Býlabyggð

Ég settist að lengst úti í Suðurjóskum hundsrassi í þorpi sem heitir Býlabyggð og er í næsta nágrenni við Hullusveit í Beykiskógi. Ekki svo að skilja að ég sé haldin nostalgíu gagnvart smáþorpum, heldur er ég á hagkvæmnisflippi. Fékk semsé vinnu í þorpinu og þar sem ég vil helst komast hjá því að kaupa bíl, ákvað ég að finna húsnæði í Býlabyggð.

Skemmst frá að segja var ekki ein einasta íbúð auglýst til leigu í Býlabyggð. Aðeins eitt hús var til sölu, að hruni komið en líkist helst piparkökuhúsi í útliti. Það fannst mér táknrænt svo ég galdraði til mín smið sem vildi skoða möguleikann á að kaupa það handa mér. Hann heitir Bjartur og er svo sjálfstæður að hann gerir við tennurnar í sér sjálfur. Með sporjárni.

Piparkökuhúsið reyndist ekki bara líkjast piparköku í útliti heldur var það álíka traust til íbúðar, þ.e.ónýtt með öllu. Ég var búin að hugleiða hústöku en Bjartur og bróðir hans úrskurðuðu húsið stórhættulega slysagildru, auk þess svo undirlagt af sveppagróðri að ég gat allt eins reiknað með viðvarandi öndunarerfiðleikum. Daginn eftir að ég gaf piparkökuhúsið upp á bátinn birtist nágrannakona á tröppunum hjá Hullu, og hafði með sér blað sem annars hefði ekki borist inn á heimilið, þar sem eina lausa íbúðin í Býlabyggð var auglýst til leigu.

Og nú bý ég hér í Býlabyggð, í huggulegu tvíbýlishúsi og piparkökuhúsið á næsta horni. Garðurinn er svo lítill að ég get snyrt hann með naglaklippum. Þar vaxa jarðarber og bleikar rósir og kirsuberjatré slútir yfir hann. Elliheimilið á aðra hönd í 750 skrefa fjarlægð, kaupmaðurinn á hina, 290 skref til hans, strætó í kaupstaðinn ská á móti kaupmanninum og kráin beint á móti strætó. 4800 skref í Hullusveit. Ég geng að meðaltali 9931 skref á dag, hefði haldið að það væri meira.

Ég giftist Bjarti daginn eftir að ég flutti inn. Eða giftist honum kannski ekki beinlínis, bý bara með honum og Lífsblóminu hans af hagkvæmnisástæðum, rétt á meðan hann gerir fokhelda húsið sem hann keypti í staðinn fyrir piparkökuhúsið, íbúðarhæft.

Bjartur færði mér rósir um daginn. Bleikar.
-Vá, hann er sennilega sá rómantískasti af öllum mínum mönnum, hefur m.a.s. haft fyrir því að fara út og klippa þær handa mér sjálfur, hugsaði ég.
-Ég þarf sko hvort sem er að skera runnann niður á næstunni, sagði Bjartur.

Laugardagur í dag. Lífsblómið leggur kapal, gjörsamlega að grotna niður úr leiðindum, Bjartur á fullu í húsinu (ja eða þá fullur í húsinu, segir Lífsblómið) og ég að fara á kvöldvakt eftir einn og hálfan tíma. Ég get ekki sagt að ég hafi ánægju af félagsskap kvöldvaktarkerlinganna enda sumar þeirra svo illa innréttuð roðhænsn að ég myndi ekki hleypa þeim í kílómetra radíus við ósjálfbjarga ástvin. Sem betur fer býður kvöldvaktin upp á lágmarks samskipti við vinnufélagana og ég ætla frekar en að drekka kaffi með þeim að nota pásuna til að föndra við galdrabrúðu.

Mér segir svo hugur um að eftir viðburðalaust sumar verði framhald á sápuóperu tilveru minnar.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Býlabyggð

Lokað er á athugasemdir.