Dómarinn er búinn að týna pappírunum!
Lögreglan byrjaði á því að eyða gögnum (fyrir slysni), klikkaði á því að senda inn pappíra svo Darri fengi lögmann, gleymdi því tvisvar sinnum eftir að ég fór fram á það gleymdi að boða hann til réttarhalds boðaði hann í rangan réttarsal og gleymdi að senda saksóknara ferilskrá bófanna. Og nú er dómarinn búinn að týna bótakröfunni og öllum skjölum sem henni fylgja.
Lögmaðurinn á ekki afrit af pappírunum en ég held að ég sé með þetta allt hérna. Finnst samt frekar fúlt að þurfa að fara í gegnum þetta einu sinni enn og væla í fjölskyldunni um að lána mér bíl. Það gengur enginn strætó milli Bovrup og bæjarins þar sem lögmaðurinn er til húsa.
Ég held ekki að þetta sé beinlínis kæruleysi. Hér er t.d. engin stemning fyrir því að greiða reikninga eftir eindaga eða gleyma því að maður var búinn að panta tíma einhversstaðar. Það er bara svo mikið skrifræði hér og notkun tæknibúnaðar hjá hinu opinbera og bankakerfinu er ekki komin jafn langt og á Íslandi. Ég held að þessar stofnanir ráði hreinlega ekki við bókhaldið sitt.
Eftir þessa litlu reynslu mína af lögreglu og réttarkerfinu hér á Suður-Jótlandi, er ég að hugsa um að sækja um einhverja háa stöðu. Þetta fólk er ekkert nema almennilegheitin en bókhaldið er ekkert skárra en hjá mér.