Ég er náttúrulega svo skapstór…

Mér varð frekar óglatt í morgun þegar ég heyrði unga konu lýsa sinni eigin hyperfrekjulegu framkomu gagnvart einhverri ritaraafmán á læknastofu með orðbragði sem ekki er hafandi eftir. Manneskja með snefil af sjálfsvirðingu hefði beðist afsökunar á dónaskapnum og dauðskammast sín fyrir upphlaupið en þessi unga kona útskýrði fyrir vinkonu sinni með greinilegu stolti að hún væri „náttúrulega svo skapstór“.

Það er ótrúlega algengt að fólk haldi að mikið skap gefi því rétt til að hegða sér eins og fávitar. Mér finnst nú reyndar að þegar fullorðið fólk missir hvað eftir annað stjórn á skapi sínu sé réttara að tala um geðillsku og agaleysi en mikið skap. Nema þá að þetta tvennt fari saman en sem betur fer er það ekkert mjög algengt. Ég efast um að sé beint samband milli ástríðufullrar skapgerðar og stjórnleysis. Ég þekki allavega bæði dæmi um skapstórt fólk sem missir sjaldan stjórn á sér og einnig um fólk sem ræður ekki við sitt vonda skap enda þótt það sé í raun mjög skaplítið. Viðbrögð við ergjandi aðstæðum segja nefnilega alveg jafn mikið um sjálfsaga og skaperð.

Setjum sem svo á í fjölbýlishúsi nokkru búi fáviti. Þessi týpa sem er á allan hátt óþolandi í sambúð. Hann reykir í anddyrinu og hendir sígarettustubbununum á stéttina fyrir framan útidyrnar. Hann stíflar sorprennuna. Hann heldur hávær partý fram á nótt aðra hverja helgi, skilur ónýtan stofuskáp eftir í stigagangnum í margar vikur og hreytir ónotum í börn nágrannanna af litlu eða engu tilefni.

Nágranni sem er enginn sérstakur skapmaður og lítur á sjáfsaga sem hæfileikann til að komast hjá því að troða illsakir við neinn, leiðir þessa framkomu hjá sér í lengstu lög. Hann hugsar sem svo að fávitinn sé bara svona og að hann ætli ekki taka það inn á sig. Þegar hann er farinn að skammast sín fyrir aðkomuna að húsinu, nær hann sér í kúst og sópar upp sígarettustubbunum og losar sorprennuna. Hann biður börnin sín að vera sem minnst fyrir fávitanum og kaupir eyrnatappa handa fjölskyldunni til að tryggja nætursvefn um helgar. Þegar hann er búinn að lenda í því einu sinni að þurfa að færa skápbrakið úr gangveginum til að greiða leið sjúkraflutningamanna, þá býðst hann til þess að fara sjálfur með það í Sorpu. Þegar hann hættir að þola ástandið flytur hann úr húsinu.

Nágranni sem hefur lítið skap sem hann hefur litla stjórn á, tekur geðillsku sína út á öðrum íbúum. Hann stoppar hvern einasta kjaft í stigaganginum, líka gesti, og tuðar yfir því að það þurfi nú eitthvað að fara að gera í þessu. Hann segir ekkert hreint út við fávitann sjálfan (því hann hefur bara ekki nógu mikið skap til að svara fyrir sig) en ýjar kannski fínlega að því að það þyrfti að hreinsa lóðina. Hann segir kannski; hvur ætli eigi þennan skáp hérna í ganginum? með vandlætingarsvip enda þótt hann viti fullvel hver á hann. Hann argar á börn fávitans þegar fávitinn hefur argað á börnin hans. Hann hringir á lögguna í hvert sinn sem hann grunar að partý sé að hefjast. Á húsfundi, sem fávitinn mætir vitanlega ekki á, tekur hann málið upp og nöldrar um það í 90 mínútur. Lýsir hverju smáatviki sérstaklega og finnst að einhver þurfi að gera eitthvað en hefur vitanlega enga lausn. Uppáhaldsfrasinn hans er; sko það kemur að því að ég segi eitthvað. Hann hefur fávitann líka grunaðan um ýmsa hluti sem koma honum ekki rassgat við, svosem lauslæti, fjárhagsóreiðu og ættartengsl við einhvern þjóðþekktan ódám, og þetta tekur hann allt saman upp á húsfundinum líka. Þegar fávitinn flytur úr húsinu, finnur hann sér eitthvað annað til að armæðast yfir og ef hann flytur sjálfur eignast hann undantekningarlaust slæma nágranna.

