Furumflumm

-Bíddu. Það er hvasst, ég skal halda hurðinni, sagði hann og snaraðist út úr bílnum.
-Eða móðgastu nokkuð þótt ég opni fyrir þig og svoleiðis? spurði hann svo en virtist ekki hafa sérstakar áhyggjur af því. Meira svona eins og hann væri að spyrja fyrir kurteisis sakir.

Hvaðan kemur eiginlega þessi hugmynd um að konur fyrtist við ef þeim er sýnd smá riddaramennska? Ég þekki enga konu sem kann ekki að meta hugulsemi og kurteisi. Þekkir einhver svoleiðis konu?
-Nei alls ekki. Satt að segja vil ég gjarnan að þú komir fram við mig eins og drottningu. Það eru jafn miklar líkur á því að ég móðgist ef þú dekrar við mig, eins og að þú sjálfur afþakkir furumflumm.
-Semsagt engar líkur,
sagði hann.

Hann tók í höndina á mér og leiddi mig inn í bíósalinn. Mér finnst svooo notalegt þegar karlmaður leiðir mig. Ég velti því fyrir mér hvort hann væri meðvitað að leggja inn upp á síðari tíma furmflumm. Ég held samt ekki. Ég held að honum finnist bara líka gott að leiða mig.

Annars rifjaðist það upp fyrir mér í gærkvöld hvað ég sjálf hef óskaplega gaman af furumflummi. Sérstaklega með einhverjum sem hegðar sér eins og hann sé alveg bálskotinn í mér.

One thought on “Furumflumm

  1. ——————————————–

    Þetta er nú bara einhver smemmtilegasta framhaldssaga sem ég hef komist í lengi. Bið bara að heilsa og svona : )

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 19.10.2007 | 21:46:02

    ——————————————–

    Furumflumm er skemmtilegt orð. Ég þekki enga konu sem fær ekki kikk út úr dekri en ég er viss um að fullt af kommenterum (sic, finn ekkert annað) á moggablogginu myndi sverja að Katrín Anna slægi mann kaldan fyrir svona hegðun.

    Posted by: Kristín | 20.10.2007 | 5:58:17

    ——————————————–

    …slæi?…

    Posted by: Kristín | 20.10.2007 | 5:59:17

    ——————————————–

    Er riddarmennskan ekki dáin drottni sínum eftir allt saman ?:)

    Posted by: GVV | 22.10.2007 | 15:37:08

    ——————————————–

    Eftir allt saman hvað?

    Posted by: Eva | 22.10.2007 | 15:46:38

    ——————————————–

    Slægi.

    Slá – sló -slógum -slegið

    viðtengingarháttur þátíðar er leiddur af þriðju kennimynd og heldur því g-inu.

    Posted by: Eva | 22.10.2007 | 15:49:26

    ——————————————–

    “Er riddarmennskan ekki dáin drottni sínum eftir allt saman ?:)”

    Nei hún hefur aldrei dáið!

    En konur sem geta tekið því að vera sýnd virðingarvottur í því formi að opna hurð, draga fram stól eða borga fyrir á veitingahúsi án þess að móðgast, eru ekki á hverju strái lengur.

    Það er vandlifað nú tildags þegar ofurfemínistar reyna að stýra því hvað öllum konum á að finnast.

    Posted by: Pegasus | 22.10.2007 | 19:02:18

    ——————————————–

    Ha ha! Einmitt það sem ég sagði, alltaf einhverjir tilbúnir til að ákveða að femínistar séu mótfallnir dekri! Ég er bullandi femínisti og þekki fullt af slíkum konum og körlum og öllum þykir okkur gaman að rómantík og riddaramennsku.

    Posted by: Kristín | 22.10.2007 | 20:32:50

Lokað er á athugasemdir.