Koss

Birta: Þú skelfur gungan þín.
Eva: Viltu láta mig í friði í smástund. Ég er að reyna að … ég ég veit það ekki, tengja eða eitthvað svoleiðis.
Birta: Ég skal sjá um að tengja. Ég verð örugglega sneggri að því en þú.
Eva: Nei. Þú aftengir. Það er einmitt það sem þú gerir. Manstu eftir manninum sem sagði að ég væri með svarthol í sálinni? Það er það sem gerist þegar þú færð að ráða.

Birta: Einmitt. Og var það ekki beinlínis guðdómlegur dráttur? Og tókst helvítinu nokkuð að særa þig?
Eva: Ég þarf ekki útrás. Ég þarf nánd. Kannski smávegis… hvað heitir það -rómantík?
Birta: Vííí! Eigum við að panta fiðrildi og stjörnur? Höfum bleik fiðrildi, það er svo sætt.
Eva: Æ, góða þegiðu. Hann er góður við mig. Ég held að ég sé að fara að kyssa hann.
Birta: Þú ert ákveðin í að stefna okkur í dramakast.
Eva: Ég er orðin fertug. Fyrst ég gat heimtað sleik þegar við vorum í 7. bekk og hrist höfnunina af mér eins og húsflugu, þá hlýt ég að geta kysst hann núna án þess að það rústi lífi mínu.
Birta: Þá það góan en þú ættir þá kannski að slaka aðeins á kjálkavöðvunum. Þetta lítur nefnilega meira út eins og þú ætlir að bíta hann. Mjög fast.

Birta: Rassgat og alnæmi, hvað þykistu vera að gera? Hverskonar fálm er þetta eiginlega? Opnaðu a.m.k. augun. Þú ert eins og blindur kettlingur að leita að spena. Halló, má ég aðeins komast að, rétt svona til að sýna ofurlítinn vott af kvenlegum þokka og öryggi?

Snerti varir en slít faðmlagið um leið.
-Fyrirgefðu, ég er með sinadrátt.
Kreppi ökklann og nudda kálfann.
-Fjandinn, ég skil ekki af hverju ég er svona stressuð.
Reyndar skil ég það vel. Ég útskýrði það fyrir honum strax og hann hegðar sér a.m.k. eins og hann skilji það. Það er ekki af því að ég hafi orðið fyrir kynferðislegum áföllum, ég er ekki hrædd við hann, ekki feimin, það er ekki einu sinni ótti við nánd sem hrjáir mig. Bara þessi ofsafengna hræðsla við sorgina þegar því lýkur. Ætli þetta sé ekki kallað að vera „brennd“. Ég bara tek ástarsorg svo hræðilega nærri mér og það vill svo til að við búum í veröld þar sem loforð um eilífa tryggð eru ekki raunhæf. Eins og bróðir minn Mafían sagði einu sinni; eina leiðin til að komast hjá því að vera særður er að reisa sér kofa efst í Himalajafjöllum og einangra sig algerlega frá umheiminum. Sinadrátturinn er liðinn hjá en ég er aftur farin að skjálfa og tauta blótsyrði ofan í bringuna á honum.
-Þetta er allt í lagi, segir hann, sallarólegur. Mér liggur ekkert á. Ég hef verið kvenmannslaus í marga mánuði og ég get alveg beðið í nokkra mánuði enn.

Birta: Nokkra mánuði! Hverskonar meyjarblóm heldur hann eiginlega að ég sé? Sko! Þú ert búin að tvístíga í kringum hann í heilar tvær vikur og nú er bara nóg komið. Nú skalt þú hætta þessum taugaveiklunarskjálfta og leyfa mér að komast að.
Eva: Ég held að ég sé að fara að grenja.
Birta: Þá er nú líklega best að ég taki við stjórninni. Slakaðu á hnefunum manneskja, slepptu peysunni hans. Hvað ertu að reyna að gera? Mylja bómullina?

Ég grenja ekki. Anda djúpt og opna lófana. Geri misheppnaða tilraun til að strjúka handlegg. Vöðvarnir láta ekki að stjórn og hnefarnir kreppast aftur utan um peysuna. Hann veit að skjálftinn stafar ekki af kulda en engu að síður vefur hann teppinu þétt utan um ullarpeysuklædda taugahrúguna og þrýstir mér að sér þar til skjálftann lægir og andardrátturinn hættir að minna á fýsibelg. Mér er heitt en geri enga tilraun til að fjarlægja teppið. Það er tákn.
-Þú mátt vera brothætt. Ég virði það, segir hann.
Og ég reyni ekki að halda því fram að ég sé beinlínis afslöppuð en púlsinn er allavega kominn niður fyrir hættumörk og einhvernveginn hefur mér tekist að opna lófana. Set ofurlitla rifu á augnlokin, treð tungunni milli tannanna til að þvinga jaxlana í sundur, ég held þetta sé í lagi, svei mér þá.
-Við skulum prófa aftur, hvísla ég og þótt ég líkist fremur blindum kettlingi að leita að spena en konu að kyssa mann, þá er hann nógu háttvís að hafa ekki orð á því.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Koss

 1. ———————————————

  Ég kalla þig góða að hafa ekki farið að gráta. Ég fór að hágráta þegar ég las þetta.

  Hún er svo skelfileg þessi sorg og það tekur svo langan tíma að komast yfir hana. En það kemur. Kúnstin er að læra að eyða ekki púðri í menn sem eiga það ekki skilið.

  Mér sýnist þessi maður vera alvöru.

  Posted by: anna | 14.10.2007 | 14:17:31

  ———————————————

  Vont en það venst eins og segir í laginu með Súkkat. Ástarsorg er hræðilegur hlutur, og bráðdrepandi ef maður lætur hana ná heljartökum á sér, sem hún hefur svo sannarlega nálgast nokkrum sinnum. :/

  Posted by: Gillimann | 16.10.2007 | 0:40:28

Lokað er á athugasemdir.