Í mark

Einu sinni spurði ungur maður mig hvort konum þætti Í ALVÖRU gaman að fá blóm og konfekt. Honum fannst það eitthvað svo ófrumlegt og hallærislegt að það gæti varla verið að konur sem hefðu eitthvað á milli eyrnanna kynnu að meta það.

Ójú, það virkar. Allavega á mig. Ef viðkomandi þekkir mann ekki þeim mun betur, þá finnst mér bestu gjafirnar vera þær sem eyðast. Ég vil ekki sjá frumlegt stöff sem verður að drasli heima hjá mér. Má ég þá frekar biðja um algerlega ófrumlegan lúxus sem lætur mér líða eins og drottningu án þess að ég þurfi að hafa áhyggjur af því að skemma eða týna. Mér finnst gaman að fá blóm, ilmsápur, fínt súkkulaði, kerti, vín, osta, handsnyrtingu, leikhússferð (bara ekki ilmvatn, ég verð að fá að velja þau sjálf)… Jújú, frumleiki er alveg fínn líka en sérstaklega frumleiki sem kostar ekki mikið. Þegar ég varð þrítug fékk ég frumsamið tónverk í afmælisgjöf. Ég man að ég fékk líka fullt af dóti en ég man ekki lengur hvaða dót eða frá hverjum. Ég gleymi hinsvegar aldrei þessum tónlistargjörningi.

Margir virðast ekki trúa því almennilega þegar ég segist ekki þurfa meira dót og ég var næstum farin að halda að Stefán væri síðasti karlmaður á jörðinni sem gæti virkilega hitt í mark hjá mér með gjöfum en nú er ég svo lukkuleg að eiga líka kærasta sem nær þessu.

Ég keypti dálítið handa þér, sagði hann og ég fékk smá hnút í magann því það fyrsta sem mér datt í hug var armband. Ég veit ekki af hverju því hann hefur svosem aldrei sýnt áhuga á armböndum en það er fátt sem mér finnst jafn óþægilegt að fá að gjöf. Armbönd eru að mínu mati skartgripir Satans. Mér finnst þau bara óþægileg og svo týni þeim alltaf innan þriggja daga. Reyndar týni ég hringjum líka. Þegar ég giftist vil ég frekar fá húðflúr með galdrastaf. Maður tekur húðflúrið ekkert af sér þótt maður sé að flísaleggja.

Ég fékk ekki armband (sjúkket) heldur helling af allskonar fínu sem eyðist. Margar tegundir af te sem ég hef aldrei séð fyrr, eþíópískt kaffi, krydd og sælgæti. Hann kórónaði svo allt með því að bjóða mér á pólskan matsölustað í hádeginu. Mér finnst svo gaman að fara á óvenjulega matsölustaði (Sægreifinn er t.d. í uppáhaldi hjá mér) og ég hef aldrei borðað pólskan mat fyrr.

Pegasus er kominn heim frá Frakklandinu.
Ég er að drekka te sem heitir byssupúður en bragaðst samt bara eins og gott te.
Bráðum ætla ég að hætta þessu ritæði og elda karfa í engifer og chili.
Lífið er gott.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Í mark

  1. ———————————–

    Oh, ég er svo sammála! 🙂 Og hvernig getur einhverjum dottið í hug að það sé ekki gaman að fá blóm? 🙂

    Posted by: Unnur María | 29.02.2008 | 14:07:42

Lokað er á athugasemdir.