Hvernig ástfangin kona hagar sér

Keli vill endilega að ég skrifi lýsingu á því hvernig ástfangin kona hegðar sér. Nú er ég blessunarlega laus við ásókn ástfanginna kvenna og væri nú kannski betur viðeigandi að Keli skrifaði slíka grein sjálfur en það er nú ekki oft sem Keli biður mig um eitthvað svo habbðu þetta til marks góurinn:

Í grófum dráttum á það sama við um bæði kynin. Ef kona er virkilega hrifin af þér þá finnur hún tíma fyrir þig, sama hversu upptekin hún er. Hún lætur í ljós velþóknun á þér, hefur áhuga á því að heyra skoðanir þínar og vill vita meira um þig. Hún hefur meiri áhuga á að segja vinkonum sínum hvað þú sért æðislegur en að heyra hvað þeim finnst um þig. Hún tekur tillit til þín og er tilbúin til að gera málamiðlanir. Hún sýnir þér kynferðislegan áhuga, leggur sig fram um að líta vel út og fer fúslega í aðstæður sem bjóða upp á nána snertingu. Horfir mikið á þig, brosir mikið.

Til eru fávitar af báðum kynjum og hugsanlega hefurðu ástæðu til að ætla að konan sé ekki verulega skotin í þér heldur sé áhugi hennar byggður á óæskilegri forsendum. Kannski er hún auðnuleysingi sem er að leita að bjargvætti. Kannski er hún nógu örvæntingarfull af einmanaleika til að vilja bara einhvern félagsskap og þá má auðvitað reikna með að hún gefi skít í þig um leið og einhver annar og meira spennandi er í boði. Ef þú ert ekki viss, taktu þá eftir því hvernig hún kemur fram við þig, hvaða upplýsingar vekja athygli hennar og hvaða væntingar hún hefur til þín.

Dæmi:
Ef hún hefur áhuga á þér sem manneskju vill hún fá að vita hvaða áhugamál þú hefur og hvort þú ert ánægður í vinnunni, á hvaða hæfileika verkefnin reyna og hvað annað þú hefur gert eða gætir hugsað þér að gera. Ef hún virðist uppteknari af tekjunum þínum, tekjumöguleikum eða líkunum á stöðuhækkun þá er ekki ólíklegt að hún sé að leita að bjargvætti.

Ef hún er hrifin af þér vill hún fá að vita sem mest um börnin þín vegna þess að hún lítur á þau sem jafn mikilvægan hluta af lífi þínu og annan handlegginn á þér. Samband þitt við þau segir henni eitthvað um þig og þessvegna vill hún sjá þig með þeim. Ef hún hefur lítinn áhuga á börnunum þínum eða lítur á þau sem „pakka“, láttu hana þá róa.

Ef hún er ástfangin af þér þá þiggur hún greiðasemi og gjafir með þakklæti og hrifningu, frekar af því að hún lítur á slíkt sem staðfestingu á því hvað þú sért frábær en vegna þess að hún þurfi að láta einhvern sjá um sig eða af því að þú sért ómissandi. Ef hún biður þig að gera sér óhæfilega stóran greiða, t.d. eitthvað sem útheimtir mikla vinnu eða tíma, eða lána sér peninga áður en þið eruð farin að þekkjast nógu vel til að skiptast á húslyklum, þá er hún sennilega frekar bjargarlaus. Láttu Don Kíkóta um að redd´enni. Ef þú býðst til þess að gera henni stóran greiða og hún þiggur það, þá finnur hún leið til að endurgjalda greiðann ef henni er annt um þig. Ef hún álítur það bara sjálfsagt mál og gerir ekkert á móti, þá mun hún framvegis nota þig sem ókeypis iðnaðarmann, fjármálaþjónustu eða hvað annað sem þú býður upp á.

Ef hún notar kynlíf sem gjaldmiðil þegar hún vill hafa sitt fram þá er hún belja. Hún mun ekki hætta því og þessháttar framkoma er ekkert annað en ákveðið form kúgunar. Kona sem er ástfangin af þér sefur hjá þér af því að hana langar það en ekki af því að það geri þig meðfærilegri.

Ef hún elskar þig, þá gerir hún eitthvað skemmtilegt með þér, nýtur þess að vera með þér þótt sé ekkert spennandi að gerast og hlakkar til að hitta þig aftur. Hún gerir eitthvað fyrir þig án þess að það sé svo rosalegt að þér finnist þú skulda henni eitthvað. Hún gæti t.d. boðið þér í mat eða boðist til að taka að sér sendiferð eða smáverkefni. Ef hún aftur á móti þolir bara ekki að vera ein þá hegðar hún sér eins og HÚN sé ómissandi áður en þú ert búinn að kynna hana fyrir fjölskyldu þinni og vinum. Hún tekur t.d. upp á því að ryksuga heima hjá þér, panta tannlæknatíma fyrir þig óbeðin eða passa upp á að þú farir með bílinn í skoðun.

Þegar á heildina er litið gildir sama lögmál um ástarsambönd, hvort kynið sem á í hlut: ástfangið fólk gefur til kynna að því sé alvara, með öllu sem það gerir og segir. Ástarsambönd þola heiðarleika. Ef það „klúðrar“ sambandinu að spyrja hreint út hvort langtímakynni komi til greina, þá er hvort sem er engin innistæða fyrir því.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina