Raðbögg

Á sex vikum gerðist eftirfarandi:

1  Systir mín lenti á gjörgæslu og hluti af lunganu var fjarlægður. Mér brá illa þegar ég sá hvað hún var mikið veik og játa þá sjálflægni að þetta triggeraði áhyggjur af mínu eigin heilsufari. Ég er með nákvæmlega sömu einkenni og hún hefur haft í mörg ár. Ekkert vekur mér jafn mikla skelfingu og hugmyndin um að missa heilsuna og þetta fékk nógu mikið á mig til að ég hætti í magadansi til að hlífa lungunum í mér.

2 Ég leigði út heimilið mitt, að hluta vegna örvæntingar yfir óæskilegu samskiptamynstri við barnið mitt og að hluta til að milda fyrirsjáanleg fjárhagsvandræði. Það væri óeðlilegt ef ég sæi ekki dálítið eftir Evulegasta heimili sem ég hef nokkurntíma átt en ég hef ekki vælt yfir þessari ákvörðun (enda er hún algerlega og eingöngu á mína ábyrgð) heldur gert það besta úr stöðunni. Hinsvegar hef ég eytt töluverðum tíma í að hugga fólk sem kemur þetta ekki við og álítur að líf mitt sé hið ömurlegasta.

3 Mér var stefnt fyrir dóm. Ég átti alveg eins von á því og hef svosem ekkert verið að armæðast yfir því heldur lagðist ég í lagalestur til að geta varið mig sjálf ef ég fengi ekki þann lögfræðing sem ég vildi. Fékk hann svo reyndar, galdrar virka.

4 Bíllinn minn lenti í árekstri og ég hélt að hann væri ónýtur. Ég þakkaði fyrir að enginn slasaðist og sætti mig við tilhugsunina um að vera bíllaus um tíma. Þurfti það reyndar ekki og var þó ekki búin að fremja neinar almennilegar galdrakúnstir. Pegasus virkar.

5 Tölvan mín fór ekki í gang og mér tókst með einskærum aulahætti að eyðileggja grunninn sem fyrirtækið mitt er byggt á. Ég fékk ofsalega góða hjálp sem ég er innilega þakklát fyrir en eftir stendur að stór hluti af efni búðarinnar glataðist þ.m.t. nánast fullunnið handrit að bók um galdrastafi. Auk þess tvö smásagnasöfn sem ég á engin afrit af. Mig langaði bæði að leggjast í sjálfsvorkunn og sjálfsáökun og ákvað því að segja sem fæstum frá þessu í bili. Vildi frekar nota orku mína til að endurskrifa búðina en að reyna að sannfæra óviðkomandi meðvirkla um að líf mitt væri samt ekki ónýtt. Það er töluverð vinna eftir enn. Hér með er þetta upplýst, harmarunk, blóm og kransar afþakkaðir, án sérstakrar vinsemdar.

6 Ég missti af verkefnum sem áttu að skila mér nægum tekjum til að forða mér frá yfirdráttarvaxtaskrímslinu. Af tillitssemi við hjartastarfsemi aðstandenda ætla ég ekki að nefna upphæðina.

7 Ég upplifði lélegasta mánuð í sögu Nornabúðarinnar og persónulega hef ég aldrei staðið verr fjárhagslega. Ég hef ekki lagst í volæði yfir því heldur útvegað mér fullt af hundleiðinlegum verkefnum, klippt kreditkortið, sagt elskulegum vini mínum og starfsmanni upp störfum og haldið minni eigin framleiðslu að kúnnum (eins og mér finnst það erfitt) til þess að draga úr dýrari innkaupum.

Ég hef áhyggjur af syni mínum Ygglibrúninni og Heimshornaflakkaranum, ég sakna Drengsins sem fyllir æðar mínar af Endorfíni sárlega, systur minnar í útlandinu ekki síður og Kela mest. Mér verður óglatt af tilhugsuninni um að fara út í þenna endalausa vetur og er með verki í kjúkunum. Ég þarf að fara í móðurlífsaðgerð en er svo hrædd við svæfingar að ég lýg því hvað eftir annað að sjálfri mér að það sé betra að fresta því þar til um hægist. Þótt ég muni reyndar ekki eftir einum degi í lífi mínu sem það hefði hentað mér eitthvað sérstaklega vel að gangast undir skurðaðgerð.

