Leira

Ég kastaði peningi og nú er ég hér. Í einhverskonar þorpsnefnu sem heitir Leira, innst í Jörundarfirði, á vesturströnd Noregs. Sit með tölvuna mína við borð í færanlegum gámi, með brennsluklósetti, eldunar-, og svefnaðstöðu fyrir Bjart og pabba hans. Hér halda þeir til á meðan þeir vinna, annars leigja þeir íbúð í Voldu en þangað er 50 mínútna akstur. Þetta er sennilega hundsrass alheimsins, öll verslun og þjónusta er sótt til Voldu og það er ekki einusinni netsamband hérna. En hér er logn, næstum alltaf, segja þeir og náttúrufegurðin er guðdómleg. Há, snarbrött klettafjöll, skógi vaxin. Hér liggja geitur á vegunum og hirtir baula í fjöllunum, smáhveli leika sér úti á firðinum og fiskitorfurnar synda nánast upp í land. Við horfum fram af bryggjunni og sjáum smáufsa í hundraðatali. Veiðum 9 stykki sem Bjartur flakar með dúkahníf (við vorum ekki með neitt skárra verkfæri) og troðfyllir litla frystihólfið í kæliskápnum.

-Þú skalt ekki veiða fleiri nema þú ætlir að borða þá, því ég elda það sem er til. Ég kaupi ekki mat á meðan er fiskur í frystinum svo þú skalt hemja veiðigleðina ef þú vilt fá eitthvað annað en ufsabollur fram að jólum, segi ég.

Hvernig eldar maður annars ufsa? Ég man hreinlega ekki til þess að ég hafi borðað ufsa öðruvísi en í bolluformi. Ætli hann sé of laus í sér til að sé gott að sjóða hann eða steikja eða er hann einfaldlega vondur? Mér þóttu ufsabollur allavega alltaf góðar þegar ég var lítil og var ég þó hroðalegur matgikkur. Í dag borða ég nánast allt og gæti áreiðanlega lifað á ufsa. Það er hinsvegar hætt við að heimasætan fitji fljótlega upp á trýnið því ein af þeim ástæðum sem hún nefnir fyrir því að pabbi hennar ætti að láta það eftir henni að vera á Íslandi í vetur er að þar sé hægt að fá góðan mat. Hún telur bersýnilega að amma hennar skilji matseldarkunnáttu sína eftir á Íslandi og varla hefur hún meiri trú á mér. Í versta falli sýð ég ufsann handa köttunum. Þær verða allavega alltaf glaðar þegar þær fá eitthvað annað en þurrfóðrið og það er miklu meira guðlast að nýta sér ekki ókeypis matarbúr en að segja sannleikann um trúarbrögð. Og svo er líka silungur í ánni og svo kemur þorskurinn inn í fjörðinn í janúar. Við þurfum að eignast frystikistu.