera að einhver fasteignasala sé til sem rukkar fyrir það. Held samt frekar að búi eitthvað undir þegar það sem venjulega er innifalið í pakkanum er auglýst sem „frítt“.

Það hefur svosem staðið til að selja íbúðina frá áramótum (þ.e. að því gefnu að ég fái nógu mikið fyrir hana til að kaupa eitthvað ásættanlegt nálægt miðbænum) en það er fyrst nú sem mér hefur tekist að koma Skrattanum inn í sauðarlegginn.

Ég hringdi í fasteignasala og bað um verðmat. Hann kom í morgun og það fyrsta sem hann spurði um var hvaða verðhugmynd ég væri með. Ég sagðist ekki hafa neina verðhugmynd, það væri nú einmitt þessvegna sem ég væri að óska eftir verðmati. Fasteignasalinn skimaði og skoðaði og í hverju herbergi fiskaði hann eftir mínum verðhugmyndum. Á hvaða verði íbúðir í blokkinni hefðu selst undanfarið; ég bara vissi það ekki, hvort ég væri með eitthvert lágmark í huga; nei ég vildi bara raunhæft verðmat og þessvegna herði ég hringt í hann, hvort ég hefði beðið um álit annarsstaðar; nei ekki ennþá, hvort ég vissi nokkuð um almennt verðlag fasteigna í hverfinu, nei ég hefði nú bara verið að skoða svæði sem ég vildi flytja til enda reiknaði ég með að fasteignasali gæti verðmetið íbúðina betur en ég sjálf og þessvegna hefði ég nú hringt í hann.

Eftir skoðun og myndatöku rétti fasteignasalinn mér samning um að setja íbúðina í einkasölu og bauð mér um leið afslátt af söluþóknun en það hafa reyndar allir fasteignasalar sem ég hef leitað til gert. Ég sagðist nú fyrst vilja fá verðhugmynd því ég hefði ekkert með það að gera að selja íbúðina nema sjá fram á að geta keypt eitthvað sem hentaði mér. Hann jánkaði en var greinilega ekkert mjög glaður og ég fékk svona á tilfinninguna að hann hefði ekki minnstu hugmynd um það hvaða verð ætti að setja á íbúðina. Sagðist geta gefið mér verðmat á morgun og ég sagði honum að ég gæti þá faxað til hans samninginn ef mér litist vel á.

Ég hef ekki neina rökræna ástæðu til að tortryggja blessaðan manninn. Fasteignasalar þurfa áreiðanlega oft að kynna sér verð eigna í hverfinu áður en þeir gefa upp tölur og eignendur eru áreiðanlega oftast með einhverjar hugmyndir um hvað þeir vilja sjálfir. Þetta er bara svona „göttsfíling“. Kannski ekkert að marka hana en ég ætla samt að leita álits hjá annarri fasteignasölu áður en ég ákveð hvern ég vil skipta við.

 

One thought on “Verðmat

  1. ————————————————-

    Einhver amatörsfýla af þessu og ef það er eitthvað sem maður vill ekki við sölu á íbúðinni sinni, þá eru það viðvaningsleg vinnubrögð. Ég myndi leita annað. Magnús hjá Borgir seldi mína vel á sínum tíma og hafðu minn hag að leiðarljósi í kaupunum sem á eftir fylgdu. Mæli s.s. með honum.

    Posted by: lindablinda | 15.03.2007 | 17:45:04

    ————————————————-

    get mælt með húsakaupum í bláu húsunum í faxafeninu og hallmælt remax-liði hvar sem það fyrirfinnst. söluþóknunin þeirra er bara brandari.

    Posted by: fangor | 15.03.2007 | 20:15:20

    ————————————————-

    Ertu viss um að þetta hafi verið fasteignasali með réttindi en ekki sölumeðferðarfullrúi eða hvað sem þessir amatörar kalla sig

    Posted by: gua | 16.03.2007 | 13:55:48

    ————————————————-

    Takk fyrir ábendingarnar. Ég hef ákveðið að leita annað.

    Posted by: Eva | 16.03.2007 | 17:10:02

Lokað er á athugasemdir.