Ég vaknaði og leit í spegilinn. Hárið á mér leit út eins og ég væri með kóngulóarvef á hausnum. Ég burstaði tennurnar, lagaði kaffi og leit aftur í spegilinn. Nei, ástandið hafði ekki skánað.
Jæja, hugsaði ég, verkefni dagsins verður þá að greiða mér. Svo fór ég með greiðu og brúsa af flókaspreyi inn í stofu og kveikti á tölvunni. Það er nefnilega hægt að nota þennan hálftíma sem það tekur að greiða flókana úr hárinu á mér til að lesa netmiðlana.
Það fyrsta sem poppaði upp á skjáinn var wlm og að sjálfsögðu auglýsing. Þessi mynd:
Ásamt textanum:
Få vildt og sexet sovekammerhår
Þeir hafa semsagt komist yfir mynd af hárinu á mér nývaknaðri, breytt litnum og nú er það notað til að auglýsa einhverjar hárvörur sem eiga að eyðileggja hárið þannig að það líti svona út.
Vildt og sexet! Hverskonar þvælu er eiginlega hægt að selja fólki? Það virðist m.a.s. vera hægt að fá fólk til að borga fyrir að verða svona. Ég kann uppskriftina og deili henni hér með ókeypis. Það eina sem maður þarf að gera er að fara á fætur og sleppa því að greiða sér. Og ég sem hélt að maðurinn minn væri svona smekklaus! Hann er semsagt bara svona mikill tískuspengill. Hann heldur því reyndar líka fram að konur eigi helst að hafa ‘dálítið klípíklíp’. Þessi veruleikafirring hans hentar mér svosem ágætlega en engu að síður hefur hann rangt fyrir sér. Hefði ég allavega haldið.
En nú er ég farin að efast. Á allt eins von á því að sjá leiðbeiningar um það hvernig maður geti orðið sér úti um lærapoka. Það vill svo til að ég kann líka uppskriftina af þeim og hún er sú sama og af úfnu hári. Gera bara ekkert til að líta vel út og þá kemur þetta alveg að sjálfu sér.
Það er langt síðan fór að þykja smart að klæðast ónýtum fötum og nú er ónýtt hár komið í tísku. Lærapokarnir næst (7,9,13) og þá get ég farið að bíða spennt eftir að það fari að þykja sexý að vera gjaldþrota. Þegar að því kemur ætla ég að skrifa bók um það hvernig maður verður fullkomin. Þetta verður þynnsta ódýrasta og fljótskrifaðasta bók í heimi. Í henni verða aðeins þrjú orð: ‘Ekki gera neitt’. Ég reikna fastlega með að það verði metsölubók.