… allir búnir til úr dingalingalinga …

Eva. Hvar finnur maður utangarðsfólk sem er ekki utangarðs af því að það tilheyri minnihlutahóp? Ekki öryrkjar eða samkynhneigt eða hjárænulegt og með sjálfstraustið fyrir neðan frostmark? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.

-Hvað viltu með fleira utangarðsfólk?
-Mér leiðist venjulegt fólk,
sagði hann lágt eins og hann blygðaðist sín í aðra röndina. Mér finnst fólk ekki lengur áhugavert. Eins og allir séu fastir í litlum kössum úr dingalingaling.
-Finnst þér eins og þú sért púsla sem hefur lent í röngum kassa?
-Já, einmitt. Hingað til hefur mér þótt spennandi að skoða dingalingalingið í mönnunum. Hef ekki fundið hjá mér þessa þörf fyrir að tilheyra. En nú finnst mér allir vera eins, og ég er hræddur um að verða …
Hann hugsaði sig lengi um en kom ekki orðum að því sem hann vildi sagt hafa.
-Eins og ég? Endalaust að glíma við mannfyrirlitningu af því að þú sjálfur ert so fucking special að enginn annar nær upp í hina djúpu visku þína? spurði ég og reyndi ekkert til að halda aftur af kvikindinu í mér.
-Utangarðsmaður. sagði hann. Ég hef horft upp á þig einangrast, smátt og smátt. Það er í lagi að vera jaðarmanneskja en ég veit ekki hvort ég þoli að vera utangarðs. Og það er að gerast.

Ég gekk í gegnum nákvæmlega það sama á hans aldri. Hafði alltaf þótt fólk spennandi. Fór á Bíóbarinn snemma kvölds, ein, sérstaklega í þeim tilgangi að stunda mannfræðirannsóknir. Drakk í mig skrýtna karaktera, eignaðist blíðviðrisvini allsstaðar. Svo fór mér að leiðast hringlið í kassanum. Þótti fólk sem áður hafði virst áhugavert, þröngsýnt og leiðinlegt. Jaðarinn færðist fjær, ég sinnti kunningjum lítið og illa, þoldi eigin félagsskap betur en fyrr. Reyndi að kíkja út úr kassanum en það virtist bara ekki vera neitt skárra dingaling fyrir utan hann. Aðallega fíklar og aðrir stjórnleysingjar. Mér leiddust þeir líka.

Ég ætla ekki gera lítið úr gildi þess að eiga vini í blíðu en ég eignast ekki lengur vini af því tagi sjálf. Ég bara nenni því ekki.

-Það er fullt af fólki í okkar sporum, sagði ég. Það bara veit af langri reynslu að það passar ekki inn í púsluspilið og heldur sig þessvegna til hlés. Sumir koma sér upp vinnu og áhugamálum sem krefjast einveru og finna félagsþörf sinni útrás í gegnum ímyndaðan heim. Tölvuleiki eða blogg. Aðrir brynja sig með mannfyrirlitningu og þykjast ekki þurfa á neinum að halda, lenda svo í vandræðum þegar andfélagsleg viðhorf leiða til andfélagslegar hegðunar. Eða verða snældugeveikir því það er ekki hægt að lifa án samfélags.
-En hvar hittir maður ekki mjög geðveikt fólk sem passar samt ekki inn í dingalingalingkassann?
sagði hann.
-Maður hittir það ekki. Ekki nema af tilviljun, sagði ég, og þótt maður hitti utangarðsfólk er ekki þar með sagt að það tilheyri sama púsluspili og maður sjálfur.

Stundum efast ég um að ég sé uppbyggilegur félagsskapur.

 

One thought on “… allir búnir til úr dingalingalinga …

  1. ———————————-

    Sumarið 91 vann ég á Bíóbarnum. Lærði margt og eitt af því er hvað fólk er helvíti leiðigjarnt.

    Posted by: Barbie | 23.11.2006 | 12:49:58

    ———————————-

    Ég hef alltaf verið fyrir það að virða fyrir mér fólk og þeirra kenjar eða kosti, hvernig það hagar sér.
    Þegar ég fann svo félagsfræðina fékk ég loksins afsökun fyrir því að stara á fólk…

    Posted by: Gillimann | 23.11.2006 | 13:15:57

    ———————————-

    mér þykir vænt um fólk og verð oft hissa þegar verið er að benda mér á eitt og annað „pirrandi“ við það.

    þetta hlýtur að vera óeðli í mér.

    Posted by: baun | 23.11.2006 | 13:17:06

    ———————————-

    Flott síða hjá ykkur !

    Posted by: julli | 23.11.2006 | 18:12:25

Lokað er á athugasemdir.