-Lokaðu búðinni og sinntu mér! sagði hann og þrýsti mér að sér.
-Þú fyrirgefur en þetta faðmlag jaðrar við að vera erótískt. Hvurslags ástsýki er eiginlega hlaupin í þig?
-Þú ætlar að hitta mann. Kannski er þetta síðasta tækifærið mitt til að vera hjá þér.
-Drottinn minn dýri! Ég ætla í bíltúr austur fyrir fjall. Með manni sem ég hef aldrei séð og veit ekkert um. Ætli við hittumst nú ekki aftur áður en ég gifti mig!
Hann sleppti heljartakinu af mér, strauk fingri yfir vanga minn og kyssti mig á munninn.
-Ég vona í alvöru að þú finnir maka sem metur þig jafn miklis og ég, sagði hann og brosti dapur.
-Það liggur í hlutarins eðli að sá sem vill frekar búa með mér en einhverri annarri, hlýtur að meta mig meira en þú, svaraði ég blíðlega og potaði í nefið á honum.
-Þú einfaldar hlutina of mikið, sagði hann og herti skrúfstykkið aftur.
-Þetta þarfnast ekki einföldunar ljósið mitt. Í einfeldni sinni er málið þannig vaxið að þú elskar konuna þína meira en mig. Og það er bara allt í lagi, mér tekst áreiðanlega að elska einhvern sem er tilbúinn til að setja mig í fyrsta sætið.
-Ég vil vera hjá þér í nótt. Í alla nótt, sagði hann,
„…og mér fannst stundum eins og þú jafnvel elskaðir mig svolítið.“