Bjartur er á leið til Noregs um mánaðamótin og mér líkar það stórilla,
-Fjöll og sjór? Ætlarðu virkilega að skipta á svoleiðis klisjum og rauðu trjánum í Beykiskógi og gulum ökrum? Ætlaðu að flytja til dýrasta lands í heimi til að vinna fyrir skítalaunum þegar þú býrð nú þegar þar sem bjórinn drýpur af hverju strái? Og svona að fjöllum og háu verðlagi undanskildu, hvað í rassgati færðu þá í Noregi sem þú getur ekki fengið hér? sagði ég gremjulega.
-Fasta vinnu, svaraði Bjartur.
-Þú hefur ekki sótt um neina fasta vinnu í Danmörku svo þú getur ekkert fullyrt það. Annars get ég nú ekki séð að verkefnaskortur hafi háð þér hingað til, þú ert aldrei í fríi.
En Bjartur stendur fast á því að fjöll séu æðisleg. Hann hefur álíka mikla ánægju af bókhaldi og ég sjálf og ég viðurkenni að maður sem getur bara ekki sagt nei þegar hann er beðinn að gera eitthvað, enda þótt hann sé þegar búinn að lofa upp í ermina á sér, ætti ekki að vera í sjálfstæðum rekstri.
-Geturðu ekki rassgatast til að sækja um eitthvað fast hér? sagði ég en Bjartur er flóttamaður og kom ekki hingað af áhuga á því að setjast að hérna. Hann hefur líka þessa einkennilegu þörf fyrir kuldastrekking, vonda brandara og aðrar píslir sem Krísland býður upp á og vonar að það sé svalara við norskan fjörð en hér í innsveitarsælunni. Planið er að verða ríkur í Noregi og snúa svo heim í eymd hinna íslensku fjarða þegar útlegðinni lýkur. Masókisminn ríður ekki við einteyming.
-Ég get kannski komið í heimsókn. Svona þegar er löng helgi. Norðmenn hljóta að hafa einhverja frídaga eins og aðrir, einhverskonar verslunarmannahelgi eða eitthvað.
-Nei Bjartur minn, þú kemur ekkert í neina helgarheimsókn. Þetta er 18 tíma akstur hvora leið svo það væri bara rugl, sagði ég og auðvitað vissi hann það fyrir.
-Ég ætla að sækja um í bændaskólann í Graasten, sagði ég við systur mína og svolgraði í mig rauðvínið sem Bjartur hafði skilið eftir.
-Já? Viltu semsé verða búfræðingur? sagði hún án sýnilegrar undrunar enda þótt ég hafi aldrei haft áhuga á búskap en mitt fólk er svosem vant því að ég vilji gera eitthvað nýtt.
-Nei, ég ætla að verða fræbúðingur, svaraði ég. Ég get alveg haft gaman af að læra eitthvað um kornrækt en ég ætla aldrei að vinna við hana. Get samt alveg eins hangið í skóla eins og heima hjá mér en aðallega er nú að hugsa um að kynnast einhverjum föngulegum karlmönnum.
-Þú heldur að þú myndir falla fyrir bónda?
-Já, því ekki það? Bóndinn er þó allavega heima hjá sér á kvöldin og hann er bundinn yfir jörðinni svo ekki fer hann að þvælast til Noregs um leið og hann verður hræddur um að neyðast til að slappa af eina helgi eða svo.
Systir mín geispaði.
-Nei, bændur eru sko ekki heima hjá sér. Þeir eru á traktor lengst úti á akri. Rétt skjótast heim í mat með svínaskít á stígvélunum. Auk þess eru strákarnir í bændaskólanum 16 ára svo ég efast um að þetta séu heillavænlegar forsendur hjá þér. Held þú ættir frekar að horfa á kostina við að vera í launuðu námi.
-Hrmpph, einhver þeirra hlýtur að eiga stóran bróður. Ég þarf allavega að gera eitthvað til að kynnast karlmanni fyrst þessar bjánalegu lífverur skipta mig svona miklu máli. Ég er búin að vera hér í 15 mánuði og hef ekki kynnst neinum fyrir utan Bjart og Svart, jú nema náttúrulega Lars. (Lars er sextugur nágranni systur minnar, einhleypur, barnlaus og gengur með kúrekahatt.)
-Þér hefur nú svosem ekki lengið á því hingað til að kynnast neinum. Allavega umgengstu engan nema fjölskylduna og ekki hafðirðu áhuga á að kynnast konunum á elliheimilinu svo þetta er aldeils snögg afstöðubreyting. Sérðu ekki bara eftir Bjarti? sagði Hulla.
-Jújú svo langt sem það nær og hann veit hvað mér finnst um þetta rugl en við höfum nú svosem ekkert hugsað okkur að giftast og eignast börn svo ég hef auðvitað engan atkvæðisrétt. Annars finnst mér þetta sorglegra hans vegna en mín, því hann er augljóslega að gera mistök. Hann má ekki vinna nema 48 tíma á viku í þessu volaða landi sem einhverjir bjánar flokka sem næst anarkískasta ríki veraldar og hvað ætlar hann svosem að gera við allan þennan frítíma, maður sem vinnur 13 tíma á dag og þolir ekki að taka einn frídag í mánuði. Ganga í lúðrasveit kannski? Í alvöru talað ég held að hans líf yrði miklu betra ef ég fengi að stjórna því.
-Því gæti ég trúað. Ætli þú gætir það ekki líka ef þú leggðir þig fram.
Jú, líklega gæti ég það. Líklega geta flestar manneskjur stjórnað lífi annars fólks og líklega látum við flest einhvern annan hafa meiri áhrif á okkur en við erum meðvituð um. Og ég verð að viðurkenna að köld skynsemi segir mér að það yrði Bjarti til mikillar gæfu ef ég tæki að mér að stjórna lífi hans. Ég myndi allavega láta hann borða reglulega, hætta að reykja og nota öryggisfestingar þegar hann klifrar upp á þak. Í alvöru talað, hver sér ekki gæfuna í þeim ráðstöfunum? Og svo myndi ég láta hann fara til tannlæknis (hann gerir sko við tennurnar í sér sjálfur enda álítur hann að maður eigi að vera sjálfbjarga um sem flesta hluti) og senda ákveðnum skíthæl bæði fokkjúputtann og lögfræðing, banna honum að vinna á sunnudögum og hann fengi sko ekki að flytja til Noregs. Allar myndu þessar ákvarðanir auka lífsgæði hans og hamingju til muna.
Ég hef satt að segja velt því fyrir mér í fullri alvöru hvort ég ætti ekki bara að blaka augnhárunum og gera það sem Bjari er fyrir bestu, þ.e. að ráðskast með hann, ósköp kvenlega og krúttlega, þannig að hann tæki ekki einu sinni eftir því sjálfur. Það er bara þessi hugmynd um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt sem vefst fyrir mér. Það sem er gott er nefnilega ekki endilega rétt. Jafnvel þótt það sé stundum ósköp krúttlegt.
Gott eða rétt, hvort viltu heldur? Ég er ekkert viss um að menn séu sammála um það.