Morðgátukvöld

Frumkvöðlakonur spila ekki endilega eftir reglunum eins og sannaðist í morðgátuferðinni um helgina. Lögfræðingurinn var orðinn fremur ráðvilltur á svip þegar hann sat óvænt uppi með lík, sem engan veginn passaði inn í söguþráðinn og einn þátttakenda lá eins og ormur á gulli á hlut sem gegndi stóru hlutverki í lausn gátunnar.

Eflaust hefði vanur hópur spilað allt öðruvísi og ég gæti trúað að stjórnandinn hafi oft skemmt sér betur. Ég held samt að við séum sammála um þetta hafi verið fullkomlega þriggja klukkustunda virði, allavega á ég eftir að lifa á þessu í margar vikur. Ég fékk leiklistarverðlaunin fyrir frammistöðu mína í hlutverki suður-amerísks forngripamangara en Davíð Þór hafði á orði eftir kvöldið að hann hefði aldrei stjórnað þessum leik með lélegri bissnissmanni. Jamm. Það er ekki að ástæðulausu sem ég held bæði bókhaldara og búðarsvein.

Ég hef hugsað dálítið um það undanfarið hversu mikill auður búi raunverulega í krafti kvenna. Ekki sérlega mikill ef marka má fjárhagsstöðu hinna kraftmestu kvenna sem ég hef kynnst. Ég þekki enga konu sem getur kallast vel stæð en hinsvegar marga karla. Það virðist ósanngjarnt en þegar allt kemur til alls þá reka þessar kraftmiklu konur ekki stórar verslanakeðjur, fjárfestingarfyrirtæki og iðnað, heldur krúttleg kaffihús og blómabúðir.

Þegar ég ber sjálfa mig saman við þá karla sem ég hef mest samskipti við, lítur dæmið við fyrstu sýn út eins og það borgi sig illa að vera kona. Ég þekki t.d. atvinnutónlistarmann, flugmann, lögregluþjón, vörubílsstjóra, rafeindavirkja, auglýsingahönnuð og verslunarstjóra. Enginn þessara manna jafnast á við mig hvað varðar hugmyndaauðgi, framtakssemi, víðsýni og áræðni. Ég vinn meira en nokkur þessara karla, hef víðtækari þekkingu og reynslu og sennilega er ég greindari en nokkur þeirra líka. Samt býr mun meiri auður í þeirra krafti en mínum. Allavega hef ég miklu lægri tekjur. Jafnvel löggugarmurinn hefur hærri tekjur en ég. En það er merkilegt nokk ekki kynferði mitt sem slíkt sem skiptir höfuðmáli, heldur hitt að mig skortir þá hæfileika sem gera karlmanninn að sterkara kyninu. Ég hef engan sérstakan áhuga á fjármálum, tækni, öryggismálum eða raunvísindum. Mig skortir metnað og keppnisskap. Ég er meiri listamaður en sölumaður, meiri dugnaðarforkur en framapotari. Hvort sem mér líkar betur eða verr, þá gera þessar staðreyndir mig að veikara kyninu og ég get annað hvort sætt mig við það eða afneitað því, því ég get ekki breytt því.

Áðan seldi ég einhverri konu tarotspil. Það er út af fyrir sig ágætt að selja tarotspil því einhvernveginn verð ég að borga leiguna en það gladdi mig ekki baun. Það gleður mig hinsvegar þegar maðurinn sem vill alveg kyssa mig núna, horfir á mig með kankvíslegu brosi og segir furumflumm, upp úr eins manns hljóði, bara til að láta mig vita að honum finnist vefbókin mín skemmtileg. Ég held að þótt ég ætti Kaupþing með manni og mús gæti mér aldrei þótt jafn vænt um það bákn eins og litlu, fátæku Nornabúðina mína. Og Jafnvel þótt enginn auður búi í sköpunarkrafti mínum, gleður það mig alveg niður í tær að fá að skrifa það mér sýnist. En lykillinn að fjárhagslegri velgengni er geymdur í vasa sterkara kynsins, karlmannsins og hvort sem orsökin en limleysi mitt eða skortur á viðskiptaáhuga, á ég dálítið erfitt með að sætta mig við þá staðreynd að ég mun líklega aldrei tileinka mér neina færni eða þekkingu sem hefur jafn mikið praktískt gildi og það að kunna að gera karlmanni til geðs. Í því einu liggur vald og auður kvenna. Kraftur okkar skiptir ekki nokkru einasta máli.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Morðgátukvöld

  1. —————————————-

    sammála. okkar framlag er ekki metið til fjár. en við megum vera fjári krúttlegar og halda kjafti.

