Váá

Hlutirnir þróast stundum á annan hátt en maður ætlaði. Þegar ég hóf þessa sápuóperu ákvað ég að hafa bara tengla á þá sem koma við sögu og annað sem ég sjálf skrifa. Það hefur ekki alveg gengið eftir og ég er komin að þeirri niðurstöðu (allavega í bili) að þessi stefna mín sé alls ekki sniðug nema þeir sem koma við sögu bloggi eins og vindurinn.

Ég hef haft tengla á annað efni frá mér en hef ekki hugmynd um hvort einhver les það en auk þess hef ég ekki verið dugleg að uppfæra þær síður. Ákvað að taka þá tengla út en setja þá frekar inn aftur þegar er eitthvað nýtt að sjá þar.

Þeir sem koma við sögu í sápunni halda ekki endilega úti netsíðu og sumir þeirra sem á annað borð gera það blogga frekar stopullega eða þá að bloggin þeirra eru ekkert sérstaklega áhugaverð fyrir aðra en nánustu vini. Ákvað að taka út þá sem eru lítt virkir eða óvirkir.

Aðrir sem koma ekki beinlínis við sögu eru heimagangar á síðunni og með því að setja inn athugasemdir eru þeir smátt og smátt að verða hluti af sögunni. Fólk sem ég hef aldrei séð er á vissan hátt að vera persónulegir kunningjar, þessvegna finnst mér liggja beint við að tengja á fastagesti.

Svo eru bloggarar sem ég hef aldrei séð en les reglulega og eru svo skemmtilegir pennar að mér finnst rétt að benda á þá. Ég vil nefnilega gjarnan hafa áhrif á það hvað vinir mínir skoða á netinu. Auk þess á ég til að kommenta á önnur blogg og þar með er sagan mín farin að teygja sig út úm netheima.

Nokkur blogg hef ég smátt og smátt hætt að lesa og mér finnst asnalegt að hafa tengil á síður sem ég les aldrei.

Vegna alls þessa hef ég skipt út tenglum. Tenglasafnið mitt er að verða álíka skrautlegt skrímsli og á flestum bloggsíðum og ekki í neinu samræmi við mína upphaflegu ætlan en ég held að það sé bara til vitnis um að vefbókagerð byggir á nýrri bókmenntastefnu sem lýtur sínum eigin lögmálum. Vefbækur eru gagnvirkar sýndarveruleikaraunsæissögur. Höfundurinn skrifar sitt eigið líf nánast í rauntíma og hefur ekki fullkomna stjórn á framvindunni. Ný bókmenntastefna er að fæðast, og það er svo heillandi, svo frábært að taka þátt í því ævintýri. Samt held ég að fæstir bloggarar geri sér grein fyrir því hvað vefbók í rauninni er; bók sem að nokkru leyti skrifar sig sjálf, fer með þig inn á nýjar slóðir, kynnir þig fyrir nýju fólki. Bókin sem þú skrifar hefur einhverskonar tök á lífi þínu og fólk áttar sig ekki á því, segir ekki einu sinni vááá!