Þreytt

Fáránlega geðveikur dagur. Var að skríða upp í rúm með tölvuna og það suðar í höfðinu á mér af andlegri þreytu.

Ég settist niður í fimm mínútur um fjögurleytið og tróð seríjósi í andlitið á mér. Það er eina pásan sem ég hef tekið frá kl 7 í morgun og ég sé fram á að morgundagurinn verði svipaður. Það er fínt. Ekki bara upp á innkomuna heldur líka af því að geðheilsu minnar og annarra vegna, má ég helst ekki hafa of mikinn tíma til að hugsa alveg á næstunni.

Um síðustu mánaðamót var ég örvæntingarfull. Var farin að ganga á skiptimyntina í kassanum síðustu dagana í mars og það hefur ekki gerst áður í sögu fyrirtækisins. Var farin að halda að Mammon væri hættur að taka mark á göldrum og eiginlega búin að ákveða að örþrífa í þriðja sinn á árinu. Ekki gott mál að gera örþrifaráð að rútínu sagði ég við Mammon og heimtaði betri lausn og áður en til örþrifa kæmi fór verkefnum skyndilega að rigna inn. Þessi mánaðamót verða kökusneið.

Erfiðleikar fyrsta og erfiðasta ársfjórðungsins bitna harkalega á mér en þó á allt annan hátt en ég reiknaði með.

Ég er skyndilega orðin kvíðin gagnvart verkefnum sem mér hafa alltaf þótt auðveld.

Á morgun fer ég til Danmerkur og slít formlega stjórnmálasambandi við Ísland.

Best er að deila með því að afrita slóðina