    Posted by: baun | 22.10.2007 | 17:52:30

    —————————————-

    Þetta er ekki bara spurning um það hvernig framlag okkar er metið. Vandamálið er að þeir hæfileikar sem einkenna konur fremur en karla eru raunverulega verðlausir og því ekkert við því að búast að þeir séu metnir til fjár. Það skilar engum hagvexti að sinna börnum og sjúklingum, reka „sæt“ fyrirtæki eða skipuleggja menningarstarf. Sem þýðir að konur ná aldrei völdum eða auði til jafns við karlmenn nema annað hvort með því að hegða sér eins og þær séu karlar og fórna þar með hamingju sinni eða með því að þiggja aðstoð þeirra og fórna þar með sjálfstæði sínu. Let´s face it.

    Posted by: Eva | 22.10.2007 | 18:17:23

    —————————————-

    „Money doesn’t always bring happiness. A man with ten million dollars is no happier than a man with nine million dollars.“

    Posted by: Pegasus | 22.10.2007 | 19:09:55

    —————————————-

    I beg to differ. Menningarstarfið skilar hellings hagvexti (bara tónlistin er orðin talsvert stærri en allur landbúnaðargeirinn)

    Ég er örugglega kræfari að rukka fyrir mín verk en ansi margir karlkollega minna. Vegna þess að ég veit að verkin falla í kramið og fólk vill kaupa. Veit að ég er ekki að tala um neinar bankastjóratölur. Bara kaupi ekki að þetta séu ekki mínar eigin forsendur heldur einhverra karla.

    (og ég skrifa það sem mér sýnist, ég er ALDREI að reyna að þóknast neinum með skrifunum) 😀

    Posted by: hildigunnur | 22.10.2007 | 20:46:25

    —————————————-

    Mér finnst þetta deprímerandi. Eva has a point, en Hildigunnur líka. Og peningar skipta ekki rassgatsmáli, þannig lagað séð, og þó? Æ, mér er illt í litla fallega hægra (eða er það vinstra?) heilahvelinu.

    Posted by: Kristín | 23.10.2007 | 6:07:31

    —————————————-

    Skipta peningar ekki rassgatsmáli? Segðu það einhverjum sem vantar þá.

    Posted by: Eva | 23.10.2007 | 14:05:03

    —————————————-

    Eva er búin að greina stöðuna. Konur eiga ekki og geta ekki breytt sér til þess að jafnrétti verði að veruleika. Við verðum að vera stoltar og finnast (að minnsta kosti) jafn merkilegt að hjúkra eða elda og að reikna krónur og aura – hvort sem karl eða kona á í hlut. Þessu erum við alltaf að klúðra. Hafið þið tekið eftir því hvað við höfum leyft meðgöngu og fæðingu að verðfalla!

    Posted by: Líba | 23.10.2007 | 15:56:30

    —————————————-

    Auðvitað skipta peningar máli, allavega svo lengi sem mann sárvantar þá.

    Hins vegar eru þeir engan veginn aðalatriðið í heiminum, ég vil þokkalega frekar fara á hausinn en að missa börnin mín eða manninn. Hvað þá að meginmarkmið mitt sé að safna sem alflestum milljörðum.

    En ég rukka samt frekar feitt fyrir verkin mín og gef mér gott tímakaup þar 😉

    (nú væri gaman ef kennslan væri eitthvað svipað borguð…)

    Posted by: hildigunnur | 23.10.2007 | 18:53:39

    —————————————-

    Það var einmitt eitthvað slíkt sem ég meinti með peningana, þeir skipta minna máli en svo margt annað. Því miður er ég ekki svo kúl og vel stæð að geta sagt blákalt: Peningar skipta ekki rassgats máli, án þess að bæta við efasemdinni, eins og ég gerði.
    En við höfum eitt fram yfir karlana: Við lifum lengur. Það er nú ekkert smáræði á þessum síðustu og verstu, ha?

