Sushi

-Mig langar að kyssa þig, sagði Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni. Ég þurfti að hugsa mig aðeins um til að koma orðum að hugsun minni.
-Mér finnast kossar mjög persónulegir, sagði ég að lokum. Hann hugsaði sig um.
-Sannleikurinn er sá að mig hefur langað það í nokkra daga og þér er óhætt að taka því mjög persónulega.


-Mér finnst reyndar gott að kyssa en ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt. Ég hef ekki einu sinni sofið hjá þér.
-Það er til lausn á því vandamáli.
-Jú, það hefur svosem hvarflað að mér líka en sannleikurinn er sá að ég sef bara hjá þeim sem mér er hæfilega illa við og mér er eiginlega ekkert illa við þig.
-Get ég gert eitthvað sérstakt til að laga það?
-Ég veit það ekki. Ég hef þig m.a.s. grunaðan um að vera ekki alkóhólisti svo nei, veistu, ég held að mér sé bara alls ekki nógu illa við þig.
-Eva! Hvernig geturðu sagt þetta? Ég kaus Samfylkinguna.
-Það er útaf fyrir sig góð ástæða til að vera illa við þig, viðurkenndi ég, en ég finn ekki til djúpstæðrar fyrirlitningar. Ekki í hjarta mínu.
-Ég er flokksbundinn!
sagði hann.

Hmprffmp! Síðast svaf ég hjá sjálfstæðismanni og hélt að ég væri nokkuð örugg. Samt tókst mér ekki að verða virkilega illa við hann. Hann dömpaði mér stuttu síðar. Með hinni klassísku skýringu að hann væri svo hræddur við höfnun. Bla! Líklega hefur hann lesið bloggið mitt og komist að þeirri niðurstöðu að ég sé mjög skemmd. Sem er áreiðanlega rétt. Maður á ekkert að komast óskaddaður frá 40 árum af samfelldri sápuóperu.

Ég býst við að þurfi kjark til að elska mig og sjálf hef ég stundum verið hugrakkari en ég er þessi árin.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Sushi

 1. —————————————–

  ég held að það þurfi einna mesta kjarkinn til að elska sjálfan sig. það er langsamlega erfiðast því þá er nokkuð bókað að maður þekkir alla galla og veit um öll mistök.

  Posted by: inga hanna | 16.07.2007 | 10:37:33

  —————————————–

  ég er að velta því fyrir mér af hverju pistillinn heitir „Sushi“.

  er þér illa við hráan (og dauðan) fisk?

  Posted by: baun | 16.07.2007 | 14:56:06

  ———————————————

  Sushi vekur hugaróra af hafsbotni.

  Posted by: Eva | 16.07.2007 | 15:15:53

Lokað er á athugasemdir.