Tragedíupleppinn er algeng manngerð sem hefur þó ekki fengið verðskuldaða athygli innan sálarfræðinnar. Tragedíuplebbinn er gjarnan afkastakátur moggbloggari, duglegur við að endursegja fréttir af hneykslismálum, ofbeldismálum og ýmsum hjákátlegum uppákomum en forðast allar umræður sem krefjast þess að hann noti í sér heilatuðruna til að afla upplýsinga og mynda sér sjálfstæðar skoðanir.
Tragedíuplebbanum líður voða illa þegar fólk er honum ósammála. Það er svo hræðileg tilhugsun að þurfa kannski að endurskoða hugmyndir sínar, éta eitthvað ofan í sig eða að færa rök fyrir máli sínu. Þessvegna er tragedíuplebbinn voða mikið fyrir hverskyns harmarunk enda geta allir verið sammála um að vont fólk er vont, að fólk ætti að vera gott og almennilegt og að ofbeldi og spilling gera heiminn að verri stað. Hann skrifar bloggpistla sem innihalda merkilegan sannleikskjarna á borð við „svona fólk er sjúkt“ og „hvernig getur fólk gert svona ljóta hluti?“. Aukinheldur les hann allar sannsögulegar bækur sem hann kemst yfir um börn og konur sem sæta misþyrmingum og kúgun. Ef út kemur bók sem ber titil í þolmynd (t.d. „Brennd“ eða „Lamin“) þá bíður hann ekki eftir jólunum, heldur kaupir hana sjálfur. Uppáhaldskaflarnir hans í hverri bók eru kaflarnir þar sem kynferðislegt ofbeldi kemur við sögu. Þegar hann er búinn að lesa fyrstu nauðgunarlýsinguna í bókinni gerir hann hlé á lestrinum til að blogga um hvað þetta sé nú allt hræðilegt. Sem það vissulega er.
Samt er það svo merkilegt að tragedíuplebbinn lætur aldrei sjá sig á samkomum þar sem tilgangurinn er sá að vekja athygli á mannréttindabrotum og öðru óréttlæti sem hægt er að uppræta og hefur verið upprætt með ötulli baráttu tiltölulega fámennra hópa. Hann hefur ekki tíma til þess enda sér hann engan árangur af því. Hann hefur heldur ekki tíma til að senda ríkisstjórnum og ráðamönnum sem standa fyrir fjöldamorðum og pyndingum tveggja lína póstkort til að láta vita af því að umheimurinn sé ósáttur við vinnubrögð þeirra. Hann á heldur ekki fimmhundruðkall aflögu til líknarmála enda engin trygging fyrir því að peningurinn komist til skila.
Málið er nefnilega að tragedíuplebbanum er skítsama um fólk sem hann þekkir ekki. Hann getur haft gaman af ævisögu píslarhetjunnar, fengið adrenalínkikk út úr krassandi lýsingum á viðbjóði og vonsku, en það sem raunverulega heillar hann er ekki tilhugsunin um að hægt sé að gera eitthvað til að draga úr fjölda þeirra sem ganga í gegnum þjáningar, heldur dýrðarljómi persónunnar sem gengur svipugöngin og lifir það af.
Það er eitthvað tilkomumikið við barinn þræl sem stendur upp aftur og aftur. Hver sú manneskja sem einhverntíma hefur upplifað óréttlæti (og það gerum við öll, því lífið er ekki réttlátt) getur ímyndað sér að hún skilji þjáningar. Það er gáfuleg tilfinning að vita um þjáningar heimsins og ímynda sér að maður skilji þær. Það er hinsvegar ekkert sérstaklega gáfulegt að halda á spjaldi með áletrun á borð við; „við vitum hvernig þið farið með fólk“. Það er eiginlega frekar hallærislegt enda skilar það engum árangri. Ekki fyrr en eftir langt ferli hundsunar, aðhláturs og árása.
Keli skrifaði færslu um ellefta boðorðið núna um daginn. Ég held að æðsta boðorð nútímas sé „þú skalt ekki vera hallærislegur.“ Að vera sinnulaus, hræsnisfullur og latur, það er hinsvegar í lagi. Við lifum nefnilega í svo stressuðu samfélagi og það er bara enginn tími aflögu til að ergja sig yfir hlutum sem koma okkur ekki við; svosem þjóðernishreinsunum og pyndingum. Svo er það líka hallærislegt og ef við höfum þörf fyrir að röfla má alltaf nota blessað bloggið til þess.
——————————————–
Bravó!
Þetta var góður pistill.
Svona heilt yfir.
Posted by: HT | 25.03.2008 | 14:36:10
— — —
Ég er hræddur um að „fólk með hallærislegar skoðanir“ sé ekki bara bundið við Moggablogg 🙂 Móðursjúkan Lúkasarkórinn er að finna á ýmsum stöðum og tilheyrir ýmsum málefnum. Blogghöfundur setur fram hneyksli dagsins og svo breimar já-kórinn undir:)
Posted by: Guðjón Viðar | 25.03.2008 | 15:59:40