Við feðgarnir komum saman til skrafs og ráðagerðar í gærkvöld. Samfeðgur minn (eða er að samfeðgi? hvernig eru feðgar í eintölu?) datt niður á fyrsta pródjektið okkar af einskærri tilviljun daginn eftir að ég framdi seið einn satanískan, sem ég gerði þó að vanda ráð fyrir að kæmi fram á allt annan og mun fyrirsjáanlegri hátt.
Þetta þýðir að ég verð að fresta því aðeins að sukka í annarri þáttaröðinni af Dexter. Ég hafði ekki séð fyrstu röðina en systir mín elskuleg gaf mér hana fyrir nokkrum dögum og ég hef satt að segja lítið gert annað en að liggja yfir henni. Hvílík gargandi snilld. Mig vantar líka nokkra þætti inn í næstu seríu og ætla sannarlega að horfa á þá þáttaröð alla í einni lotu þótt ég hefi séð meirihlutann, það er bara önnur upplifun að taka allt í einni lotu og sofna með æðarnar troðfullar af þessum yndislega, friðandi hryllingi sem fylgir því að þekkja úlfinn í barninu en vera öruggur heima í rúminu sínu og vita að það eru hverfandi líkur á að skrímslið komi og hluti mann í sundur með keðjusög. Fyrsta smásagnasafnið sem ég skrifaði hét Úlfurinn og barnið. Það voru fallegar sögur um ástarsorg, hefnd, sjálfsvorkunn, mannát og fleira sem allir þekkja af eigin raun. Ef ég hefði verið búin að sjá Dexter þá, hefði ég líklega aldrei skrifað þær. Hefði aldrei orðið sátt við samanburðinn.
Ætla samt að bíða aðeins. Vinnuhelgi framundan og minnst skemmtilegi hlutinn kemur fyrst, þ.e. skipulagsvinna sem í þokkabót skilar ekki pening í kassann. Skítt með það, ég er viss um að dr. Frankenstein hefur þurft að fara í gegnum heilmikla pappírsvinnu áður en hann gat hrópað; it´s alife.
Systir mín var að hringja og bjóða mér í ljóðalestur og rauðvín í kvöld. Ef mér hefði verið sagt, fyrir 6-7 árum að það ætti eftir að gerast hefði ég hlegið hátt. Ég hef svo mikla samkennd með dr Frankenstein. Ég skil af hverju hann leitaði að El Dorado á norðurpólnum.