Ef

Einu sinni var maður sem langaði að kvænast mér. Yfirleitt hefur það verið öfugt, því þrátt fyrir annálað hórirí mitt úti um allar koppagrundir, er ég mikill aðdáandi hjónabandsins og finnst ekkert sérstakt atriði að fólk sem ákveður að búa saman sé heltekið af hrifningu.

Á þessum tíma var ég samt ekki tilbúin í neitt andavinafélag þótt maðurinn væri hinn frambærilegasti. Var nýskilin og með bakþanka, hafði orðið bálskotin í barnungum strák um sama leyti og lagðist í harmarunk þegar það gekk ekki upp. Var ekki búin að jafna mig almennilega á því og var svo ofan á allt saman búin að hitta stærstu ástarsorg unglingsáranna eftir nokkurra ára aðskilnað og var í geðbólgu yfir þeirri fjarstæðukenndu hugmynd að það hefðu bara verið mistök af hans hálfu að fara illa með mig, en ekki karaktereinkunn.

Ég hefði kannski átt að biðja vin minn að bíða í nokkra mánuði og gefa mér færi á að ná áttum en mér fannst ég ekki hafa neinn rétt til þess að halda annarri manneskju volgri án þess að gefa loforð um skuldbindingu, svo ég sagði honum að afskrifa mig. Sem hann og gerði. Ég hef oft velt því fyrir mér síðan hvort ég hafi gert mistök því ég hef aldrei verið almennilega sátt við að vera einhleyp og ekki hafa ástarsambönd mín orðið langlíf. Enda er ástin ekki til. Hjónabandið er hinsvegar til.

Ég velti því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið. Ég hefði orðið að eignast amk eitt barn til viðbótar, sem væri þá á unglingsaldri í dag. Rökrétt er að álykta að fjárhagsstaða mín væri betri en ég er ekki viss. Mér sýnist á þeim sem ég þekki að konur tapi yfirleitt töluvert miklu fé á því að vera í sambúð. Ég hefði ekki gert allt sem mér sýnist en á hinn bóginn hefði ég ekki verið jafn einmana. Ég væri sennilega í vinnu sem ég væri ósátt í og gæti ekki tekið eins mikinn þátt í grasrótarstarfi en ég væri sennilega líka búin að druslast til að gefa út skáldsögu því ég veit að hann hefði peppað mig upp og talið mér trú um að það skipti máli.

Ég hefði horft á fleiri kvikmyndir en séð færri leiksýningar. Ég hefði sennilega skúrað álíka marga fermetra eftir sem áður og lesið álíka mörg ljóð. Ég hefði riðið meira (vonandi) og drukkið minna (ekki svo að skilja að ég sé mikil drykkjukona, hann bara drekkur ekki og ég drekk sjaldan ein). Líklega hefði ég eytt minni tíma í að tæta hárin af fótleggjunum á mér og ég væri örugglega búin að fjárfesta í hrærivél.

Ég sjálf. Hvernig hefði ég þróast sem karakter? Væri ég stilltari, örari, minni öfgamanneskja í viðhorfum? Kannski hefði ég ekki komið mér upp jafn megnri ímugust á valdastofnunum. Og þó. Ég efast um að sambúð hefði breytt neinu um hugsunarhátt minn.

Kannski væri mikilvægasta breytringin sú að ég þyrfti ekki að hugsa mig um áður en ég gæfi upp nánasta aðstandanda ef ég þyrfti að leggjast inn á sjúkrahús.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ef

  1. ———————————————–
    Ástin er til – en maður þarf að taka ákvörðun um að elska. Gangi þér allt í haginn.

    Posted by: Anonymous | 12.02.2009 | 14:53:01

    ———————————————–

    Ef það að para sig er það eftirsóknarverðasta í þessu lífi, þá betur heima setið, en af stað farið.

    Posted by: s | 12.02.2009 | 15:39:16

    ———————————————–

    Að para sig er augljóslega eitt af því sem flest fólk í öllum samfélögum veraldar álítur hvað eftirsóknarverðast í lífinu. Allavega eru fáir sem para sig aldrei og flestir eyða einhverjum hluta ævi sinnar í sambúð. Fólk myndi varla leggja vesenið við það á sig ef það teldi ekki eftirsóknarvert að para sig.

    Posted by: Eva | 12.02.2009 | 19:52:57

    ———————————————–

    Ég er forvitin um það hvernig konur tapi fá á því að vera í sambúðum? 🙂

    Posted by: Unnur María | 18.02.2009 | 23:30:44

    ———————————————–

    Karlar eru almennt áhættusæknari en konur og ekki eins fyrirhyggjusamir og það á við um fjármál eins og annað. Einhleypir karlar skulda almennt meira en einhleypar konur, þótt þeir hafi hærri meðaltekjur.

    Ef fólk eignast börn er það yfirleitt konan sem fórnar tekjumöguleikum.

    Ef einstætt foreldri fer í sambúð missir það barnabætur, en það er ennþá algengara að börn búi hjá móður eftir skilnað.

    Ég hef engar tölur en þekki nokkuð mörg dæmi sem eru á þessa leið:

    Karl og kona fara í sambúð. Karlinn hefur hætti tekjur en er skuldum vafinn, konan er með námslán og yfirdrátt en ekkert annað. Eitt af markmiðunum með sambúðinni er að spara í heimilisrekstri. Fljótlega kemur í ljós að skuldir karlsins eru mun hærri en þau höfðu áttað sig á (hann gleymdi t.d. að taka fram að margt af þessu væri komið í lögfræðing). Tekjur karlsins duga varla fyrir hans eigin greiðslubyrði og heimilisreksturinn lendir að mestu á konunni.

    Þetta er bara það sem ég sé. Ég hef engar tölur og það má vel vera að minn vinahópur hafi einhverja sérstöðu.

    Posted by: Eva | 19.02.2009 | 7:34:06

Lokað er á athugasemdir.