Samkvæmisleikir

Rikki tók áskoruninni um að opna eldspýtnasokkinn, taka upp eldspýtu og kveikja á henni, slökkva á henni aftur og setja eldsýpuna ofan í stokkinn, án þess að nota vinstri höndina. Hann hélt eldspýtnastokknum milli tannanna og glotti.

-Það er nú ekkert að marka þetta, sagði Anna, þú máttir bara nota aðra höndina, ekki munninn.
Það kom ekki fram í skilmálunum,
sagði Rikki.
-Auðvitað er að marka það. Hann hugsaði út fyrir rammann og það er miklu flottara en handarfimi,
sagði ég.
-Það er samt ekki að marka. Þrautin gekk ekkert út á að hugsa út fyrir rammann, það geta allir gert þetta með þessari aðferð, mótmælti Anna.

Ég gerðist gáfuð og sagði þeim söguna af samkvæmisleik Kristófers Kólumbusar. Kólumbus var búinn að finna Ameríku og var harla ánægður með það. Í veislu sem var haldin honum til heiðurs (ef ég man rétt) tók einhver upp á því að dissa dáðina. Sagði að þetta hefði verið glópalán, hver sem væri gæti fundið landið með því að sigla nógu lengi í sömu átt.

Kólumbus stofnaði þá til samkvæmisleiks. Hann tók egg og spurði hvort einhver gæti látið það standa upp á endann. Það tókst auðvitað engum. Kólumbus tók þá eggið og sló því létt við borðbrúnina svo skurnin brast og þar með stóð eggið auðveldlega. Einhver hafði á orði að þetta væri nú ekkert að marka, hver sem er hefði getað leyst þrautina með þessari aðferð.
-Já, sagði Kristófer Kólumbus, hver sem er HEFÐI GETAÐ það, en það var ég sem GAT það. Hver sem er hefði getað fundið Ameríku en sorrý dúds, það var ég sem fann hana.

-Hann hefur líklega ekkert verið búinn að frétta af Leifi Heppna, sagði Rikki.
-Kannski voru Spánverjar bara ekkert búnir að frétta af því hvað Leifur Heppni var flinkur við að brjóta egg, sagði Anna glottandi. Sama Annan og sú sem andartaki fyrr hafði tregðast við að viðurkenna gildi þess að hugsa út fyrir rammann.

Þetta eru inspírerandi dagar. Ég hef vissulega upplifað yndislegri fjárhagsstöðu og eins og venjulega haldast fjárhagsáhyggjur og ófyrirsjáanleg óhöpp í hendur. En félagslíf mitt hefur ekki verið betra síðan á háskólaárunum og já, ég kann alveg að meta skemmtilegt fólk.

Ég hef verið svo heppin síðustu mánuði en ég er skeptíker að eðlisfari og á mjög erfitt með að trúa því að ég geti verið heppin á öllum sviðum í einu. Maður fær það sem maður trúir segja þeir og hvernig í fjandanum á ég að trúa því að líf mitt geti verið fullkomið þegar ég hef aldrei upplifað tímabil þar sem öll svið eru fullkomin á sama tíma? Jájá, þetta er lúxusvandamál en næstum því er bara ekki nóg.

Hvernig öðlast maður trú á það sem virðist fjarstæðukennt? Ég trúi á skapandi hugsun, sjálfsbjargarviðleitni og frumkvæði. Það er bara eitthvað sem virðist virka. Mér gengur verr að trúa á mannkærleika, samhjálp og þjónustulund. Og þessi afstaða gerir mig að kapítalista, þrátt fyrir þá skoðun mína að æskilegast væri ef mannúð, friðsemd og samstaða væru raunhæfar leiðir til árangusr. Það er þetta EF. Stundum vildi ég að ég tryði á Gvuð. Þótt mér finnist það sérdeilis fávitalegt. Stundum trúi ég pínulítið á ástina. Allavega í smástund. En það eina sem ég efast aldrei um er þetta eldsúra epli; maður fær ekkert sem skiptir máli fyrirfram. Maður þekkir raunverulega fjársjóði á því að maður verður að borga fyrst. Hvernig maður fer að því er allt annað mál. Nú þyrfti ég að finna nýja leið til að láta gamalt egg standa upp á endann.

Best er að deila með því að afrita slóðina