Nixen

Framundan er 40 mínútna ganga í sólinni og engin sjoppa á leiðinni svo það er ekki inni í myndinni að yfirgefa þorpið án þess að koma við hjá kaupmanninum og pikka upp einn grænan. Leiðin er falleg en þessa stundina er ekki hægt að segja það sama um mig. Það kemur svosem ekki að verulegri sök því vegurinn er fáfarinn og ég þekki hvort sem er engan hér en djöfull skal ég vera snögg að fara í hlírakjól þegar ég kem heim. Það hæfir ekki svona sólbökuðum öxlum að vera faldar undir vinnusloppnum af elliheimilinu.

Geng eftir mjórri grasröndinni meðfram þröngum sveitavegi. Á vinstri hönd er hveitiakur sem tilsýndar er mjúkur eins og gólfteppi. Hveitið nær mér í handarkrika og stráin eru ekki mjúk viðkomu en það er grasið undir fótum mér hinsvegar. Losa hárið úr taglinu og nudda auman hársvörðinn, bind hettupeysuna um mittið og smeygi mér úr ljótasta fótabúnaði mannkynssögunnar; crocs gúmíklossum. Nei, ég á þá ekki og klæðist ekki slíkum hroða. Hef reyndar alltaf tekið þægindi fram yfir útlit þegar skór eru annarsvegar og geng ekki á hælum nema 5 mínútur í senn en það eru takmörk fyrir öllu. Þetta er eiginlega slys. Það atvikaðist þannig að það var hreinlega komin táfýla af vinnuskónum mínum svo ég neyddist til að þvo þá. Já og ég veit að Alexander finnst konutáfýla lítil og sæt og eiginlega bara krúttleg en ég hef aldrei verið krútt og geng þar af leiðandi ekki í skóm sem anga af krúttlegri táfýlu. Svo ég semsagt þvoði þá. Þeir voru ennþá votir þegar ég átti að mæta á vaktina og frekar en að baða liðið á spariskónum, hertók ég þessa skelfilegu frauðplastklossa sem Júlíus litli frændi minn er vaxinn upp úr. Allt er leyfilegt í neyð.

Geng í grasinu, svona líka uppstríluð með túbba í annarri, kroggana í hinni, þegar gamall en greinilega ofdekraður citroen braggi, svartur og krómaður með blæjuna niðri, hægir á sér og stoppar rétt fyrir framan mig. Bílstjórinn snýr sér við og kallar eitthvað, fremur gremjulega, Doors á fullu blasti og ég heyri ekki hvað maðurinn er að hrópa. Hann skrúfar niður í tónlistinni og stígur út úr bílnum.
-Vertu í skónum, orgar hann og allt í einu stend ég þarna fyrir framan hann með þessa hræðilegu skó á fótunum og velti því fyrir mér hvers vegna í fjandanum ég hafi hlýtt ókunnugum manni án þess að vita ástæðuna.

-Hversvegna ætti ég að vera í skóm? spyr ég. Ég næ ekki nema öðru hverju orði í svarinu enda manninum mikið niðri fyrir en það er allavega eitthvað um brenninetlur.
-Og það er ekki gott að vera sárfættur í vinnu á elliheimili segir hann.
-Takk fyrir umhyggjuna en ég sé engar brenninetlur hér, segi ég heldur snúðuglega.
Hann bendir á hvítt blóm rétt hjá en það er ekki eins og netlurnar á Hullulóð.
-Á þetta að vera netla? spyr ég tortryggin.
-Það eru til margar tegundir af netlu en ef þú endilega vilt þá er þér auðvitað velkomið að meiða þig á þeim, segir hann, ekkert minna snúðugur en ég.
-Takk fyrir að vara mig við, ég þekki þetta greinilega ekki nógu vel svara ég og skrúfa niður í freðýsunni.

Svo tekur við vandræðaleg þögn. Og þarna stendur hann í vegkantinum, löðrandi af kynþokka, grannvaxinn, stæltur í snjáðum stuttbuxum og fremur druslulegum stuttermabol, með gylltan dún á brúnum fótleggjum og þykkt, ljóst hár sem ekki er mengað af geli eða öðrum snyrtivörum fyrir píkusa og konur. Það er dálítið ósamræmi milli hans og þessa stífbónaða bíls. Hann er á óræðum aldri, ég myndi trúa hverju sem er á bilinu 26-43ja ára. Tekur af sér sólgleraugun og horfir á mig svona karamelluaugum sem loða við mann lengi og mér finnst eins og ég hafi séð hann áður. Sem getur ekki staðist því ég hef hreinlega enga umgengist hér og einu karlmennirnir sem ég hef séð á vinnustaðnum eru 85 ára eða eldri. Nema húsvörðurinn og gluggaþvottastrákarnir en þetta er ekki einn þeirra. Hann líkist sennilega einhverjum leikara enda ekki séns í helvíti að ég hefði getað séð svona fallegan karlmann án þess að taka eftir honum.

