Það virkar

Einu sinni vann ég á elliheimili. Margir voru einmana. Sumir fengu aldrei heimsóknir og þá sjaldan að það gerðist stoppuðu ættingjarnir stutt.

Ein konan átti son sem var óvenju natinn. Hann heimsótti hana á hverjum einasta föstudegi. Hann stoppaði reyndar ekkert mjög lengi, kannski í 40 mínútur að jafnaði en það var ekki annað að sjá en hann hefði jafn gaman af þessum heimsóknum og hún. Það sem meira var, hann kom alltaf með blóm handa henni og ég varð þess vör að blómin voru gjarnan heilmikið umræðuefni. Ég velti því stundum fyrir mér hvort væri virkilega jafn gaman að fá blóm ef það væri svona föst rútína en líklega voru blóm sérstakt áhugamál hjá kerlingunni. Allavega virtist hún alltaf jafn glöð og þreyttist aldrei á því að sýna starfsstúlkunum blómin og tala um hvað sonurinn væri mikill öðlingur. Eitt sinn spurði ég hana hvort sonur hennar væri garðyrkjumaður eða ræki blómabúð en svo var ekki.

-Þegar ég kom hingað sagði ég honum að hann ætti að heimsækja mig oft og að hann ætti alltaf að færa mér blóm, allavega á meðan ég væri nógu skýr í kollinum til að njóta þeirra, sagði sú gamla.

Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum. Ég var búin að ákveða með sjálfri mér að sonur hennar væri lifandi sönnun þess að fullkomnir afkomendur væru til en svo reyndist gaukurinn bara vera svona hlýðinn. Kannski varð ég skrýtin á svipinn því hún útskýrði málið án þess að ég þyrfti að spyrja.

-Hann er mjög hugulsamur, hefur alltaf verið það en ef ég hefði ekki sagt honum hvernig hann ætti að sýna það, þá væri hann aldrei viss um hvort hann væri að gera rétt. Það er þessvegna sem fólk hættir að koma í heimsókn, það er alltaf með samviskubit og svo þegar það loksins kemur þá veit það ekkert hvað það á að tala um.

Hún sagði mér líka að hún væri búin að vera á heimilinu í rúm 2 ár og hann hefði alltaf komið vikulega, aðeins stöku sinnum þurft að breyta um dag. Og já, hann kom ALLTAF með blóm. Hún sagðist trúa því að það væri betra að eiga syni en dætur, því þótt hún ætti nú bara þennan eina son sem hefði alltaf verið indæll, þá væri það hennar reynsla að konur væru alltaf að reyna að hafa vit fyrir manni. Reyndar væri ekki hægt að reikna með því að karlmanni dytti sjálfum í hug að koma með blóm og og þessvegna þyrfti að segja þeim það en þeir tækju hinsvegar mark á því þegar þeim væri sagt til.

-Ef ég hefði átt dóttur, þá hefði ég ekki þurft að segja henni hvað mér þætti gaman að fá blóm, hún hefði verið búin að átta sig á því sjálf fyrir mörgum árum, en ég hefði heldur ekkert fengið blóm nema við hátíðleg tækifæri. Stundum hefði hún komið með eitthvað sem ég hefði ekkert orðið hrifin af og stundum ekki neitt og hún hefði áreiðanlega ekki heimsótt mig í hverri viku. Ég meinti auðvitað ekkert að hann ætti að koma með blóm í hvert einasta skipti en fyrst hann tók þessu svona bókstaflega þá þakka ég bara fyrir það, sagði hún og kímdi við.

Ég held reyndar hugmyndir gömlu konunnar um syni og dætur séu frekar langt frá sannleikanum. Ég held að dóttir hefði alveg eins virt svona eindregna ósk. Ég held líka að sonurinn hefði ekki þurft að koma með blóm nema einu sinni til að skilja hvað það gladdi hana mikið og ég held að hann hafi alveg áttað sig á því að hvorki himinn né jörð færust þótt hann sleppti blómunum af og til. En sagan hafði samt ákveðin áhrif á viðhorf mín og þau viðhorf hafa frekar styrkst með árunum.

-Stundum gerir maður fólki stóran greiða með því að biðja um það sem maður vill frekar en að setja það í þá aðstöðu að þurfa sífellt að giska á hvað virki.
-Hugulsemi er ekki endilega sjálfsprottin og hún er ekki endilega ómerkilegri þótt hún sé beint svar við einlægri ósk.
-Það sem gleður mann þegar það kemur á óvart hættir ekki að gleðja mann þótt það verði að reglu, ekki ef maður veit að það hefur sömu merkingu.
-Þegar maður veit að maður stendur sig í einhverju hlutverki (t.d. því að sinna öldruðum foreldrum vel) hættir það að vera kvöð.

Ég stórefast um að ég eigi nokkurntíma eftir að verða svona upptekin af blómum sjálf en ég er hinsvegar ákveðin í því að ef ég fer einhverntíma á elliheimili, ætla ég bara að segja strákunum mínum hreint út hvað ég vil að þeir geri fyrir mig. Það virkar nefnilega.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Það virkar

  1. —————————————-

    Mikið óskaplega er þetta góður pistill.

    Posted by: Matti | 17.11.2007 | 22:11:25

    —   —   —

    Skemmtileg saga 🙂

    Annars held ég að synir hugsi oft betur um mæður sínar en dætur. Ástæðan er sú að samband dætra við mæður sínar er oft stirðara og eldfimra. Ég þekki alla vega fleiri dætur sem ekki tala við mæður sínar (eða þar sem sambandið er stirt) en syni.

    Posted by: Þorkell | 17.11.2007 | 22:18:52

Lokað er á athugasemdir.