Þetta eru svosem ekki neinar katastrófur en þar sem mörg smááföll koma saman á stuttum tíma, þar myndast geðbólga. Um daginn var mér sagt að ég væri ‘rosalega mislynd’. Fyrstu viðbrögð mín voru þau að mótmæla, því ég held í einlægni að flestir minna vina og vandamanna hefðu tekið svona raðböggi töluvert verr en ég og ég tel mig sannarlega hafa tekist á við geðbólgu mína sjálf í stað þess að taka hana út á öðrum. Mér gramdist en ég ákvað samt að ergja mig ekki á þessari þvælu heldur líta á hana sem kjánalega tilraun til að ná undirtökum í samskiptum með því að rugla í hausnum á mér.

Við nánari umhugsun held ég reyndar að ég sé einum of tortryggin. Að þetta hafi kannski ekki verið meðvituð tilraun til að slá mig út af laginu, heldur leggi hún kannski aðra merkingu í orðið mislyndi en ég sjálf. Finni kannski til óöryggis gagnvart Míunni í mér. Ég get verið eins og Mía litla, syngjandi kát gagnvart vinum og fjölskyldu á sama tíma og ég er reið út í heiminn, pólitíkina og heimsku mannskepnunnar. Ég býst við að það sé töluvert ógnvekjandi fyrir þá sem ekki þekkja mig. Allavega sagði harðfullorðinn vinur minn mér einu sinni að hann ætti í vandræðum með að horfa á Múmínálfanna af því að hann væri svo hræddur við Míu. Sem gerir þó engum meira mein en að vekja óþægilegar spurningar. Ég býst við að hann hafi verið að ýkja en öllu gríni fylgir nokkur alvara.

Og nú er ég farin í ræktina. Ég er ekkert að grínast með það.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Raðbögg

 1. ———————————-

  Fokk, helvíti og pomm. Sem betur fer ertu þjarkur og hefur rétta viðhorfið. Ef ég get eitthvað hjálpað, þá kanntu númerið.

  Posted by: lindablinda | 9.03.2008 | 17:40:49

  ———————————-

  Ekki finnst mér þú mislynd. Skil samt vel að þeir sem þekkja þig minna en ég gætu tekið upp á að finnast það…
  Mér finnst þú aftur á móti frosin á köflum og afskaplega tortryggin og stórfurðuleg 🙂 og mér finnst þú líka yndislegust og frábærust og ég sakna þín mikið 🙂
  Það er fátt skemmtilegra en að drekka morgunnkaffið sitt með þér 🙂
  Elska þig „koss og knús“

  Posted by: Hulla | 9.03.2008 | 19:31:53

  ———————————-

  Gangi þér vel. Líka þetta mun verða að baki. Mía getur nefnilega allt.

  Posted by: Unnur María | 9.03.2008 | 20:03:29

  ———————————-

  Leitt að heyra um systur þína og peningamálin. Lífið er endalaus uppspretta verkefna, gleði og sorga en það er dáldið slæmt ef þetta kemur svona í hryðjum fremur en í viðráðanlegri skömmtum.

  Posted by: Guðjón Viðar | 9.03.2008 | 20:43:34

  ———————————-

  Það er nú svo með þig Eva mín að það er sama úr hvaða hæð þú hefur fallið og hversu margar kollsteypur þú hefur þurft að taka á leiðinni, alltaf hefur þú komið standandi niður. Ég er ekki í nokkrum vafa um að svo verður einnig nú. Galdraðu burtu hræðsluna við svæfingu og drífðu þig í að fara í aðgerðina sem þú þarft á að halda. Það er nefnilega með heilsuna eins og að halda bíl gangfærum, það þarf að halda hvorutveggja vel við svo það gangi.
  Kær kveðja,

  Posted by: Ragna | 9.03.2008 | 23:00:57

  ———————————-

  baráttukveðjur!

  Posted by: baun | 9.03.2008 | 23:20:51

  ———————————-

  jú gó, görl!

  Posted by: hildigunnur | 10.03.2008 | 8:31:18

Lokað er á athugasemdir.