Reiðhjólapumpa

-Neinei, ekki láta mig fá pening fyrir þessu, sagði Bjartur.
-Nú? Þætti þér huggulegt af mér að biðja þig að kaupa bjór fyrir mig en borga hann svo ekki? sagði ég.
-Þetta er allt í lagi.
-Jájá, allt í himnalagi en ég ætla nú samt að borga þennan bjórkassa.
-Neinei, ég gef þér hann bara í tilefni dagsins.

Ég horfði grimmdarlega á Bjart.
-Bjartur minn, karlmaður gefur konunni sem hann sefur hjá, ekki bjórkassa í afmælisgjöf. Svoleiðis bara gerir maður ekki.
-Já, nei, ég meina, þú færð alveg almennilega gjöf.
-Þú þarft ekkert að gefa mér neitt Bjartur minn, ég hef aldrei verið sérstakt afmælisbarn en ég verð ægilega glöð ef þú tínir blóm handa mér eða teiknar handa mér kort. Ég tek hinsvegar ekki við bjórkassa frá þér. Ein vinkona mín fékk einu sinni reiðhjólapumpu í afmælisgjöf frá kærastanum sínum. Allt í lagi frá hverjum sem er öðrum skilurðu en frá kærastanum! Ég meina hveru fokkans hallærislegur getur einn maður verið? Semsagt nei Bjartur, þú gefur mér ekki bjórkassa, ekki frekar en reiðhjólapumpu, punktur.

Hann mætti í afmælið með stóran pakka í bleikum umbúðum. Í honum var bjórkassi. Reyndar svo léttur að það gat ekki verið bjór í honum. Innihaldið var bleikt pils og toppur í ljósari, bleikum lit. Og reiðhjólapumpa! Ég elska kímni af þessu tagi. Og ég átti ekkert bleikt pils fyrir.

Ég held að enginn karlmaður hafi nokkurntíma gefið mér neitt bleikt áður. Man ekki einu sinni til þess að hafa fengið bleik blóm frá karlmanni. Reyndar er Bjartur líka eini karlmaðurinn sem hefur keypt á mig föt og þar að auki föt sem bæði passa á mig og falla að mínum smekk.

Koniak er ikke det værste man har og nú neyðist ég líklega til að kaupa mér hjól. Nú eða selja pumpuna.

Best er að deila með því að afrita slóðina