Æðruleysisuppskrift

Elskan

Þú ert góður við mig. Ég þarfnast þess. Ekki endilega frá þér, heldur bara einhverjum en það vill svo til að þú ert til staðar. Þú ert góður við mig og veist ósköp vel sjálfur að það er ekki af því að þú sért svo góður gæi, heldur vegna þess að þér finnst það gott. Þú veist líka að allar mannsins gjörðir spretta af eigingjörnum hvötum, það er bara hluti af því að vera dýr og þessvegna skammastu þín ekkert fyrir það.

Stundum veltirðu samt fyrir þér andartakinu þegar ástúð, munúð og varúð renna saman og þú hugsar; hvenær skaðar maður mann og hvenær skaðar maður ekki mann? Það er mun sjaldnar sem við veltum fyrir okkur spurningunni; hvenær lætur maður skaðast?

Það er ekkert örlagaaugnablik milli nándar og losta. Þú þarft bara að skilja þessar tvær einföldu staðreyndir; maðurinn er það sem hann gerir og hugur stýrir hönd. Vertu meðvitaður um það og þú þarft aldrei að sjá eftir neinu.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina