Ég er glöð og ég er góð því Jón er kominn heim

Mammon virðist hafa tekið þá ákvörðun að hundskast heim til sín (mín) aftur. Allavega er hann búinn að létta af mér ca 20 kg af kvíða og ég sé út úr hríðinni þótt sé ekki beinínis sólskinsdagur á bankareikningnum mínum. Hann hlýtur að hafa lesið bloggið mitt í gær.

Ég er heppin. Það er lögmál. Reddast alltaf og oftast án örþrifaráða. Besti vinur í heimi var búinn að bjóða mér aðstoð og mér þykir mjög vænt um það því það lýsir bæði trausti og umhyggju. Ég hefði samt sennilega frekar látið lýsa mig gjaldþrota en að þiggja hana. Ég veit að þrákelkni mín hvað fjármál varðar er mjög bjánaleg. Yfirleitt á ég ekki í neinum vandræðum með að þiggja greiða enda er mun hallærislegra að sitja spólandi í snjóskafli en að þiggja aðstoð til að komast út úr honum en það er fátt ef nokkuð sem hreyfir meira við viðkvæmninni í mér en tilhugsunin um að missa fjárhagslegt sjálfstæði mitt. Ég er hræddari við krabbamein en skuldir en ég myndi samt ekki missa sjálfvirðinguna þótt ég fengi krabbamein.

Lífið er gott og nú er ég að fara að vinna að öðru verkefni með Manninum sem segir að ég sé með svarthol í sálinni. Fæ sennilega aldrei krónu með gati út á það en það verður allavega gaman.

Best er að deila með því að afrita slóðina