Stundum þarf maður að losa sig við eitthvað sem maður hefur haldið mikið upp á af því að það er orðið ónýtt og gagnast manni ekki lengur. Gerir jafnvel meiri skaða en gagn. Maður geymir t.d. ekki myglaða köku. Stundum er svosem hægt að lappa upp á það sem hefur skemmst. Einu sinni átti ég t.d. fallega Alparós sem fékk lús. Ég hefði sennilega getað drepið lúsina með dálítilli vinnu en rósin skipti mig ekki nógu miklu máli til þess að ég væri tilbúin að til að hafa pöddur á heimilinu svo ég henti henni.
Það sama gildir um fólk. Maður getur séð ástæðu til að draga úr samskiptum eða slíta þeim alveg jafnvel þótt manni þyki vænt um einhvern. Það var þannig sem ég leit á það. Ég hugsaði ekki sem svo að ég væri að fara út með mannsorpið heldur að ég væri að losa mig við lúsuga rós. Óskaði þér alls hins besta, vonaði að einhver hirti þig en sjálf kærði ég mig ekki um pöddurnar sem fylgdu þér og sá ekki fram á að það stæði í mínu valdi að losa þig við þær. Eða þannig hugsaði ég það allavega. Var það hræsni? Var ég reiðari en ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér? Særðari en mínum rökhugsandi kolli fannst tilefni til?
Ég hlýt að endurskoða forsendur mínar, þegar ég stend hjartað í mér að því að taka aukaslag af gleði þegar ég fæ staðfestingu á því að tvö drösl hafi náð saman og séu á hraðri leið með að eyðileggja hvort annað. Finnst það sjúkt og rangt, röklega séð en finn ekki fyrir neinni sektarkennd.
Ég hef líklega ekki verið búin að afgreiða þig eftir allt saman.