    Posted by: Kristín | 23.10.2007 | 22:29:33

    —————————————-

    Við höfum auðvitað ýmislegt fram yfir karlana og þeir kæmust heldur ekkert af án okkar. Það breytir ekki því að þeir eru sterkari á öllum þessum sviðum þar sem við erum að reyna að hasla okkur völl (fáir karlar standa í örvæntingarfullri baráttu til að fá meiri hlutdeild í fæðinugm og blæðingum) og eina leiðin til að ná jafnrétti er sú að vera nógu góðar við þá til að þeir sjái sér hag í því að hjálpa til.

    Posted by: Eva | 24.10.2007 | 8:13:16

    —————————————-

    Jaaaá, en mér finnst þetta samt einhvern veginn lúserahugsunarháttur. Og þú ert ekki lúseratýpa og ekki ég heldur með mitt krúttfyrirtæki. Við erum töffarar og förum okkar eigin leiðir í velgengninni. Ég amk verð að geta hugsað þetta einhvern veginn þannig.
    Ég heyrði (flökkusögu?) af einhverjum bubbum á bar sem voru að segja hátt og snjallt að bara aular hefðu ekki meikað milljarðinn (eða hver sem himinhá upphæðin var) á árinu sem var að líða. Mér finnst þessi takmörk, að meika meiri milljónir eða milljarða ekkert spennandi. Ég væri vissulega alveg til í aðeins stabílli bankareikning, en ég hef ekkert að gera við of marga peninga, held ég.

    Posted by: Kristín | 24.10.2007 | 13:05:12

    —————————————-

    Já, það er þetta með blessaða peningana og völdin. Núna er ég í draumastarfinu mínu, sem kvikmyndafræðingur kemst ég ekki í neitt betra hér á landi en að vera með kvikmyndaþátt á Rás 1. Launin eru lág – en ég hef líka tekið eftir því að þegar ég er með hærri laun eyði ég bara meiru í eitthvað drasl sem ég hef lítið að gera með. Ég hef unnið tæpa 2 áratugi hjá útvarpinu, ef ég væri karlmaður vildi ég ef til vill verða yfirmaður eða útvarpsstjóri. En frekar gerði ég flest annað en það. Jafnvel þó ég fengi eina og hálfa milljón en ekki 200 þúsund í vasann á mánuði. Kvenlegt metnaðarleysi? Eða val um lífsgæði sem felast í því að skemmta sér konunglega í vinnunni á hverjum degi?

    Posted by: Sigga | 25.10.2007 | 0:47:54

    —————————————-

    Einmitt líka mín reynsla, meiri peningar, meiri eyðsla. Til hvers?

    Posted by: Kristín | 25.10.2007 | 6:03:40

    —————————————-

    Haldið þið að þeim sem eru með milljónir í mánaðarlaun leiðist meira í vinnunni en þeim sem eru með 200.000?

    Posted by: Eva | 25.10.2007 | 9:38:50

    —————————————-

    nei, örugglega ekki. Bara álíka. Ef manni leiðist á annað borð. Ég segi eins og Sigga, ég vil ekki sjá að skipta um vinnu. Heldur ekki að hætta að kenna, þó það sé hundilla borgað (leyfi mér þann lúxus þar sem tónsmíðarnar og söngurinn gefa bara fínt af sér)

    Annars þarf ég að skamma tvo kollega mína núna (fyrir að rukka ALLT ALLT of lítið fyrir sambærilegt verk og ég var að skila núna. Ég tvöfaldaði upphæðina sem þau höfðu rukkað en hefði sjálf viljað rukka tvöfalda mína…)

    Posted by: hildigunnur | 25.10.2007 | 21:27:39

    —————————————-

    Hildigunnur, þú ert karlmaður með brjóst. Það held ég sé hin mesta snilld.

    Posted by: Eva | 26.10.2007 | 11:31:12

    —————————————-

    Nei, ég meinti nú aðallega að mér myndi leiðast í þeirra vinnum. Vil þess vegna frekar vera með lág laun og skemmta mér en með há laun og leiðast. Annars verð ég að segja að ég þekki mikið af hálaunafólki sem leiðist afskaplega í vinnunni en þorir ekki að skipta af því að það er búið að koma sér upp svo dýrum lífsstíl.

    Posted by: Sigga | 26.10.2007 | 18:35:28

Lokað er á athugasemdir.