Nágranni með mikið skap og lítinn sjálfsaga hegðar sér mjög í stíl við fávitann sjálfan. Hann hellir sér yfir hann í stigaganginum með ruddalegu orðbragði, í áheyrn barna þeirra beggja, sendir honum fingurinn og sparkar í stofuskápinn. Svo fer hann heim og segir konunni sinni hvað hann sé mikill skapmaður og hvað hann hafi nú tekið fávitann hressilega í nefið. Tveimur dögum síðar tekur hann svo annað kast enda skilaði fyrra kastið engum árangri. Það breytir því þó ekki að hann er gífurlega ánægður með sjálfan sig. Hann er nefnilega svo skapstór og lætur engan vaða yfir sig. Að vísu er sorprennan stífluð eina ferðina enn og stofuskápurinn enn í gangveginum en fávitinn er allavega með það á hreinu hvað honum finnst. Þessu getur hann haldið áfram í marga mánuði og ef fávitinn flytur úr húsinu, finnur hann sér einhvern annan fávita til að ala upp af því að hann er svo skapstór, sjáðu.

Nágranni sem er skapstór en hefur þokkalega stjórn á sér lætur fávitann líka vita hvað honum finnst en hann gerir það ekki með hávaða. Hann kvartar einu sinni í mestu vinsemd. Í annað sinn lýsir hann yfir gremju sinni og þegar það dugar ekki til, bíður hann fram á laugardagskvöld. Þá fer hann út og tínir upp sígarettustubbana og setur þá í póstkassa fávitans. Svo losar hann sorprennuna, treður pokunum í stofuskápinn og ýtir honum svo beint í veg fyrir dyrnar að íbúð fávitans (sem er full af partýgestum). Hann snýr skáphurðunum að dyrunum svo sorppokarnir velti örugglega inn um leið og einhver opnar. Daginn eftir kennir hann börnunum sínum að svara fyrir sig. Svo heldur hann áfram að senda fávitanum skýr skilaboð um það hverskonar hegðun hann muni ekki umbera, þar til hann annað hvort lærir að hegða sér eða flytur eitthvert annað.

Og ef vel siðuðum skapmanni verður það á að ganga of langt, þá heldur hann haus með því að viðurkenna það og biðjast afsökunar en ekki með því að réttlæta það með skapstærð sinni. Honum finnst nefnilega enginn sérstakur stíll yfir því að hafa mikið skap ef því fylgir ekki þokkalegur sjálfsagi.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ég er náttúrulega svo skapstór…

 1. —   —   —

  Þetta þykir mér góð greining.

  Posted by: Kalli | 8.04.2008 | 15:29:43

  —   —   —

  Mikið góð greining.

  Verð að segja að þeir sem ég hef kynst og fynst hafa mesta skapið, þá hafa þeir oftast bestu stjórnina á því líka.

  Posted by: Stefán | 8.04.2008 | 16:41:56

  —   —   —

  þetta er svo satt að ég næstum tárfelldi…

  hef aldrei þolað þessa ömurlegu réttlætingu fyrir skítlegri hegðun.

  Posted by: baun | 8.04.2008 | 16:57:46

  —   —   —

  Ég er alvarlega að hugsa um að prenta þessa færslu út og hengja upp á vegg hjá mér. Má ég það ef höfundar er getið?

  Posted by: HT | 8.04.2008 | 19:05:50

  —   —   —

  Ekki málið. Þú þarft ekki einu sinni að geta höfundar.

  Posted by: Eva | 8.04.2008 | 19:30:01

  —   —   —

  sko, ég held að svona lið eins og þessi unga kona sem þú talar um í byrjun, hafi bara aldrei lært að hafa stjórn á skapinu, væntanlega vegna þess að foreldrar hafa lúffað fyrir henni og látið eftir frekjugangi. Það eru bara svo skelfilega margir svona, því miður.

  Greiningin er líka ansi hreint góð…

  Posted by: hildigunnur | 8.04.2008 | 21:51:08

Lokað er á athugasemdir.