Fleiri úlfar

Heimsæki gamla vinkonu og norn sem bjó í næsta húsi við mig á Vesturgötunni. Hún er aðeins örfáum sentimetrum hærri en ég og virkar minni. Hún á nýjan kærasta sem lítur út eins og Jesús. Þau bjóða mér í mat og þaðan liggur leiðin á Rosenberg. Endingarbesta ást ævi minnar situr við borð og bíður. Höfum ekki talað saman í 5 ár. Litla nornin Nanna hefur líklega stefnt okkur saman viljandi.

Það væri óþarfa þrákelkni að heimta afsökunarbeiðni hér og nú. Ef kjarkurinn vex ekki á fimm árum þá er rökrétt að álykta að hjálpar sé þörf. Sumu fólki finnst bara óbærilega erfitt að biðjast fyrirgefningar.

Kinn við kinn.
„Ég elska þig alveg þótt þú sért eins og þú ert skömmin þín“ segi ég hæfilega hryssingslega.
„Ertu að fyrirgefa mér fyrir að vera geðveik?“
„Nei, fyrir að ljúga að mér. Þú þurftir ekki að gera það. En við skulum ekki ræða það akkúrat núna,“ svara ég.

Venjulega umber ég ekki að óþolandi framkoma sé afsökuð með geðveiki en ef út í það er farið átti ég auðvitað að sjá í gegnum ástandið á sínum tíma. Maður ber víst ábyrgð á því sjálfur að treysta fólki sem hegðar sér eins og það sé á kókaíni. Auk þess er sárið gróið. Einhvernveginn. Þegar maður þekkir einhvern svona vel þá veit maður hvenær viðkomandi skammast sín. Það er nóg.

Það er undarlega lítið skrýtið að hittast aftur. Jafn gaman og venjulega og án þess að ætla það er ég svo farin að telja drykkina. Óskaplega hefur lítið breyst. Mér kemur það ekki við en mér er samt ekki sama. Sést það á mér?
„Ég á ekki að drekka svona“ segir hún eins og til að staðfesta að mér komi það við og heldur svo áfram að drekka „Ekki bara út af maníunni sko. Það er nefnilega loksins komið í ljós að ég er með lupus.“

Fokking synchronicity! Fishy things attract fishy things. Eða úlfur úlf. Er ég að endurheimta vinkonu eða glata henni endanlega?

Best er að deila með því að afrita slóðina