Nýtt heilkenni

Ég var að uppgötva nýjan sjúkdóm; sjúkdómsgreiningarheilkennið.

Sjúkdómsgreiningarheilkennið kemur fram í sterkri tilhneigingu til að klína sjúkdómsheitum á hvern þann eiginleika sem gerir karakter að karakter. Sá sem er haldinn sjúkdómsgreiningarheilkenni er logandi hræddur við hvern þann sem gæti talist „so fucking special“ og finnur hjá sér óstöðvandi hvört til að útskýra viðhorf hans og tilfinningaviðbrögð sem eitthvað óeðlilegt sem þarf að „lækna“. Ef einhver víkur örlítið frá fullkominn meðalmennsku, hlýtur eitthvað að vera að honum. Allt sem er á einhvern hátt óþægilegt fyrir meðaljóninn í okkur, hvort sem um er að ræða andfélagslega hegðun eða bara sérvisku sem veldur svosem engum skaða, er skilgreint sem sjúklegt ástand.

Illa uppalin börn eru ofvirk, agalausir letingjar með athyglisbrest, fólk sem er stjórnlaust af frekju með þrjóskuröskun, einfarar haldnir tengslaflótta, fólk með ríka skipulagshvöt er með þráhyggju og einþykkt fólk sem spyr óþægilegra spurninga eða hefur þörf fyrir meiri líkamlega nánd en gengur og gerist með Aspergerheilkenni.

Sjúkdómsgreiningarsjúklingurinn er þó sá eini sem á raunverulega bágt. Sjúkdómsheiti hans hefur nefnilega ekki ennþá verið viðurkennt og því engin meðferð til við kvillanum. Meðferðin við öllum hinum heilkennunum er fyrst og fremst sú að nota sjúkdómsheitið til að skýra öll frávik í hugsun og hegðun og ef það dugar ekki til þess að aðstandendum sjúklingins líði betur er tekist á við ástand þeirra með því að dæla fíkniefnum í heilkennishafann. Ég býst við að sjúkdómsgreiningarheilkenni megi lækna með cannabis.

(Þessi færsla átti að bera titilinn „sjúkdómsgreiningarheilkennið“ en þar sem blogger er haldinn uppsetningarrröskurnarheilkenni, sem kemur fram í því að raska uppsetningu síðunnar ef ég hef langar fyrirsagnir eða reyni að setja inn fleiri tengla (það er bara þessvegna sem þeir eru ekki fleiri)varð ég að stytta hann. Anna er að búa til nýja bloggeróháða síðu handa mér svo þetta stendur til bóta.)

Best er að deila með því að afrita slóðina