-Ég er á leið til Sønderborg, ætlar þú langt? spyr hann.
-Það er svona 20 mínútna gangur, bein leið, svo ef þú ert að bjóða mér far þá þigg ég það, segi ég.
Ekki svo að skilja að mér sé nein vorkunn að ganga í þessu veðri og ég get ekki sagt að mig langi að setjast upp í klikkaðan bíl hjá flottum manni (eða öfugt) ómáluð og úfin, í elliheimilissloppnum, joggingbuxum með peysu bundna um mittið eins og túristi á Vesturlandsveginum, í æpandi, rauðum frauðplastklossum sem aukinheldur eru númeri of stórir, með hálfdrukkna bjórflösku í hönd og uppvís að því að þekkja ekki einu sinni algengustu jurtir sem vaxa í vegkantinum á leiðinni heim. En let’s face it, ef ég hefði í alvörunni einhvern klassa þá væri ég ekki svona útgangs og það væri bara einum of hallærisleg afneitun að skammast mín nógu mikið til að afþakka farið.

Það eru öryggisbelti í bílnum. Nútímabelti sem hægt er að hreyfa sig í en smellurnar á þeim eru stórir klossar sem líta út fyrir að vera frá 1970. Einnig gamaldagsútvarp með risastórum tökkum sem standa langt út en ekki að sjá að sé kveikt á því og hljómgæðin segja mér að nútímalegri græjur séu einhvernveginn staðsettar í bílnum þótt ég sjái þær ekki. Mig langar að spyrja en þar sem ég er ekki bílkynhneigð, hvað þá haldin tækjaáhuga og hann fær örugglega slíkar spurningar og aðdáunarþrungnar athugasemdir um tryllitækið daglega, ákveð ég að nefna bílinn ekki, ekki fremur en hann væri rosalega venjuleg Toyota, heldur spyr hvort hann búi í Sønderborg. Nei hann býr nú reyndar ekki þar heldur í þorpi rétt hjá.

Blæjan niðri og hann hækkar í ‘Hello, I love you, won’t you tell me your name’. Hann meinar samt ekkert með því enda veit hann hvað ég heiti. Ég er nefnilega enn með nafnspjaldið úr vinnunni hangandi framan á elliheimilissloppnum. Það hefði nú kannski sýnt einhvern vott af klassa að fjarlægja það áður en ég fór út en ég er víst algerlega búin að glata öllu sem heitir smekkvísi. Hann trommar á stýrið og spyr hvort eitthvað sé að frétta af gamla manninum. Gamla manninum? Allt í einu átta ég mig á því hvar ég hef séð hann. Það hafði komið í minn hlut að sitja hjá þeim gamla á meðan við biðum eftir sjúkrabílnum. Þeir komu inn, þrír saman og settu hann upp á börurnar og það leit út fyrir að vera létt verk þótt hann sé þungur. Jú ég hafði séð hann. En samt ekki tekið eftir honum. Í alvöru talað, tveim dögum fyrr hafði gullfallegur karlmaður staðið rétt við hliðina á mér og ég hafði ekki tekið eftir því. Auðvitað var ég með hugann hjá sjúklingnum mínum -en samt!

Ég segi honum að karlinn sé greinilega ódrepandi og líkur á að hann komi heim á morgun. Ég læt ekki bera á því að ég hafi ekki komið honum fyrir mig og spyr hann ekki að nafni. Það er bara ekki hægt að gera það undir þessu lagi. Enda hljómar ‘davs, jeg elsker dig’ bara hreint ekki töff. Bara ekki. Það skiptir svosem heldur engu máli því ég á örugglega aldrei eftir að hitta hann aftur en ég gæti vel hugsað mér að nota þetta andlit í runkfantasíu og fjandinn hafi það að ég geti notað nafn á borð við Hans eða Jens eða hvað Danir nú annars heita. Ég spyr ekki. Hann gæti jafnvel heitað Rasmus. Eða Knud. Ákveð að kalla hann bara Jakob eða eitthvað annað alþjóðlegt. En hann tekur sjálfur af skarið, líkt og hann langi að kynna sig.
-Svo þú heitir Eva, segir hann, sem hann veit þó vel og ég er svosem ekki í aðstöðu til að neita því.
-Nafnið mitt er svo asnalegt að það er ekki hægt að bera það fram en vinir mínir kalla mig Nixen, segir hann.
-Nú? ertu svona neikvæður?
-Nei, ég bara þoli ekki reglur reglnanna vegna.
-Það geri ég ekki heldur. Nixen.
-Ertu frá Hollandi? spyr hann og það hlaut svosem að vera að hann vildi fá upprunann á hreint. Mig langar ekki baun að svara spurningum um efnahagsástandið á Íslandi. Hér um slóðir eru flestir góðir í þýsku svo Holland kemur ekki til greina. Mér dettur í hug að ljúga því að ég sé Finni en ég þekki ekkert Finnlands og kann ekki orð í finnsku og það yrði fremur neyðarlegt að geta ekki svarað ef hann tekur upp á að tala finnsku við mig eða hefur dvalið langtímum í Helsinki.
-Ég er frá Kríslandi. Landi svika og kreppu, segi ég um leið og hann ekur inn á planið við Hullubæ.
-Nú jæja svo þú ert Krísi, svarar hann á klingjandi kríslensku og vottar ekki fyrir hreim. Þá geturðu nú líklega borið nafnið mitt rétt fram.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Nixen

 1. ————————————-

  Snildar færsla.Gangi þér allt í haginn

  Posted by: BB | 26.06.2009 | 19:58:57

  ————————————-

  Eva, takk fyrir þetta móment. Ég er nefnilega ekki bara bílkynhneigð, ég er líka takkakynhneigð, svo þegar ég las um þetta tæki lak ég næstum úr stólnum!

  Þú ert hreint út sagt yndisleg. Ég sakna þín.

  Posted by: anna | 28.06.2009 | 1:03:26

Lokað er á athugasemdir.