Þessi andskotans ást

Heilinn í mér er að deyja. Ég heyri stillmyndarhljóð þegar ég reyni að hugsa og ég finn hvernig hann rýrnar dag frá degi. Vöðvarnir reyndar líka og húðin er að þorna upp en skítt með það, fegurð er ofmetin. Kannski hugarstarfsemi líka.

Bjartur klippti mig í gær. Hárið á mér var bókstaflega ónýtt. Svo slitið það var orðið ómögulegt að greiða það og ég nennti þessu ekki lengur og ætlaði að fara með rafmagnsklippurnar á hausinn á mér. Ég meina, til hvers að spandera í klippingu? Til að ganga í augun á manni sem finnst ég bara fín ómáluð, með lappirnar svo loðnar að hann gæti allt eins sofið hjá snjómanninum og telur ‘smá klípíklíp’ til kvenkosta ef eitthvað er? Mig vantaði bara bónussgríssbleikan flísnáttslopp til að fullkomna hjólhýsapakkslúkkið. En svo smekklaus sem Bjartur annars er, gekk hugmyndin um burstaklippingu fram af honum og hann greip eldhússskærin (sem ég nota til að opna pylsupakka og sósubréf) og klippti mig sjálfur. Hoppinteglan krossaði sig og flúði inn í herbergi til að þurfa ekki að verða vitni að fjölskylduharmleik en ég hafði svosem engu að tapa. Í versta falli hefði þurft að snoða mig og hár vex.

Útkoman varð ekki eins og hjá Hlyni en töluvert betri en ef ég hefði klippt mig sjálf og fer mér sennilega betur en snöggur bursti. Hoppinteglan skreið úr skjóli sínu, skipaði föður sínum niður á hnén og ‘sló hann til fagga’ með sjónvarpsfjarstýringunni. Eitt högg á hvora öxl og það þriðja dálítið fastar á hausinn. Ég stakk upp á því að við færum á hárgreiðslustofu í bænum og Bjartur sækti um vinnu þar út á faggatitilinn og hárið á mér. Hann hefði áreiðanlega gott af að skipta um vinnu. Auk þess var hann svo snöggur að þessu að hann gæti sennilega orðið mjög afkastamikil hárfríðka og hver veit nema norskar hárgreiðslustofur borgi bónus?

-Þú hefðir ekki leyft mér að gera þetta ef þú værir nógu ánægð með þig, sagði Bjartur eftir á og vottaði fyrir áhyggjum í rómnum.

Það er reyndar rétt hjá honum. Ég væri heldur ekkert að leita mér að skúringavinnu ef ég væri ánægð með mig. Ég myndi heldur ekki verja tíma mínum í að ráða sudoku gátur á netinu ef eitthvað áhugavert færi fram í hausnum á mér eða halda uppi samræðum við handarkrikana á mér ef alteregóið mitt væri í ástandi til að gera eitthvað annað en að rífa mig niður.

Merkilegt hvað fólk fer alltaf að hafa miklar áhyggjur þegar konu verður sama um útlitið á sér. Ég hef áhyggjur af Bjarti af því að vinnan hans reynir ekkert á hæfileika hans og veitir honum enga ánægju. Feðraveldið hans hefur áhyggjur af því að hann rukki ekki vinnuveitandann um aksturspening. Móðir hans hefur áhyggjur af því að hann gleymi að reka Hoppintegluna til að taka til í herberginu sínu. Ekkert okkar hefur samt áhyggjur af því þótt hárið á honum sé farið að minna á Albert Einstein og ekki myndi hvarfla að mér að það væri eitthvað að þótt hann reddaði því með rafmagnsklippunum eða væri til í að láta mig klippa sig. Aðlaðandi er konan ánægð segja þeir. Jafnvel á meðan hún fylgist með sinni eigin forheimskun. Hvað karlinn varðar er þetta eitthvað flóknara. Ef út í það er farið þarf karlinn ekki einu sinni að vera sérlega ánægður. Allavega er það eitthvað allt annað en taumlaus gleði sem veldur gífurlegum vinsældum Badabings. Sem væri sko áreiðanlega flokkaður sem bitur kjeddling ef hann væri ekki með dinglumdangl hangandi framan á sér. Karl í tilvistarkreppu er bara eitthvað svo miklu gáfulegra fyrirbæri en bitur kjeddling.

