Þrjár fljótlegar leiðir til að missa vitið

1. Reiknaðu með að fólk meini það sem það segir, farðu á límingunum í hvert sinn sem einhver stingur þig í bakið en treystu honum samt aftur.

2. Gerðu kröfu um að lífið sé réttlát og grenjaðu í hvert sinn sem það ælir yfir þig að ástæðulausu.

3. Laðaðu að þér harmarunkara sem grenja með þér og staðfesta þá skoðun þína að þetta sé allt saman hræðilegt.

Bíllinn minn skemmdist. Það er ekki mér að kenna en það er ég sem sit uppi með skaðann. Það er fúlt. Hundhelvítigrautfúlt. Og ósanngjarnt. EN: Enginn stakk mig í bakið og mér finnst ósanngjarnt líf skárra en óheiðarlegt fólk. Enginn meiddist. Bílinn var gamall og verðlítill. Ég bý ekki á Hornbjargsströnd heldur miðsvæðis í Reykjavík og strætó stoppar í næstu götu við mig.

Þetta var fúlt. Vissulega. Ég hefði alveg viljað pepp. Ég hefði alveg viljað að Drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni væri á landinu. Hann hefði komið til mín blaðskellandi af tilefnislausri hamingju, nuddað á mér axlirnar og talið mér trú um að yfirnáttúruleg heppni mín hefði forðað ótímabæru andláti annars drengs sem mér þykir líka ákaflega vænt um. En hann er ekki hér. Hinsvegar hef ég tekið daginn í að hugga fólk sem á engra hagsmuna að gæta en finnst viðeigandi að grípa andann á lofti af áhyggjum og spyrja harmþrunginni röddu hvernig ég ætli eiginlega að fara að.

Ég missti bíldruslu, ekki útlim. Ég lét það hvorki eyðileggja fyrir mér gærdaginn né daginn í dag og bið þá sem taka tjón mitt nærri sér hér með afsökunar á því að ég skuli ekki koma auga á alvöru málsins.

Lífið er gott.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Þrjár fljótlegar leiðir til að missa vitið

  1. ————————————

    OUI! auðvitað! Lífið er gott.

    Posted by: Kristín | 4.02.2008 | 19:48:02

    ————————————

    Tilefnislausri?

    Posted by: Dreingurinn | 30.07.2008 | 4:59:24

Lokað er á athugasemdir.