Það kostar ekki bara þjáningu að vera fögur, það kostar líka bæði tíma og peninga. Stundum þarf maður m.a.s. að vera í sæmilegu formi líkamlega og/eða andlega til að vera fær um að fremja fegrunaraðgerðir í heimahúsum.
Í viðleitni minni til að afmá ummerki skyldleika míns við hinn einkar ógeðfellda Snjómann, komst ég að raun um að rifkrafturinn í vinstri úlnlið mínum hefur dalað verulega frá síðasta ritúali mínu af þessu tagi. Ekki væri verjandi að lýsa afleiðingunum á vefsíðu sem viðkvæmar sálir eiga til að rangla inn á en orðbragðið sem ég viðhafði getur vart talist kvenlegt.
-Einn ein ástæðan fyrir því að mig vantar maka, sagði ég þegar drengurinn sem fyllir æðar mínar af Endorfíni bankaði upp á að aðgerðinni lokinni.
–Ræt! Þú myndir náttúrulega ganga um með loðna handarkrika ef þú værir í sambúð! svaraði hann og tónninn gaf til kynna að trúverðugleiki minn væri ekki í hámarki.
-Auðvitað ekki kjáninn þinn, ég er engin sóðabrók, en þá hefði ég einhvern til að hjálpa mér við þetta, urraði ég grimmdarlega.
-Hjálpa þér? Hann kyngdi tvisvar, hryllti sig og var á svipinn nánast eins og ég hefði boðið honum kleinu.
-Þú getur víst prísað þig sælan gæskur. Ef þú hefðir komið 10 mínútum fyrr hefðir þú lent í því að tæta af mér vaxstrimilinn.
Hann horfði á mig þegjandi um stund, sagði svo:
-Stundum finnst mér eins og það sé að renna upp fyrir mér hversvegna þú ert einhleyp.
Síðast í gær sagði annar ungur maður mér að sér þætti barnsfæðing verulega grótesk hugmynd. Getur verið að karlmenn af yngri kynslóðinni séu ekki jafn miklir naglar og strákar voru diskótímanum? Eða eru menn á mínum aldri líka svona viðkvæmir?