Muse

-Einu sinni langaði mig að eiga mann sem ég vissi að myndi ekki sofa hjá mér. Hann hafði það bara ekki í sér og ég ætlaði að taka því með skilningi. Ég vissi að hann yrði góður við mig og ég hugsaði með mér að ég gæti þá bara sofið hjá einverjum öðrum. En nú, þegar ég hef mann sem er góður við mig og sefur hjá mér líka, þá er ég ekki viss um að ég vilji nokkurntíma hafa það öðruvísi. Málið er bara að öryggi er ekki sérlega inspírerandi og þessvegna er ég ekki viss um að ég vilji láta þetta ganga mikið lengra. Þetta er fínt eins og það er og kannski er ákveðin fjarlægð bara gott mál. Svo jújú, ég elska hann alveg, en ég ætla ekkert að sleppa mér í neina geðbólgu yfir því, sagði ég.

-Er það þessvegna sem þú vilt vinna með mér? Af því að ég er nógu óáreiðanlegur til að veita þér innblástur? spurði hann og horfði rannsakandi á mig.
-Jaaaá sagði ég, hálfvandræðaleg af því að hann hætti náttúrulega að vera óáreiðanlegur um leið og hann hætti að drekka og það var áður en við fórum að vinna saman, svo já, líklega hljómaði ég alls ekki eins og vissi hvað ég væri að tala um.
Eða það er allavega eitthvað í þér sem kveikir á skáldskapnum í mér. Og ég held að slokkni kannski bara endanlega á honum ef lífið verður of þægilegt, bætti ég við og vissi að ég hljómaði álíka gáfulega og listamenn sem halda því fram að þeir geti ekki gert neitt af viti nema þeir séu á kafi í fíkniefnaneyslu.

-Það drepur ekki í manni sköpunarkraftinn að eiga áreiðanlegan maka. Það er kannski ekki endalaus flugeldasýning en ég er allavega hvorki hættur að taka myndir né semja tónlist þótt ég eigi konu sem er með báða fætur á jörðinni. En ef ekkert hefur breyst hjá þér á síðustu árum þá verður þetta ekki langlíft. Málið er að ef maður heldur alltaf nógu mikilli fjarlægð til að geta staðið uppréttur þótt sambandið slitni, þá nær maður aldrei þessari nánd sem þarf til að það slitni ekki, sagði Maðurinn sem segir að ég sé með svarthol í sálinni.

Og svo sækir Maðurinn sem segir að ég sé með svarthol í sálinni gítarinn sinn og semur lög við kvæðin mín. Og ég hlusta, söngla með, bæti stefjum inn í eftir þörfum eða skrifa nýja texta. Og jú, það er harla gott. Alveg bara ágætt. Jafnvel þótt hvorugt okkar sé einmana og óhamingjusamt og hvorugt okkar á fylliríi heldur.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Muse

  1. ———————————–

    Vertu hinsvegar of nálægt og fallið verður hart

    er manneskjan eina
    sem var stoð þín
    hverfur.

    Posted by: Gillimann | 14.03.2008 | 8:20:48

Lokað er á athugasemdir.