Í alvöru

Ljúflingur.

Svo langt síðan ég hef séð þig. Engu líkara en að það hafi verið í einhverri annarri sögu. Mig ætti að langa að snerta þig, tala við þig, hlæja með þér en nú stöndum við hér og höfum ekkert meira að segja. Allavega ekki ég.

-Það er nú ekki alveg rétt hjá þér að allir sem þekki þig almennilega séu í útlöndum, sagði hann kumpánlega.
-Ég sé engan grundvallarmun á því að vera í útlöndum og að eiga konu, svaraði ég.

Ég brosti, alls ekki óglaðlega en hann þekkir mig nokkuð vel og kannski sá hann örla á freðýsunni undir yfirborðinu.
-Það er nú helst að sjá að þú sért svo gott sem gift sjálf, sagði hann.
-Og? Fer það í taugarnar á þér?
-Nei, alls ekki. Það fór í taugarnar á þér að geta ekki haft mig út af fyrir þig en ég hugsa ekki þannig. Ég samgleðst þér. Þú þurftir á því að halda að finna einhvern almennilegan og ég hef aldrei óskað þér einmanaleika og vansældar þótt ég sé eflaust meingallaður.
-Þannig að þú komst bara til að lýsa yfir ánægju þinni með Pegasus? Jahérnahér! Strindberg hitti aldeilis naglann á höfuðið, mikið ósköp eiga mennirnir bágt.

Ljúflingur lét sem hann tæki ekkert eftir hæðnistóninum í mér, sletti í góm og fiktaði í kertinu, sem hann gerir annars sjaldan.

-Ég á ekkert átakanlega bágt en þú veist að ég er egóisti og mig langar náttúrulega að vita hvað það er sem ég hef sem hann hefur ekki, sagði hann.
-Habbð’ ekki áhyggjur gæskur, þú hefur ábyggilega helling sem hann hefur ekki. Kasólétta eiginkonu til dæmis.
-Ekki lengur reyndar. Nú á ég stelpu.
-Heilbrigða?
-Já. Yndislega.
-Jæja. Svo hún er þá búin að gjóta, sú ljóta, til hamingju með það.
-Æ, góða vertu ekki að spila þig andstyggilegri en þú ert, þú veist vel að það hreyfir ekkert við mér.
-Það er reyndar ekki rétt yndið mitt, sagði ég ögn blíðari á manninn. Það hreyfir víst við þér. Kannski ekki það sem ég segi en þér svíður að ég skuli særa þig viljandi. Það er rétt hjá þér að ég ætti ekki að segja svona ljótt við þig, það er víst nóg fyrir þig að sitja uppi með tíkina en mig langar að særa þig miklu meira en þetta. Til hamingju með telpuna samt, það segi ég í einlægni því það er mikil gæfa að fá að ala upp barn.
-Takk. Og sorrý að þig skuli langa að særa mig. Ég á það væntanlega skilið. Hélt bara að þú værir búin að jafna þig. Þessvegna kom ég. Ekki til að krafsa í sár heldur af því ég vil bara að allt sé gott á milli okkar.

Ég fann ekki viðeigandi orð. Það var í lagi. Líklega hélt hann að ég þegði af því að það væri svo snjall leikur hjá mér. Allavega grunaði hann ekki að ég vissi ekki hvað ég ætti að segja.

-Eitt sem mér finnst furðulegt. Hún á til að vera tillitslaus, það viðurkenni ég en þegar þú ert grimm þá ertu það viljandi, svo hvernig getur þú leyft þér að kalla hana tík?
-Þú leyfir mér það elskan og ég fæ ekkert sérstakt kikk út úr því að kalla hana tík en ég fæ kikk út úr því að sjá að þér sé sama þótt ég tali um hana af virðingarleysi, sagði ég með þeirri blíðustu einlægni sem ég á til. Annars hefur orðið tík tvær ólíkar merkingar og það hefur aldrei verið á hreinu hvort ykkar er undirlægjan í þessu sambandi. Þú leyfir henni að valta yfir þig og hún sættir sig við að þú eigir aðrar konur úti í bæ. Og hvað viltu mér eiginlega elskulegastur? Heldurðu virkilega að ég sé ekki búin að fá nóg af þessu útúraalkóhólíska hundahóteli ykkar?

-Líður þér eins vel og þú segir Eva?
-Já. Mér líður mjög vel.
-Af hverju snýrðu þá þessari klakaskel að mér?
Bara af því að það er takmarkað pláss fyrir innan hana Ljúflingur. Ekkert persónulegt.
-Nú ætla ég ætla að segja þér eitt og ég tek fram að ég er ekkert að segja þetta til að reyna að fá þig til þess að segja mér eitthvað um ykkar samband, þetta er meira svona til umhugsunar fyrir þig; ég veit ekki hvað það er sem ég hef sem hann hefur ekki en það hlýtur að vera mikilvægt fyrst þú vilt ekki tala um það.

Hann faðmaði mig þegar hann fór og hann brosti en hann sagði ekki þú elskar mig.

Æ, Ljúflingur. Auðvitað þykir mér vænt um þig, svo langt sem það nær en að elska er sagnorð og ég nenni ekki að praktísera annað en það sem gerir líf mitt betra. Hvað hefur þú sem hann hefur ekki? Helling áreiðanlega og ég gæti gefið þér komplíment ef það væri í mínum verkahring en héðan af verðurðu að fiska eftir svoleiðislöguðu heima hjá þér.

Ég hef satt að segja ekkert borið ykkur saman og sé ekki ástæðu til þess en fyrst þú biður mig að snúa hnífnum í sárinu: Mér leið vel með þér nokkur augnablik en ég sakna þín ekki. Þú hefur þekkt mig lengur og þar af leiðandi þekkirðu mig betur, ert fljótari að fá botn í orðræðu mína og hugsanagang. En það merkir ekki að þú elskir mig betur og það það eina sem ég vil er að vera elskuð. Mér finnst ég vera elskuð og mér líður vel með það Ljúflingur. Mér líður í alvöru virkilega vel.