Það er ekkert hér sem örvar mig og ég stend sjálfa mig að því að kenna staðnum um andlega og líkamlega hrörnun mína. Ég þrífst ekki hér. Bara ekki, Mig langar ekki að vera hér lengur. Málið er bara að þótt sé freistandi að kenna staðnum um, þá get ég, þrátt fyrir skerta heilastarfsemi, ekki trúað þeirri skýringu lengur en 5 mínútur í einu. Ég byrjaði ekkert að grotna niður daginn sem ég kom hingað. Það hefur gerst á nokkuð löngum tíma og ég þrífst svosem ekkert sérstaklega vel í Bovrup heldur. Ég lít á íbúðina í Bovrup sem heimili mitt. Dótið mitt er þar, kettirnir mínir og hluti af fjölskyldunni. Þessvegna langar mig heim en sannleikurinn er sá að heiladauðinn er sá sami þar og hér og ekki er atvinnuástandið skárra. Auk þess er ég farin að ímynda mér að ég geti ekki lifað án Bjarts. Sem er auðvitað hið mesta kjaftæði því ég lifði ágætu lífi án hans í áratugi og reynslan sýnir að fólk heldur áfram að lifa þótt það skilji eða missi maka sinn. Ég er rökhugsandi vera, svona almennt, líka frekar sjálfstæð og fyrst ég get lifað án strákanna minna (þótt ég vildi sannarlega hafa þá nær mér ef ég mætti ráða) þá get ég líka lifað án Bjarts.

En tilfinningar lúta ekki alltaf rökum. Það er út af fyrir sig flippað því tilfinningar eru afsprengi hugsana. Samt líður mér svona. Meira hvað þessi geðveiki sem við köllum ást, er ofmetin. Þetta er ekkert skárra en að vera á kafi í dópi. Augnablik alsælu, jú mikil ósköp, en hvaða vit er í unaðskennd sem fær mann til að sætta sig við eitthvað sem maður vill ekki?

Ég verð fara að gera eitthvað við líf mitt. Fara á flakk eða í skóla eða búa í stórborg eða vinna við eitthvað sem ég sé tilgang í, bara hvað sem er annað en hanga hér í tilgangsleysi og bíða eftir því að finna ennþá tilgangslausari vinnu. En tilhugsunin um að hafa Bjart ekki hjá mér gerir mig geðveika og ekki bara geðveika heldur líkamlega veika í þokkabót. Auk þess er ég ekki sannfærð um að umhverfið skipti jafn miklu máli og ég ímynda mér. Kannski er það bara léleg afsökun. Ef út í það er farið þekki ég heiladauða háskólastúdenta og ég veit svosem ekki hvort fer neitt meira vitsmunalíf fram í stórborgum en á facebook. Það er heldur ekkert í boði að fara á flakk. Maður þarf peninga til að ferðast og eins og ég er útlítandi kæmist ég ekkert á puttanum nema kannski á næstu afvötnunarstöð. Það væri náttúrulega reynsla út af fyrir sig en ég þyrfti samt líklega að auka drykkjuna um svona 700% til að fá inni á slíkri stofnun. Það er ekki nóg að líta út eins og krakkhóra eftir slæma helgi þegar maður er svo lélegur fíkill að maður nennir ekki að fá sér rauðvínsglas af því að maður var búinn að bursta tennurnar. Auk þess eru takmörk fyrir því hverskonar þvælu maður tekur upp á bara til að öðlast nýja reynslu. Reyndar gæti ég best trúað að reynsla, reynslunnar vegna, sé stórlega ofmetin.

Ég þoli ekki að vera hér nema rétt á meðan ég ligg í fanginu á Bjarti. Hætt að hugsa. Hitastigið í húsinu býður ekki upp á annan klæðnað en lopa svo ég er nánast hætt að klæða mig, er bara í lopaskokk og lopapeysu. Alltaf. Myndi ekki nenna að éta á mig spik þótt ég hefði efni á því og er ekki einu sinni efni í alkóhólista.

Það eina sem ég myndi raunverulega nenna, er að pakka niður dótinu mínu og fara. En ég get ekki farið. Verkjar í hjartað við tilhugsunina um að sofna án hans. Vakna án hans. Vera án hans. Fæ mig bara ekki til þess þótt ég viti betur. Hún er forheimskandi, heftandi, beinlínis hættuleg, þessi andskotans ást.

Best er að deila með því að afrita slóðina